Álögin á lag nr. 2!

Pistill frá Sunnu Mímisdóttur, Eurovision-tölfræðispekúlant:

Það er orðið bjart vel fram eftir kvöldi og býflugan er mætt til landsins. Þetta getur bara þýtt eitt: JÚRÓVISJON-VERTÍÐ! 42 evrópsk lög eru komin á mest spilaða play-lista heimilisins, stillt á shuffle – svona til að lifa aðeins á brúninni – og svo er sungið hástöfum með á tungumálum sem undirrituð gæti ekki talað þótt það myndi bjarga lífi hennar. En með þessum ljúfa vorboða fylgir einnig undarleg þráhyggja sem ekki allir deila.

Sunna Mímisdóttir, Júróvisjon-áhugamanneskja/nörd (lesist að vild), leggst yfir stigatöflur í öllum sínum frístundum, setur upp gagnagrunna og grúskar í tölfræði í þeirri von um að finna töfraformúlu sem gæti gefið til kynna íslenska velgengni í þessari dásamlegu keppni.

Lítum nánar á málið.

Um miðjan mars var dregið um flutningsröð keppenda og Ísland fékk óhappanúmerið 2. Stuð! Lag nr. 2 hefur nefnilega aldrei sigrað. Og það sem meira er, lagi nr. 2 hefur sárasjaldan gengið vel. Á árunum 2004-2007, þegar aðeins ein undankeppni var, komst lag nr. 2 aldrei áfram. Frá því fyrirkomulaginu var breytt árið 2008 hefur lag nr. 2 tvisvar sinnum komist áfram upp úr fyrri undankeppninni en þrisvar upp úr þeirri seinni. Þar af komst hin sænska Charlotte Perelli aðeins áfram upp á náð og miskunn dómnefnda árið 2008 því þá giltu þær reglur að ef símakosning og dómnefnd skiluðu ekki sömu niðurstöðum um hverjir færu áfram þá kæmist efsta lag á lista dómnefnda, sem ekki væri á lista almennings, áfram á kostnað 10. lags úr símakosningu.

Sem sagt, dregið saman í nokkrar tölulegar staðreyndir er þetta útkoman:
Lag nr. 2 hefur aldrei sigrað.
Lag nr. 2 hefur einu sinni lent í 2. sæti.
Lag nr. 2 hefur tvisvar lent í 3. sæti.
Lag nr. 2 hefur 11 sinnum lent á topp 5 (hvort sem um ræðir undan- eða úrslitakeppnir).
Lag nr. 2 hefur 17 sinnum lent í 6.-10. sæti (hvort sem um ræðir undan- eða úrslitakeppnir).
Lag nr. 2 komst aldrei áfram upp úr undankeppninni á árunum 2004-2007.
Lag nr. 2 komst í 62,5% tilvika áfram upp úr undankeppnunum á árunum 2008-2011.

Þessi tölfræði gleður augað nú ekkert sérstaklega. Eru þetta álög á flytjanda nr. 2 eða eru aðrar breytur sem hafa áhrif? Þótt tímabilið 2008-2011 sé stutt og gefi kannski ekki nógu marktækar niðurstöður þá ætla ég samt að einangra könnun mína við endurkomu dómnefndanna og skiptinguna niður í 2 undankeppnir, núverandi form.

Breyturnar sem ég skoða eru eftirfarandi:
Tegund lags, tegund flytjenda, kyn flytjenda og á hvaða tungumáli lagið er.

Af 12 lögum hafa 6 náð 10. sæti eða hærra. Ég miða velgengni við 10. sætið, það sem þarf til að komast upp úr undankeppninni. 50% laganna á þessu tímabili náðu því ásættanlegum árangri. Þessar tölur sýna svo sem ekki mikið, annað en að lag nr. 2 er kannski ekki algjörlega dauðadæmt með öllu bara fyrir óhappanúmerið.

Lítum þá á fyrstu breytuna, tegund lags. Við höfum tvær kraftballöður, eina grín ballöðu, fjögur nokkuð hefðbundin popplög, eitt diskólag (tímaskekkja?), eitt söngleikjaskotið lag, tvö popplög með einhvers konar þjóðlegu ívafi og eitt grínlag á þjóðlegum nótum. Kraftballöðurnar virtust báðar falla í kramið hjá áhorfendum en popplögin skiluðu sér 50% inn á topp 10. Grínið skilar sömu niðurstöðum, Rússar lentu í 7. sæti í fyrri undankeppninni árið 2010 en Tékkar núlluðu með grínið sitt í fyrri undankeppninni árið áður. Þjóðlegu áhrifin skiptast líka nokkuð jafnt, Dino Merlin komst í 6. sætið í fyrra en hin norsk-kenýska Stella Mwangi var langt frá því að komast áfram þrátt fyrir að hafa trónað á toppi flestra veðbanka fyrir keppnina. Þá áttu söngleikjaáhrifin í spænska laginu árið 2010 ekki heldur upp á pallborðið. Sem sagt, ekki er hægt að greina afgerandi mynstur út frá tegund lags að öðru leyti en að kraftballöðurnar eiga meiri möguleika en aðrar tegundir.

Aðeins eitt lag á tímabilinu var flutt af dúett, tvö lög voru flutt af hljómsveitum sem fengu utanaðkomandi söngvara til liðs við sig og aðeins eina hljómsveit er að finna í þessum flytjendahópi. 67% laganna voru því flutt af sólóista og sú tölfræði ein og sér segir okkur að útreikningar út frá þessari breytu eru ekki mjög marktækir. Ísraelski dúettinn árið 2009 komst ekki á topp 10, aðrir skipta þessum 6 sætum á velgengilistanum á milli sín.

Jöfn kynjaskipting er í 12 laga úrtakinu og það sama má segja um dreifinguna á velgengilistanum. Kyn flytjenda virðist því ekki hafa nein áhrif á frammistöðu í Júróvisjon.

Á listanum höfum við einungis eitt lag sem ekki var flutt á ensku, Algo Pequeñito var sungið að öllu leyti á spænsku en það skilaði Spánverjum aðeins 15. sæti. Ísraelar eiga tvö lög í úrtakinu, bæði að mestu leyti á hebresku með smá skvettum af ensku inn á milli. 2008 gekk þeim vel, 2009 gekk þeim ekki eins vel. Hebreskan virðist því ekki vera töfralausnin. Swahili í fyrra hlaut ekki heldur náð fyrir eyrum Evrópu en að öðru leyti gerir einsleitt tungumálaval keppenda þessa breytu ómarktæka.

Breyturnar virðast ekki hafa nein áhrif í þessum grófu útreikningum og afskaplega litla úrtaki. Leita verður annarra skýringa. Realistinn í mér segir að blása verði á allar bábiljur, tilviljun ein hafi ráðið því að í 56 ára sögu keppninnar hafi lag nr. 2 einfaldlega aldrei verið besta lagið og að það hafi kannski í flestum tilvikum verðskuldað örlög sín. Getur verið að þau lög sem komust ekki áfram úr undankeppnunum 2008-2011 hafi einfaldlega ekki verið nógu góð? Í úrtakinu var hvorki að finna Johnny Logan né fljúgandi höfrunga, eitthvað sem við vitum 100% að skilar árangri. En hver veit, kannski er Greta Salóme Johnny Logan 21. aldarinnar og kannski verður fljúgandi höfrungurinn dreginn fram á ný. Alexander Rybak sýndi líka fram á að fiðla getur gert ótrúlegustu hluti (þótt Egon Egemann hafi bara náð 11. sæti með hvítu fiðluna sína 1990). Nú, fyrir realistana má líka benda á að íslenska lagið í ár er klárlega eitt af 10 bestu lögunum í fyrri undankeppninni þannig að sæti í úrslitakeppninni ætti ekki að vera í hættu. Stóra spurningin er kannski frekar hvort við verðum í síðasta umslaginu 4. árið í röð. Tölfræðin segir að það séu 75% líkur á því.

En hvað sem gerist þá er undirrituð sannfærð um að árið 2012 sé ár Íslands í keppninni. Og sama hversu ómarktæk þessi litla athugun er þá sýnir hún samt sem áður að heimurinn er langt í frá hruninn þótt íslenska fánanum verði veifað snemma þetta árið. Það skemmtilega er nefnilega að í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva geta höfrungar flogið. Allt getur gerst. Bókstaflega allt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s