Yfirferð laga 2012 – I. hluti

Jæjajæja, er ekki kominn tími á spár okkar stallsystra? Nú er slétt vika í fyrsta undankvöldið og því við hæfi að líta á þau lög sem keppa þá og spá þeim áfram sem við höfum trú á og hinum… tja 🙂

Yfirferðirnar okkar koma að þessu sinni í fimm færslum, tvær um hvort undanúrslitakvöld og síðan ein að lokum um lögin sex sem eingöngu keppa í úrslitunum!

1. Svartfjallaland (Rambo Amadeus) – Euro Neuro

Eyrún segir: Húmor, já – yfirleitt nær hann til mín í Eurovision og ef ég skyldi eitthvað í enskunni hans Rambo væri ég kannski jákvæðari. En framburðurinn er hörmulegur og húmorinn sennilega of staðbundinn til að höfða til okkar hér norður frá. Ekki áfram nema eitthvað stórkostlega undarlegt verði í vatninu hjá þeim sem horfa á.

Hildur segir: Ég á voðalega erfitt með að gera upp hug minn varðandi þetta lag sem er vægast sagt erfitt að skilgreina. Mér finnst það svolítið fyndið og myndbandið snilld. Hins vegar get ég ekki fyrir mitt litla líf reynt að spá fyrir um hvernig þetta fer í Evrópubúa. Verð þó að segja að það kæmi mér ekki á óvart ef það kæmist áfram, enda þessi fyrsti riðill ekki upp á mjög marga fiska.

2. ÍSLAND (Greta Salomé og Jónsi) – Never forget

Eyrún segir:  Greta og Jónsi voru svakalega flott í Hörpu og enn flottari á æfingunni í Kristalshöllinni. Lag sem fær mig til að fá gæsahúð aftur og aftur og ég ætla að leyfa mér að vera frekar bjartsýn og spá því áfram – og meira að segja ekki í síðasta umslaginu eins og undanfarin ár!

Hildur segir: Upphaflega þegar ég heyrði lagið fannst mér það ekki meira en allt í lagi og mundi ekki hvernig það hljómaði þegar því lauk. Auk þess fannst mér Jónsa og Gretu vanda þetta svokallað kemestrí á sviðinu. Lagið hefur hins vegar vaxið mjög síðan þá og í dag finnst mér það æðislegt og henta fullkomlega í júróvísjon. Enski textinn kemur ljómandi vel út og ef marka má fyrstu æfingu hjá hópnum þá mun þetta renna vel á sviðinu. Ég hef þó enn áhyggjur af því að Greta og Jónsi finni ekki kemestríuna á sviðinu og verði svolítið eins og þau séu að syngja á sitt hvoru sviðinu en vona sannarlega að það komi ekki að sök. Er eiginlega 100% viss um að við komumst í úrslit!

3. Grikkland (Eleftheria Eleftheriou) – Aphrodisiac

Eyrún segir: Grikkir sem eru á hausnum, ákváðu að blanda bara saman nokkrum gömlum grískum Júró-slögurum og skelltu svo í eina Júró-skvísu, hana Eleftheriu og senda í Eurovision – mjög líklega með góðu árangri, þetta eru jú Grikkir! Ekkert sem höfðar til mín en kemst bókað áfram.

Hildur segir: Grikkland býður alls ekki upp á neitt nýtt í ár. Hér er á ferðinni sérlega hefðbundið Europopp og ég verð að segja því miður í síðri kantinum. Ég er mjög mikill aðdáandi góðra og vel pródúseraðra europopplaga en hérna vantar eitthvað. Dansinn í myndbandinnu er líka hálf amaturlegur og fer hrikalega í taugarnar á mér þrátt fyrir að uppáhaldsjúróvísjondansarinn minn, hann Jenia Evgenios, dansi með! Þrátt fyrir þetta spái ég því að Grikkland fari áfram í úrslit, það fer jú næstum því alveg alltaf!

4. Lettland (Anmary) – Beautiful Song

Eyrún segir: Einhvern veginn náði þetta lag mér strax við fyrstu hlustun, en ég hef nú yfirleitt alltaf fílað vel þessi pínu skrýtnu framlög, eigum við ekki að kalla það post-Sylvia-effect? 😉 Anmary með stóru dádýraaugun er nú kannski ekki alveg besta söngkonan og lagið alls ekkert meistaraverk en þegar sungið er um Johnny Logan og smá húmor fyrirfinnst tralla ég með! Ég held ekki að Lettland komist áfram úr undankeppninni frekar en síðustu þrjú ár með þessu lagi, en ég ætla að skemmta mér yfir því!

Hildur segir:  Mér finnst þetta lag eitt af því eftirminnilegri í keppninni. Strax og ég var búin að hlusta á fyrstu mínútuna var ég komin með það á heilann og hef vaknað með það á heilanum nokkrum sinnum, það grefur sig sem sagt mjög vel í undirmeðvitundina! Mér finnst textinn fyndinn þótt hann trufli mig svolítið. Það sem ég held að eigi eftir að trufla lagið er sviðsetningin, ég sé ekki fyrir mér hvernig hún mun fara fram enda textinn hér í meira aðalhlutverki en lagið sjálft. Held ég spái því samt sem áður áfram í úrslit.

5. Albanía (Rona Nishliu) – Suus

Eyrún segir: Rona syngur hér djassskotna ballöðu sem er vægast sagt sérstök og ekkert ákaflega áheyrileg, en sýnir færni hennar sem söngkonu. Verst að þetta er SÖNGVAkeppni en ekki söngkeppni. Lagið nánast ekkert og Albanía ekki á leið í úrslit að mínu mati.

Hildur segir: Guð minn góður!!!! Ég hef aldrei getað hlustað á þetta lag til enda, er alltaf orðin svo pirruð áður en það gerist að ég verð að slökkva! Finnst þetta eitt af leiðinlegri lögum keppninnar í ár og bara með leiðinlegri lögum sem ég hef á ævinni heyrt! Hins vegar er hópur sem hreinlega elskar þetta lag og því allt eins líkur á að hann sé jafn stór og við sem þolum það ekki!! Ég get þó ekki með góðri samvisku spáð því áfram, hreinlega bara af því mér finnst það svo leiðinlegt!!

6. Rúmenía (Mandinga) – Zaleilah

Eyrún segir:  Mandinga-hljómsveitin stígur með hresst og latínóþrungið lag sem er samt eiginlega ekki neitt nema viðlagið, Zaleilah-lei… Ég verð að viðurkenna að ég hreifst ekkert strax og áður en ég vissi neitt um hljómsveitina, fór það endalaust í taugarnar á mér að þau skyldu syngja á spænsku, veit ekki af hverju. En lagið höfðar svo sannarlega til fjöldans og fer bókað áfram í úrslitin.

Hildur segir: Rúmenar bjóða okkur upp á strandpopplag í ár sungnu á móðurmálinu. Þótt ég gjarnan vildi finnast þetta hresst og skemmtileg lag þá finnst mér það bara alls ekki, finnst það frekar flatt og þreytandi. Það er eins með þetta framlag og framlag Letta, ég sé illa fyrir mér hvernig hægt er að sviðsetja lagið svo vel komi út í sjónvarpi. Ef vel tekst til gæti þetta gengið, annars situr það eftir heima á úrslitakvöldinu.

7. Sviss (Sinplus) – Unbreakable

Eyrún segir: Iðnaðarrokk sem er eins og lögin frá Sviss eru alltaf: miðlungs og hvorki né. Þetta er hvorki skemmtilegt né leiðinlegt, hvorki gott né sérstaklega slæmt. Og þetta á ekki eftir að komast áfram – vegna þess hreinlega að það kemur til með að detta á milli…

Hildur segir: Rokk eða rokkskotin lög virðast vera orðin hefð í júróvísjon eftir að Lordi kom sá og sigraði. Svisslendingar hafa ekki átt sérlega góðu gengi að fagna í júróvísjon undanfarið og reyna núna fyrir sér í rokkinu. Það er með þetta lag eins og svo mörg önnur þetta fyrra undanúrslitakvöld að það er allt í lagi en ekki mikið meira en það. Þrátt fyrir að þetta sé betra rokklagið sem stígur á svið þetta kvöld þá held ég að það komist ekki áfram í úrslit.

8. Belgía (Iris) – Would you?

Eyrún segir: Í opinbera myndbandinu leit Iris út eins og ein af yngstu systrunum úr Sound of Music, með lagt hár og ég veit ekki hvað. Útlitið passaði svo sannarlega ekki við röddina og texta lagsins og hún náði mér aldrei. Svo sannarlega ekki minn tebolli og ég held að þessi yngsti keppandi ársins fái að hvíla sig vel fyrir flugið heim á laugardagskvöldið og horfa á keppnina úr salnum.

Hildur segir: Hún Iris syngur hérna huggulegt lítið lag sem hægt er að flokka sem ballöðu. Lagið finnst mér allt í lagi en afskaplega óeftirminnilegt. Það er alltaf eitt til tvö lög í hverri keppni sem maður gleymir alltaf og í ár er þetta eitt af þeim lögum hjá mér. Ég held því að margir munu skreppa og poppa þegar lagið hefst og koma passlega til að hlýða á finnska lagið sem er mun huggulegri og betri ballaða en þessi. Spái því Belgíu ekki áfram í úrslitin í ár.

9. Finnland (Pernilla) – Når jag blundar

Eyrún segir: Mér finnst þetta ofsalega fallegt lag og ég tek ofan fyrir Finnum að syngja á öðru af tveimur opinberum tungumálum sínum; finnlands-sænsku (en ekki ensku eins og hin Norðurlöndin). Þetta er klárlega lagið sem dómaraatkvæðin eiga eftir að hífa upp ef áhorfendur heima fyrir gleyma því og ég segi að það komist áfram á þeim – en samt algjörlega á eigin verðleikum!

Hildur segir: Kannski er það norræni fílingurinn sem ég heyri í þessu lagi sem heillar mig en ég er dolfallin fyrir þessu lagi! Fyrst var ég alls ekki hrifin en eftir að hafa hlustað á hvert leiðndalagið á eftir öðru er þetta lag eins og ljúfur andvari á sumardegi. Mér finnst þetta besta ballaðan sem flutt er þetta kvöld og verð því að spá því áfram þrátt fyrir að ég spái þá því sem ólíklegt er að gerist, nefninlega að öll þrjú Norðulöndin sem keppa þetta kvöld komist áfram!

Auglýsingar

Ein athugasemd við “Yfirferð laga 2012 – I. hluti

 1. Anna Ólafsd. skrifar:

  Flott hjá ykkur Eyrún og Hildur, hlakka til að lesa næstu skammta.

  Ég vil benda hér á lag sem „átti“ öruggaleið upp úr undankeppninni 2010, fyrsti riðill 25-05-2010. http://www.youtube.com/watch?v=AwRxryf6AZk Fékk í símakostingu 34 stig=14 sæti og dómnefnd 25 stig=16 sæti. Samtals 24 stig=16 sæti af 17 þjóðum.

  Hér er listi sem ég birti á Facebook síðunni ykkar í fyrra. Um þau lönd sem komust ekki áfram í aðalkeppnina árið 2011.
  Montenegro —
  Poland 2008 ekki með, fótbolti.
  Norway 2010
  Albania 2010
  Armenia 2010 ekki með, landamæradeila.
  Turkey 2010
  Malta 2009
  San Marino —-
  Croatia 2009
  Portugal 2010
  Netherlands 2004 (Sjö ár)
  Belgium 2010
  Slovakia —-
  Cyprus 2010
  Bulgaria 2007
  Macedonia 2007
  Israel 2010
  Belarus 2010
  Latvia 2008

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s