„Á hringitón hjá stelpu í Túrkmenistan“ – viðtal AUJ við Gretu Salóme

Allt um Júróvisjón hitti Gretu Salóme, Eurovision-fara og lagahöfund á kaffihúsi um daginn og spjallaði við hana um tímann fram undan og stóra kvöldið í Baku, þann 22. maí næstkomandi.

Hvernig gengur undirbúningurinn fyrir keppnina? Er þetta jafn brjáluð vinna og oft er sagt?
Það er sko alveg nóg að gera og undanfarið höfum við verið að vinna heilmikið í allri svona fjölmiðlavinnu, í tengslum við viðtöl o.fl. þarna úti. Þessi beini undirbúningur á atriðinu sjálfu hefur svo staðið yfir undanfarnar vikur og hópurinn í ströngu æfingaferli.

Ég er mjög mikið inni í þessu öllu saman og með puttana í flestum málum sem bæði lagahöfundur og flytjandi. Mér finnst það pínu sérstakt að vera svona beggja vegna borðsins, eins og maður þurfi stundum að setja sig í „höfundar“-stellingarnar og svo „framkomu”-stellingar. Ég get t.d. ekki bara mætt á sviðið og sungið því að það þarf að vinna í útliti atriðisins, hvernig þetta verður sýnt á sviðinu, hreyfingum o.s.frv.

Ég hef svo líka verið að vinna að mastersritgerðinni minni í tónlist og var að skila henni núna rétt í tæka tíð áður en við förum út á laugardaginn. Ég gat reyndar nýtt Eurovision-verkefnið aðeins í lokaverkefninu mínu sem er bara gott.

Geturðu sagt okkur ögn frá atriðinu, hvernig það þróaðist í það sem við sáum í Hörpu? Kemur það til með að breytast?
Við náttúrulega unnum óhemju mikið í atriðinu fyrir keppnina í Hörpu, alveg nótt og dag og það skilar sér í því að nú þurftum við ekki að byrja alveg á núllpunkti.

Það verður mjög margt sem við vinnum með úr atriðinu eins og það var í Hörpu en við þurfum aðeins að stækka skalann á því þar sem sviðið er talsvert stærra. En hlutir eins og þegar við göngum fram hönd í hönd, verða mjög líklega nýttir. Við munum nú ekki fara í einhverjar sprengingar. Varðandi dramatísku þögnina í myndbandinu væri líka mjög gaman að halda í hana en lagið er 2:59 mínútur og má bara vera 3 mínútur. Ef við viljum ekki að það verði klippt á okkur þá getum við ekki haldið þögninni inni, þó að ég væri alveg til í það!

Við erum byrjuð að skoða hvernig atriðið kemur til með að líta út. Við viljum auðvitað halda í allt þetta íslenska eins og hægt er og íslensk hönnun verður eitt af því sem við leggjum áherslu á þarna úti. Við frumsýndum í dag búningana sem hópurinn verður í. Kjóllinn minn er hannaður af Rebekku Ingimundardóttur og er mjög tignarlegur og flottur.

Það eina sem mér finnst kannski óþægileg tilhugsun er að í öllu þessu plani, t.d. hvernig við viljum vera á sviðinu, þá fáum við engu að ráða um hvernig bakgrunnurinn verður. Við gætum lent í að fá einhvern höfrung eða álíka! Við höfum séð stóru þjóðirnar sumar með sinn bakgrunn sérvalinn í samræmi við hreyfingar á sviðinu.

Hvernig leggið þið upp með að kynna lagið, eru komnar hugmyndir um „markaðssetningu“?
Við höfum Friðrik Ómar í því og hann stendur sig mjög vel. Það er samt pínu stressandi að fara út með svona mikinn meðbyr, að vera ofarlega í könnunum og veðbönkum en ég minni sjálfa mig bara á að þetta er Eurovision – það getur svo sannarlega allt gerst. Ég lít bara á þetta sem tónleika og ég kann inn á það, ég geri það dagsdaglega. Ég trúi líka bara á lagið og þegar maður hefur lag sem maður trúir á og finnst vera sterkt finnst mér ekki að alls konar gimmikk og búningar eigi að gera neitt annað en ýta undir lagið, ekki reyna að bjarga einhverju sem er ekki nógu gott.

Nú voru miklar spekúlasjónir um hvort texti lagsins yrði á íslensku eða ensku. Hvað finnst þér um enska textann?
Ég bara hefði aldrei trúað að það yrði gert svona mikið mál úr þessu með tungumálið! Þetta var ekki svona þegar Hera eða Vinir Sjonna fóru út, þá var lagið bara haft á ensku og ekkert meira með það. Núna virtust allir hafa skoðanir og mjög hávær hópur fordæmdi það að verið væri að hugsa um að hafa textann á ensku. Auðvitað var íslenskur texti hugsaður á laginu frá upphafi, sérstaklega hvað varðar söguna af Ragnheiði biskupsdóttur og Daða.

Lagið sjálft  er þrungið merkingu, hefur íslensku áhrifin af fimmundasöngnum en hefur jafnframt austurlensk áhrif sem verður vonandi til þess að fleiri áhorfendur sperri eyrun. Þessi umræða um textann reis hæst í kringum útgáfu myndbandsins og ég var eiginlega hálfhrædd við aðdáendurna og viðbrögð þeirra því að yfirlýsingarnar voru þvílíkar ef við hefðum lagið ekki á íslensku. Síðan var þetta ákveðið og ég hef í rauninni bara fengið góð viðbrögð. Fylgið við lagið hefur bara aukist, bæði áhorf á myndbandið verið mjög mikið og margir að kommenta.

Ég fæ líka að heyra: „Syngið þið svo ekki eitt erindi á íslensku?“ og e-ð í þeim dúr en þetta stendur bara svona, það er búið að ákveða þetta! Lagið hefur líka svo margt í sér, mörg íslensk element sem haldast áfram.

Fjöldi erlendra aðdáenda keppninnar hafa mært lagið ykkar, hefur þú sjálf fengið mikil viðbrögð frá aðdáendum? Hvað er það eftirminnilegasta sem þú hefur heyrt frá aðdáendum um lagið?
Ég er svo jarðbundin týpa að ég á svakalega erfitt með að átta mig á því að fólk hafi svona einlægan áhuga á því sem maður er að gera!

Á hinn bóginn finnst mér líka gaman að hugsa til þess að einhver hugsmíð frá mér, sem ég sem við hljómborðið heima upp úr engu skuli verða að nokkurs konar hvirfilvindi og ná eyrum alls þessa fólks um allan heim. Í sjálfu sér finnst mér lagið hafa náð því sem því var ætlað, bara með því. Þetta er góður vettvangur fyrir mig sem höfund og flytjanda að fara á og kynna mína tónlist og við komum til með að gera það líka þarna úti.

Mér þykir sérstaklega vænt að heyra viðbrögð fólks um að lagið sé ánetjandi og að það leiti á fólk – kannski þegar það liggur og hlustar á það í sólbaði í Grikklandi! Það hlýtur að þýða að sagan og hughrifin úr laginu sem er samið hérna upp á kalda Íslandi í Skálholti sjálfu um raunverulegar persónur, Ragnheiði og Daða – skili sér til þeirra sem hlusta. Ég er líka himinlifandi yfir því að sömu áhrif fást í myndbandinu og það allt ferli var svo frábært samstarf.

Það skrítnasta sem ég hef heyrt um viðbrögð við laginu var þegar ég rakst á stelpu frá Túrkmenistan sem skrifaði á síðuna hjá sér að hún væri með lagið á íslensku sem hringitóninn sinn í símanum! Hún getur ekki einu sinni kosið í Eurovision frá Túrkmenistan!

Hvernig meturðu möguleika lagsins fyrir fram? Eru væntingar Íslendinga miklar?
Væntingarnar hér heima eru alltaf einhverjar, og maður finnur það líka hjá sjálfri sér. Ég er bara spennt að taka þátt í þessu og finnst það vera í rauninni heiður að fá að stíga á sviðið með lagið og flytja fyrir 120 millljónir manna. Það er einhvern veginn allt annað að leggja í undirbúning og vinnu á atriði sem er hugsað fyrir svoleiðis áhorfendahóp heldur en 320 þúsund hér heima.

Maður verður að gera ráð fyrir því að það sem er íslenskt og talar til okkar í laginu geri það ekki við útlendinga. Stundum vildi ég að ég gæti stigið út fyrir rammann og horft á lagið og atriðið alveg með augum útlendings því að það er svo margt sem litar afstöðu okkar til þess. Við þekkjum þetta allt svo vel, söguna og áhrifin úr tónlistinni – og e.t.v. er enski textinn einn liður í því að hjálpa öðrum að komast inn í lagið á sama hátt og eiga einhvern hluta í þessu hughrifum sem við Íslendingar höfum greiðari aðgang að með öllum hinum elementunum í laginu.

Ertu sjálf Eurovision-aðdáandi? Hefurðu fylgst með keppninni í gegnum tíðina?
Ég fylgist með keppninni á hverju ári og býð oft í Eurovision-partý, en lít keppnina sennilega öðrum augum en flestir. Ég geri t.d. lítið af því að kynna mér lögin fyrir fram. Því miður er of oft fátt um fína drætti í gæðum laganna en inn á milli leynast vissulega demantar sem maður hrífst algjörlega af. Sem dæmi er norska lagið Nocturne með Secret Garden frá 1995 sem vann það árið og ég heillaðist af og líka serbneska lagið árið 2007 sem var þó algjört Eurovision-lag með svona poweri en svo melódískt.

Hefurðu skoðað framlög annarra landa í ár?
Ég náði loksins að fara yfir lögin og skoðaði helst þessi sem eru ofarlega á spám aðdáenda, líklegast að þau verði keppinautar okkar þarna úti. Þau eru mörg mjög sterk en ég held að við séum ágætlega staðsett á eftir Svartfjallalandi og á undan Grikklandi, þar sem það eru svo ólík lög. Svo fer útkoman algjörlega eftir stemmingunni á kvöldinu sjálfu!

Hvernig leggst það í þig að vera að fara í 2 vikna Eurovision-ferð með tilheyrandi látum?
Mér finnst mjög skemmtileg og spennandi tilhugsun að vera að fara þarna út. Hópurinn er rosalega góður og samheldinn og með Pétri Erni og Gísla á okkur sko aldrei eftir að leiðast!

Ég fer með kærastanum mínum og systur minni sem er að vinna fyrir hópinn og pabba, og svo hittum við mömmu úti en hún hefur verið á Spáni frá áramótum. Þannig að þetta verður eitt allsherjar fjölskyldu-reunion sem er bara frábært þar sem þetta er svo langt í burtu núna og kannski ekki svo margir Íslendingar að fara á keppnina sjálfa.

Að lokum geturðu sagt okkur hver er stærsta borg í Azerbaijan og hvað gjaldmiðilinn þar heitir? :o)
Er það ekki bara Baku? Ég man ekki hvað gjaldmiðillinn heitir en 1 stk af honum, ein azersk “króna”, er ca. það sama og 1 evra, sem er ágætt að muna.

Við þökkum Gretu Salóme kærlega fyrir skemmtilegt spjall og óskum henni og íslenska hópnum sérstaklega góðs gengis úti í Baku – og þeirra vegna, að þau verði ekki dregin upp úr síðasta umslaginu!

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s