Reikniformúla fyrir sigurlagið!

Sunna Mímisdóttir, sérlegur júróvísjontölfræðispekingur og gestapenni hér á AUJ leggur fram tilgátu um hið fullkomna sigurlag!

Ég er ein af þeim sem fyllist Gleðibanka-geðveiki í byrjun hvers árs. Alveg sama hversu mikið ég gæti hafa fussað og sveiað yfir gæðum laganna sem dynja á manni í janúar og febrúar þegar Söngvakeppni Sjónvarpsins fer fram, þegar búið er að velja framlag Íslands fyllist ég alltaf ákveðinni sigurtilfinningu.

Ég segi nú kannski ekki að ég sé sannfærð um íslenskan sigur í hvert skipti en ef ég á að skjóta gróflega á þetta þá hef ég sennilega spáð Íslandi að jafnaði um 5. sæti. Ég held meira að segja að ég hafi giskað á að Angel myndi lenda í 2. sæti. Grínlaust. Það þarf því engan snilling til að sjá að spádómshæfileikar mínir sökka, afsakið orðalagið.

Hins vegar hef ég batnað örlítið í spá um sigurvegara síðustu árin. Ég spáði rétt 2009 og 2010 og var næstum búin að spá Serbum sigri árið 2007. Ást mín (eða þráhyggja, túlkist að vild) á Júróvisjon-tölfræði er sprottin undan þeirri ósk um að geta bara reiknað þetta út án þess að þurfa að spá nokkuð yfir höfuð. Hugsið ykkur bara, ef ég gæti reiknað út sigurvegarann löngu fyrir keppni bara með því að slá inn nokkrar tölur í excel, komist að því að veðbankar gæfu þessu tiltekna lagi líkurnar 1/250, þá gæti ég auðveldlega safnað upp í digran ferðasjóð fyrir næstu keppni. Hún mætti þá vera haldin í Fjarskanistan mín vegna.

Þessi reikniformúla er í vinnslu. Þangað til verð ég að treysta á glataða spádómshæfileika og brenglað innsæi. Ég þjáist nefnilega af alvarlegu tilfelli af ákveðinni röskun, makedónska heilkenninu og einkenna verður yfirleitt vart í lok mars á hverju ári. Í lok apríl er ég svo komin á lokastig sjúkdómsins og öll lögin í keppninni eru orðin góð. Nema Facebook lagið í ár. Það verður aldrei gott. Ralph Siegel, heyrirðu það? ALDREI!

Í byrjun janúar dreif ég mig á netið til að hlusta á fyrstu lögin í Söngvakeppni Sjónvarpsins, alveg undir það búin að hakka þau í spað og fárast yfir því af hverju það kæmi aldrei neitt almennilegt í þessa keppni. En það gerðist ekki. Þarna var lag sem fangaði mig við fyrstu hlustun. Reyndar fannst mér talsvert varið í fleiri lög í fyrsta riðlinum en þetta dularfulla lag með fimmundarsöng og rammíslenskum þjóðlegum blæ dáleiddi mig. Það var mánudaginn 9. janúar sem ég sagði upphátt við sjálfa mig „Vá, þetta er fyrsta íslenska sigurlagið!“.

Ég stend enn við þessi orð. Í ár verður það íslenskur sigur. Næsta mál á dagskrá er auðvitað að analísera sigurlög síðustu ára niður í öreindir til þess að greina hvað öll þessi lög eiga sameiginlegt og athuga hvort lagið hennar Gretu Salóme hefur sömu eiginleika. Bara svona til öryggis áður en viðbótarlífeyrissparnaðurinn verður lagður undir á William Hill.

Sigurlagið er ekki endilega alltaf besta lagasmíðin. Það er alls ekki alltaf flutt af besta söngvaranum, langt frá því. Og ekkert lag vinnur á tæknibrellum einum saman, eða því sem á ensku gæti kallast „gimmick“. Það eru nokkrir samverkandi þættir sem færa sigurinn heim.

Eins og í síðasta tölfræðipistli lendum við aftur í vandræðum með marktæki þar sem úrtakið er svo lítið. Við getum einfaldlega ekki borið sigurlög síðustu ára við sigurlög 10. áratugarins þar sem keppnin hefur breyst svo mikið. Við höfum aðeins þrjár keppnir þar sem dómnefndirnar hafa haft 50% vægi á móti símakosningunni. En ég lifi hættulega og ætla að voga mér út fyrir þægindarammann með því að skoða sigurlög síðustu 10 ára.

Fyrir þá sem eru ekki með Júróvisjon-söguna á hreinu þá eru þetta lögin:
Running Scared, frá Aserbaídsjan 2011
Satellite, Þýskaland 2010
Fairytale, Noregur 2009
Believe, Rússland 2008
Molitva, Serbía 2007
Hard Rock Hallelujah, Finnland 2006
My Number One, Grikkland 2005
Wild Dances, Úkraína 2004
Everyway That I Can, Tyrkland 2003
I Wanna frá Lettlandi 2002

Á þessum lista eru nokkur lög sem mér fannst ekki verðskulda sigur á sínum tíma, ekki endilega fyrir þær sakir að vera léleg heldur vegna þess að mér fannst önnur lög betri. En í baksýnisspeglinum (og eftir alvarlegt samtal við hina ósýktuafmakedónskaheilkenninu-Sunnu) sé ég að þetta er ekkert svo fráleitt. Heilbrigða ég sér bara eitt lag á þessum lista sem passar ekki inn í þá tilgátu sem ég ætla að kasta fram hér:

Sigurlag í Júróvisjon þarf að hafa að minnsta kosti þrjá af eftirfarandi fimm þáttum:
Grípandi lag („húkkur“ á tónlistar-lingói) sem næst við fyrstu hlustun.
Sviðs-sjarmi (e. „charisma“) lags og/eða flytjanda.
Vá-þáttur (e. „wow factor“ eða „show stopper“) sem veldur gæsahúð (og jafnvel tárum), ástríðufullu skankaskaki og/eða innilegum meðsöng hlustenda.
Ekki of „ódýr“ lagasmíð svo að dómnefndir greiði því atkvæði.
Ekki of flókin lagasmíð svo að almenningur nái því.

Með því að skoða tvískipta atkvæðagreiðslu símakosningar og dómnefnda sést skýrt mynstur þótt úrtakið sé aðeins þrjár úrslitakeppnir. Það er ekki hægt að sigra eingöngu á símakosningu eða dómnefndum. Þannig að tveir af þremur þáttum sem sigurlagið þarf að hafa verða að vera þeir tveir síðustu. Síðustu þrjú sigurlög hafa öll verið á toppnum bæði í síma- og dómnefndakosningu. Lena og Alexander Rybak sigruðu bæði meðal almennings og dómnefnda en Ell og Nikki höfðu betur með tveimur stigum í símakosningu á undan Eric Saade en lentu svo í 2. sæti í dómnefndakosningunni með 182 stig, 69 stigum á eftir Ítölum sem sigruðu með yfirburðum hjá dómnefndunum. Ítalir fengu hins vegar aðeins 99 stig í símakosninunni og lentu í 11. sæti þeim megin. Það kostaði þá sigurinn.

Dómnefnda- og símakosningarþættina má einnig skoða með tilliti til Jóhönnu Guðrúnar árið 2009. Þar sýndi sama mynstur sig við 2. sætið. Alexander Rybak sigraði með svo miklum yfirburðum að keppnin var í raun um 2. sætið. Þar hafði Ísland betur gegn Aserbaídjsan með því að höfða betur til BEGGJA hópanna. Is It True lenti í 2. sæti hjá dómnefndum en seig ekki neðar en í 4. sæti hjá almenningi. Aserar voru í 2. sæti meðal almennings en hröpuðu svo alla leið niður í 8. sæti hjá dómnefndunum. Og þótt vægið sé 50/50 þá er það dreifing stiganna í keppninni sem hefur mest áhrif á það hversu mikið (eða jafnvel hvort) munurinn á milli dómnefnda og almennings hefur áhrif á niðurröðun sæta. Af þessu ætti því að vera nokkuð ljóst að þessar tvær breytur eru samhangandi. Ætli menn sér að sigra í Júróvisjon þá verða þeir að hitta nokkurn veginn í mark í báðum hópum.

Þeir þættir sem eftir standa eru á hinn bóginn mun sveigjanlegri og í einhverjum tilvikum gæti einn þeirra dugað ásamt skylduþáttunum tveimur, eftir því hvernig stigin dreifast og hversu mörg lög eru um hituna.

Fyrsti þátturinn, húkkurinn, er kannski mikilvægastur. Fairytale Alexanders Rybak og Satellite með Lenu bjuggu svo sannarlega yfir grípandi viðlagi. Það sama má segja um My Number One, Hard Rock Hallelujah og Molitva.

Næsti þáttur, sviðssjarminn, lak af bæði Alexander Rybak og Lenu. Þau höfðu einfaldlega þetta je ne sais quoi, svo maður sletti nú á júróvisjonísku. Það verður líka að viðurkennast að Lordi var nú ansi ógnvekjandi sjarmör á sinn hátt, tröllslegur, vængjaður, rauðeygður og svo með pínulítinn sætan hatt með finnska fánanum. Hin fullkomna blanda kannski? Helena Paparizou geislaði af fegurð og sjarma árið 2005 – ekki spilltu fjórir föngulegir dansarar fyrir – og ástríðan og innlifunin sem Ruslana bauð upp á hlýtur að fá nokkur prik í þessum flokki.

Síðasti þátturinn er svo vá-þátturinn en í þann flokk fara allar tæknibrellur eða sviðstöfrar sem voru framkallaðir á einn eða annan hátt. Sumar tæknibrellur skila nákvæmlega engu (sérstaklega ef lagið er lélegt) en aðrar geta valdið gæsahúð. Myndvinnsla á sviði eða pródúksjón (alltaf í slettunum sko) getur skapað ógleymanleg augnablik. Aserski eyrnaormurinn komst aðeins á topp 5 í einum af stærstu veðbönkunum fyrir keppni og sennilega fæstir sem bjuggust við að ástardúett Ödipusar og mömmu hans myndi sigra. Það var ekki fyrr en á sviðinu sem sigurinn vannst með fullkominni pródúksjón og hárréttri tímasetningu á flugeldafossinum. Þetta gerðist líka hjá Sertab Erener í Riga 2003. Ég var sjálf í salnum í Skonto Hall og varð vitni að því þegar áhorfendur urðu dáleiddir af magnaðri framsetningu á tyrkneska laginu, spennitreyjunni, bandaflækjunni og magadansinum. Búninga- og jafnvel hamskipti Marie N frá Lettlandi virkuðu líka eins og bótox sprauta fyrir annars bara miðlungs lag. Atriði Rybaks skilaði nokkrum andköfum í salnum, Ruslana líka og Jóhanna Guðrún kallaði fram gæsahúð hjá ansi mörgum. Kannski var það flutningurinn. Kannski höfrungurinn. Erfitt að segja.

Með því að kanna viðhorf veðbanka til laganna má sjá væntingar áhorfenda til laganna áður en keppnin fer fram en það sem veðbankarnir geta ekki spáð fyrir um er þessi töfraþáttur. Lag sem virkar bara hið sæmilegasta útvarpslag getur breyst í algjöran unað ef rétt er haldið á spöðunum við framsetninguna – eða viðbjóð ef rangt er farið að.

Ef þessi tilgáta mín reynist rétt (sem ég er sannfærð um að hún geri) þá sjáum við svart á hvítu að íslenskur sigur í ár er langt frá því að vera Gleðibanka-heilkenni. Lagið hennar Gretu Salóme uppfyllir strax þrjú af skilyrðunum. Það höfðar bæði til almennings og dómnefnda og það næst við fyrstu hlustun, þrælgrípandi. Að auki hafa þau Greta og Jónsi sýnt með framkomu sinni í Söngvakeppni Sjónvarpsins að þau hafa mjög fallega útgeislun á sviðinu og bera af sér mikinn þokka. Sem áhorfandi í sal í Eldborg 11. febrúar fékk ég gæsahúð og tár í augun fyrir allan peninginn og allt í kringum mig heyrði ég fólk hvísla „váááááááá…“ á innsoginu þegar sviðið myrkvaðist á hápunkti lagsins við viðlagið eftir fiðlusólóið.

Án þess að þekkja Gretu Salóme nokkuð fékk ég strax á tilfinninguna að hún væri manneskja sem gerði hlutina 100% og sætti sig ekki við neitt hálfkák. Þegar myndbandið var frumsýnt varð ég enn sannfærðari um þetta og þess vegna er ég þess fullviss að íslenski hópurinn kemur til með að skrá nafn sitt á spjöld Júróvisjon-sögunnar í lok maí. Vandað verður til verks í alla staði og rosaleg tárvot gæsahúðar-töfrastund verður sköpuð sem engum veðbanka dettur í hug að taka með í reikninginn. Dulúðugir rammíslenskir töfrar eiga eftir að sigra Evrópu. Sannið til.

Auglýsingar

3 athugasemdir við “Reikniformúla fyrir sigurlagið!

 1. throllinn skrifar:

  Til að spila smá „devil’s advocate“ þá er ég sammála mörgu þarna en ekki öllu. Ég get alveg tekið undir þennan tékklista og ef við viljum meina að við tikkum í flest eða öll boxin þá verð ég bara að fullyrða að Loreen gerir það líka og gerir það tvöfalt betur. Það sem ég sé helst að vanti upp á þetta annars flotta atriði okkar er síðasta atriðið sem sýnir sig náttúrulega best í því að því tókst ekki einu sinni að vinna símakosninguna hérna heima. Lagið er alveg að heilla eurovision aðdáendurnar (þó aðeins minna en Loreen) en ég er ansi hræddur um að einhver meðal Dmitri frá Austur Evrópu eigi ekki eftir að kaupa það við fyrstu hlustun. Ég er alls ekki að segja að við fáum engin atkvæði frá almenningi, ég held bara að við eigum eftir að skora betur hjá dómnefndunum eins og lagið gerði hérna heima.

  Annað sem ég hef smá áhyggjur af þó að ég voni að sjáfsögðu að þær séu óþarfar er að Gréta er eftir því sem ég best veit ekki mjög reynd söngkona og þó að hún hafi vissulega staðið sig vel hérna heima þá veit maður aldrei hvað gerist þegar menn stíga á svið fyrir framan þúsundir áhorfenda og hugsandi til þess að hundruð milljóna eru að horfa á í sjónvarpi. Á slíkri stundu getur mesta sjarmatröll breyst í algera freðýsu. Gott dæmi um það er Danmörk 2002: http://www.youtube.com/watch?v=zp2yE-VM6A0.

  Svo hefur mér oft fundist vanta þennan vá faktor hjá okkur. Það tókst heldur betur hjá Jóhönnu Guðrúnu þar sem meðallag varð að meistarastykki með stórkostlegu atriði (þá sérstaklega bakgrunnurinn) og flutningi. Fyrir utan það þá man ég bara ekki eftir að við höfum náð að setja í almennilegt atriði sem gerir lagið okkar að einhverju enn betra. Ég vona svo sannarlega að það takist núna og ég held að þögnin geti orðið að algerlega magical mómenti. Það verður að passa upp á að hún verði passlega löng en svo er hægt keyra þetta í gang með einhverjum þrusukrafti og enda þetta með vá faktornum.

  Að lokum vil ég bara endurtaka að Loreen tikkar í öll boxin og gerir það alveg svakalega flott. Ég held því að það sé nokkuð ljóst að sigurvegarinn í ár sé jafnaugljós og Alexander Rybak var árið 2009 þó ég reikni nú ekki með að sigurinn verði alveg jafnstór. Ég tel því að enginn verði mjög ríkur á að giska á sigurvegarann í Eurovision í ár enda stuðullinn hjá veðbönkunum orðnar ansi lár á sænskan sigur. Fyrir aftan það getur svo allt gerst. Ítalía, Bretland, Serbía, Rússland, Rúmenía, Grikkland og Kýpur verða þarna með okkur í einhverjum hnapp. Þannig að ég spái okkur alveg í topp 8 sem er náttúrulega bara frábært en ég sé okkur ekki vera að fara að sigra þetta, kannski sem betur fer því eins og margir hafa sagt verður pínulítið vesen að halda þetta hérna 🙂

 2. Sunna skrifar:

  Með þessari greiningu er ég alls ekki að segja að aðrir uppfylli ekki þessi skilyrði í ár. Ég held einmitt að það séu óvenju mörg lönd í ár sem gætu blandað sér í toppbaráttuna. Svíar verða pottþétt á toppnum ásamt Serbum og svo hef ég líka mikla trú á Spánverjum og Ítölum. En Gleðibanka-geðveika ég held samt að Svíarnir séu ofmetnir aðeins og að töfrar Never Forget séu vanmetnir. Eða kannski ekki vanmetnir heldur eigi einfaldlega eftir að koma í ljós. Það verður því spennandi að sjá hvernig veðbankar bregðast við þegar æfingar byrja og eins verður mjög forvitnilegt að sjá spá blaðamanna í höllinni. Þeir hafa oft verið mun nákvæmari en bæði aðdáendakosningar og veðbankar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s