Tíminn flýgur áfram og nú hafa öll löndin ákveðið sín framlög í Baku 2012. Það er því tími til að hefja í alvöru undirbúninginn fyrir Eurovision hér á Allt um Júróvisjón. Umræðurnar eru vissulega líflegar á Facebook-síðu FÁSES þar sem við hvetjum alla til að taka þátt, en við reynum að vera duglegar hérna líka 🙂
Þrátt fyrir að langt sé liðið á marsmánuð og öll lögin hafi verið frumflutt eins og áður sagði, er þó enn ýmislegt sem óljóst er. Þar er ekki síst um að ræða tónleikastaðinn sjálfan, kristalshöllina í Baku!
Við látum ósagt um þau mannréttindabrot sem framin eru á borgurum í Aserbaídsjan við byggingu þessarar hallar því að loðinn og óskýr fréttaflutningur þaðan er tæpast hægt að byggja umfjöllun á (þó að við efust alls ekki um sannleiksgildi hans). Aserar eru svo sannarlega stórhuga í framkvæmdum sínum og byggja höllina alveg frá grunni. Margar hugmyndir voru uppi um hvernig lokaútkoman átti að vera og ein þeirra var þessi:

Risastór kuðungur! Það var þó að endingu samið við verktakafyrirtækið og hönnuði í Alpine Bau Deutschland AG um að byggja 23.000 manna tónleikastað, kristalshöllina svokölluðu (Baki Kristal Zali). Áætluð verklok eru 31. mars en í janúar síðastliðnum leit byggingarstaðurinn svona út:

Mynd: Wikipedia.com
Tónleikahöllin á að líkja eftir íþróttamannvirkjum í kínversku borginni Shenzhen fyrir Universiade 2011. Hér eru teikning af því svæði og fullbúin mynd af íþróttahöllinni. Heimildir herma þó að í Kristalshöllina í Baku muni ekki vera sett gler í kristalslaga hlutann heldur sérstakur málmur:

Mynd: eurovision-2012.com

Mynd: eurovision-2012.com
Þar sem nú þegar er búið að opna fyrir miðasölu á báðar undankeppnirnar, aðalkeppnina og búningarennsli og einhver hótel farin að taka við bókunum, skulum við nú bara vona að höllin verði tilbúin á réttum tíma!

Fleira hefur verið gert til að undirbúa fyrir þennan stærsta ferðamannaviðburð sem Aserbaídsjan hefur staðið frammi fyrir. Til dæmis má nefna að sérstakir bílstjórar munu aka nýjum leigubílum og langferðabílum sem flytja munu gestina um í Baku. Bílarnir verða fluttir inn frá Lundúnum. Einnig munu bílstjórarnir fá sérstaka kurteisis- og mannasiðakennslu; sem felst í grunni í sálfræði, kurteisi gagnvart ferðamönnum og grundvallarfrösum í ensku sem ætlaðir eru enskumælandi borgurum. ,
Að auki hefur verið tilkynnt um atriðið sem flutt verður í hléinu, en það verður söngvarinn Emin. Hérna má sjá kynningu á honum. Hérna á Íslandi fáum við reyndar bara auglýsingar á þeim tíma en við stöllurnar hér á Allt um Júróvisjón getum alveg vottað um hversu skemmtileg þessi hléatriði geta orðið, enda tókum við þátt í flash mob-dansinum í Osló 🙂