Gestaálit: Flosi og Haukur stjórnarmenn í FÁSES

Seinna gestaálitið fyrir Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardaginn gefa þeir Flosi Jón Ófeigsson og Haukur Johnson. Báðir eru þeir afskaplega miklir júróvísjonnördar og hafa spáð og spegúlerað í keppninni í mörg ár. Þeir eru líka stofnendur og stjórnarmenn í FÁSES, Félagi áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

ALDREI SLEPPIR MÉR

Flosi: ,,Dívulag kvöldsins er klárlega Aldrei sleppir mér. Íslendingar eru búnir að eignast Feminem grúppu! Þær eru gullfallegar og syngja allar mjög vel. Það er mikið power í þessari ballöðu og raddirnar hjá þeim fara vel saman. Mér finnst viðlagið ekki alveg nógu sterkt til að vera besta ballaðan í keppninni og eiginlega er lagið svoldið flatt þegar í heildina er litið. Flottasti parturinn er brúin sem endar í svaka trommum. Lagið er bara ekki eins sterkt og hitt lagið hjá Grétu Salomé og ég held að fólk eigi eftir að velja Mundu eftir mér fram yfir Aldrei sleppir mér.  Ég tel það eigi engan sjéns í keppnina hérna heima og eins mikið og aðdáendur lofuðu Feminem árið 2010 þá komst það ekki einu sinni í úrslit þannig að Tríóið á ekki sjéns í Baku að mínu mati. 3 stig af 7″

Haukur: ,,Greta Salóme er að stimpla sig hressilega inn sem einn af okkar dramatískari lagahöfundum og ef hún heldur áfram á þessari braut þá ætti hún að eiga roð í kraftballöðurnar frá gömlu Júgóslavíu einn daginn. Framsetning þessa lags minnir mig einmitt mikið á Lako je sve sem Feminnem fluttu fyrir Króatíu 2010. Lagið sjálft finnst mér svolítið svona Frostrósalegt og það er mjög flott sem slíkt. Sérstaklega finnst mér bláendirinn flottur. Minnir mig á endinn á Circle of Life, og maður kemst ekki hjá því að fá smá gæsahúð. Ég held að lagið eigi möguleika á góðu gengi í Söngvakeppninni, og á þá við 3. og jafnvel mögulega 2. sætið – ef hin tvö sem bítast um 1. sætið skipta atkvæðunum of mikið á milli sín. Ég hef þó ekki trú á að það sigri. Ef ég ber lagið aftur saman við Lako je sve frá Króatíu, sem mér þótti mun sterkara lag, þá held ég að það eigi því miður ekki nægilega góða möguleika í Eurovision, enda sátu Feminnem eftir með sárt ennið í forkeppninni 2010. Maður veit þó aldrei því það er nett væmni fólgin í búningunum (eða eru þær að koma úr busavígslu í MR?), en allt sem höfðar til ungra prinsessa hefur allavega komist upp úr forkeppnunum síðustu ár.“

HUGARRÓ

Flosi: ,,Magni er svo sannarlega í essinu sínu í þessu lagi, rokkballaða og mikil dramantík. Það er spurning hvort 4. skiptið hjá Magna sé árið sem hann vinnur? Þetta er klárlega besta lagið sem Magni hefur sungið í Eurovision. Það er mjög sterk melódía og píanónóturnar fá mann til að fara í einhvern  draumaheim. Ég fýla persónulega ekki rembinginn þegar hann fer á hærri nóturnar en það er bara hans stíll. Magni er með mikið bakland og ef allt gengur upp þá verður hann í TOP 2 og jafnvel spurning um að hans tími sé kominn. Persónulega finnst mér Regína og Jónsi/Gréta með sterkari lög en það er stundum ekki nóg ef þú hefur ekki bakland. Hann mun ná langt í aðalkeppninni og komast í úrslit en verður svona í 15 sæti. 5 stig af 7 mögulegum.“


Haukur: ,,
Það eiga allir sína uppáhaldsflytjendur eins og gengur og gerist, og það er alveg klárt mál að Magni er í miklu uppáhaldi hjá mörgum. Hans tónlist og stíll hafa ekki höfðað til mín og alls ekki í þeim lögum sem hann hefur verið með í Söngvakeppninni fram að þessu. Nú finnst mér hann hins vegar með svo flott og kraftmikið lag að ég get ekki reynt að neita því að ég fíla það. Ég held reyndar að það sé aðallega lagið sem höfðar til mín, sem er gríðarlega flott og að mínu mati fallegasta lagið í keppninni, en Magni er líka að sýna á sér örlítið nýja hlið. Hann gerir þetta vel og ef hann vinnur hér heima þá mun ég styðja hann alla leið. Það eru miklar líkur á að hann fari einn daginn og þá er ég allavega glaður að það sé líka út af laginu, en ekki bara út af hans persónulega fylgi. Mér finnst mjög erfitt að átta mig á því hvernig þessu lagi myndi vegna í Baku.  Hluta af mér finnst að því hljóti að ganga vel þar sem lagið er sjúklega sterkt og Magni er auðvitað svellkaldur undir svona pressu eins og maður sá í Rockstar. En þá er mér hugsað til Eiríks Haukssonar, sem var líka með gott lag (ekki alveg jafngott) og flutningurinn var pottþéttur líka, en það dugði ekki til. Það sem hræðir mig líka smá er að sviðsframsetningin er nánast sú sama. Var það ekki Einstein sem sagði að það væri geðveiki að prófa sömu aðferð aftur og aftur en búast við öðruvísi niðurstöðum? Ég vil benda aðstandendum þessa góða lags á að endurskoða framsetninguna. Ég veit hreinlega ekki hvernig, en við vitum öll að það er enginn að spila á þessi hljóðfæri, og kannski væri hægt að gera eitthvað annað við þá fimm aðila sem mega vera á sviðinu (plís engar ballerínur samt). Og já, ég hef á tilfinningunni að þetta lag sé að fara að sigra Söngvakeppnina.“

STUND MEÐ ÞÉR

Flosi: ,,Þetta er lag sem ég hef enga skoðun á. Mér finnst það hvorki gott né slæmt. Það er svoldið James Bond-fýlingur í og hún er með mjög töff rödd, svoldið lík Duffy. Þetta er lagið sem dómnefndin valdi og því tel ég enga möguleika að það blandi sér í toppinn á laugardaginn næsta. Svona lög gera það oft gott í aðalkepninni en ég held að það týnist þar sem þetta er svona lag sem enginn hefur skoðun á. En þetta er góð tilbreyting frá hinu lögunum í keppninni  og á bara vel skilið að vera þarna og mun örugglega heyrast í útvarpinu heima. 2 stig af 7.“


Haukur: ,,Ég var frekar spenntur þegar ég heyrði að Rósa ætlaði að taka þátt í ár vegna þess að hún sker sig að vissu leyti úr í hópi „the usual suspects“ í Söngvakeppninni. Hún er úr annarri kreðsu, og er kannski að mörgu leyti nær því sem er að gerast í tónlistarsenunni í Reykjavík (bartónleikamenningin). Rósa flytur lagið vel og lagið er líka mjög flott að mínu mati og eitt af þeim sem ég er líklegur til að hlusta á eftir að Söngvakeppninni lýkur. Hins vegar er eitthvað við það sem er ekki nógu afgerandi til þess að það geti náð manni á þremur mínútum. Það er lágstemmt og myndi sóma sér vel sem bakgrunnstónlist á veitingastað eða eitthvað slíkt, eða jafnvel í byrjunaratriði á bíómynd eða eitthvað. En því miður þá held ég að það sé of kraftlaust fyrir Eurovision. Ég held líka að álit fólks hafi lítið breyst frá því í forkeppnunum og því sé það líklegt til að enda neðarlega í Söngvakeppninni.“

HEY

Flosi: ,,Það er eins og Paparnir hafi eitthvað komi nálægt þessu lagi. Þetta eru hressir karlar sem því miður eru ekki góðir söngvarar né kunna að koma fram á sviði. Hugmyndin að atriðinu er flott og gæti virkað ef þeir bæta sig mikið en  lagið er flatt og nær aldrei flugi. Léleg framkoma plús lélegur söngur plús flatt lag þýðir einfaldlega neðsta sæti fyrir mig. Ef þeir taka sig saman í andlitinu þá getu þeir fengið atkvæðin hjá þessum sem fýla grínatriði þó ég haldi að þeir séu ekki að grínast með þetta. Þetta lag getur farið út og floppað eða þá það sama og í undankeppninni hérna fengið atkvæðin hjá  þessum sem fíla grínatriði. 1 stig af 7″


Haukur: ,,
Ég skil ekki hvaðan þetta lag fékk atkvæði sín í forkeppninni. Þetta eru ekki þekktir aðilar sem eiga inni neitt fylgi, svo það hlýtur að vera að fólki hafi þótt þetta fyndið og skemmtilegt. Til að vera sanngjarn þá er lagið sjálft ekkert slæm smíði svo sem, en þetta er bara eins og klósett í borðstofunni í þessari keppni. Það er eitt að vera með grínlög í Eurovision (og sjaldnast dugað vel) en það að vera með einkahúmor er bara vitleysa. Þrátt fyrir að Ísland hafi komist í heimsfréttir á síðustu árum þá er fólk ekki búið að setja sig svona vel inn í okkar mál og ég held að þeim finnist þetta hvorki fyndið né áhugavert. En eftir að hafa verið svona leiðinlegur, þá held ég samt að þessir strákar gætu átt góðan feril hér heima, t.d. með því að spila á þorrablótum. En ég frábið mér að fara að sýna öðrum þjóðum þetta.“

HJARTAÐ BRENNUR

Flosi: ,,Það er óhætt að segja að þegar maður sá að María og Co myndu vinna með Reginu að eitthvað gott væri í vændum. Ég varð fyrir pínu vonbrigðum við fyrstu hlustun en það vann strax á við aðra hlustun. Þetta er að mínu fyrsta lagið í langan tíma sem stenst það að vera samkeppnishæft við nútímapopplög eins og þau gerast best í Bretlandi. Það vinnur á og er svo fast í hausnum á manni eftir nokkrar hlustanir. Regína er flottur performer og vön Eurovision og mun ekki klikka. Spurning er bara hvort Íslendingar séu tilbúnir fyirir að svona nútímapopplag fari til Baku. Ef svo er þá verður hún í Top 2. Væri alveg til í að sjá hana í Baku með lagið á ensku öfugt við Mundu eftir mér. Bakraddirnar eru flott og sviðsframkoman er mjög flott og lítur vel í sjónvarpi. Laginu mun ganga vel í Baku en verður á botninum í aðalkeppninni. 6 stig af 7″

Haukur: ,,Það sem mér finnst frábært við þetta lag er að það er eitthvað algjörlega nýtt í Söngvakeppninni. Það er mjög svona „bouncy“ og manni finnst þetta hafa svolítið útlenskt yfirbragð. Regína skilar því mjög vel og bakraddirnar eru óvenjulega skemmtilegar og flottar. Þetta myndi án alls efa lúkka vel á stóra sviðinu í Azerbaijan og myndi að mínu mati skila góðum meðalfjölda atkvæða í kassann. Persónulega á ég hins vegar stundum svolítið erfitt með svona rosalega frísk og sæt lög, og fæ fljótt nóg. Þetta lag verður alls ekki á botninum í Söngvakeppninni, en ég efast um að það verði í topp tveimur sætunum heldur. Þannig ég segi 4. sæti.“

STATTU UPP

Flosi: ,,Þetta er stuðlag kvöldsins sem mun fá mikinn stuðning  frá ungu kynslóðinni þar sem þeir eru frekar vinsælir og stíllinn hjá Ingó er hressandi og grípandi. Ég hef persónulega lúmskt gaman af þessu lagi þar sem ég er mikill Zumba-aðdáandi og þetta er snilldarlag til að nota í Zumba. Mér finnst samt lagið ekki fara neitt, það byrjar rosa vel en  svo einhvernveginn byggist það ekki,  þannig að það gæti verið að fólki fái leið á því til lengdar. En er það ekki mikilvægast fyrir Evrópu að byrjunin sé grípandi? Þeir eru skemmtilegir og eru pínu sætir með þessi „flóknu“ dansspor. Horfðu þeir á Litháen 2010 með gervi hljóðfæri? Verða kannski glimmer nærbuxur? Ég hef pínu áhyggjur af flutninginum á sviði þar sem þeir voru ekki sannfærandi á undanúrslitunum og hreinlega falskir á köflum. Ef flutningurinn verður góður og þeir í stuði þá gæti þetta orðið í top 2 en ég held að þetta sé ekki vinningslagið. Það héldu margir að Jedwardið í Dusseldorf myndi vinna, en ég held hreinlega að Blár Ópal hafi ekki karakterinn til að skara fram úr í Baku en það veltur að sjálfsögðu á öðrum framlögum. Ég á ekki von að þeir komist í úrslitin ef þeir verða framlag Íslands í ár. Hressir strákar en ekki með reynsluna til að höndla aðalkeppnina. 4 stig af 7 mögulegum.“

Haukur: ,,Mér fannst þetta lag hryllingur við fyrstu hlustun. Mér fannst það í fyrsta lagi bara leiðinlegt, en svo fer alltaf mikið í taugarnar á mér þegar það eina sem mér dettur í hug þegar ég heyri lag er eitthvað annað lag. Í þessu tilviki eru það svona tíu lög, en kannski einna helst Dynamite með Taio Crus (yrði ekki hissa ef hann gæti fengið lögbann á lagið). Það gladdi mig því mikið þegar ég áttaði mig á því að það yrði ekki Ingó sjálfur sem flytti lagið því hann hefur auðvitað mikið persónufylgi, enda er hann mjög lunkinn og sjarmerandi flytjandi. Í dag verð ég að játa að ef ég væri ekki svona hræddur við þetta lag þá þætti mér það örugglega alveg skemmtilegt. En það á hins vegar ekki við framsetninguna. Strákarnir standa sig reyndar sjálfir bara vel, sérstaklega miðað við að flestir eru þeir frekar lítt þekktir og örugglega ekki mjög reyndir að syngja í sjónvarpi. Hins vegar finnst mér atriðið kjánalegt og amatöralegt, og ég þori bara að fullyrða það að Eurovision-kjósendur vilja aðeins meira, enda eru þeir ekki íslenskir menntaskólakrakkar og þetta eru ekki vinir þeirra. Það er heldur ekki nóg að vera flippaður til að standa sig á sviði fyrir framan um 100 milljónir áhorfenda og standa sig vel. Þú þarft reynslu. Loks vil ég biðja Íslendinga að velta einu fyrir sér: Hvernig haldið þið að þetta lag muni hljóma á ensku? Viljiði kannski senda það á íslensku? Það þarf virkilega góða flytjendur til að buna svona hröðum texta út úr sér á ensku án þess að klúðra því. Ég óttast það að þessu lagi gangi vel, en ég held að það vinni ekki, og það myndi vera klúður í Baku.“

MUNDU EFTIR MÉR

Flosi: ,,Þegar texti um sögu Ragnheiði biskupsdóttur og dramatísk Eurovisionuppskrift af lagi með íslenskum þjóðlagakeim er sett saman, verður til Mundu eftir mér. Þegar ég heyrði lagið fyrst þá greip  það mig strax og melódían festist í hausnum hjá mér. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég tengi textann við lagið svona sterkt, ég fæ svona þjóðarstolttilfinningu og sæi þetta fyrir mér svona í auglýsingu til að kynna Ísland á dramantískan hátt, eldgos, fárviðri, jöklar. Þetta tikkar í öll box sem gott Eurovisionlag, kannski nokkrum árum of seint með fiðludramatíkina en það virðist alltaf virka. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé lag sem mun virka jafnvel betur á íslensku í aðalkeppninni. Ég tel þetta vera lag sem verður pottþétt í top 2 í undankeppninni heima og ef það vinnur þá gerir það góða hluti og mun jafnvel  komast í top 10. Þetta er persónulega mitt uppáhalds lag í keppninni. Raddirnar hjá Jónsa og Grétu fara vel saman og lagið er mjög vel sett upp. Flutningurinn á undanúrslitakvöldinu var mjög sannfærandi og á bara eftir að verða betri. Ég hef leyft vinum mínum sem eru ekki aðdáendur Eurovision að hlusta á lögin sem eru í keppninni og þetta er alltaf lagið sem þeir segja vera best. 7 stig af 7 mögulegum.“

Haukur: ,,Krummi svaf í klettagjá með Beethoven ívafi er það sem kemur í hugann í byrjun. Og það er alls ekki svo slæm blanda. Ég hafði ákveðna fordóma fyrir þessu lagi til að byrja með þar sem mér fannst svona norrænt-og-dulrænt þegar hafa verið notað í Eurovision (The Voice frá Írlandi 1996 og Alvedansen frá Noregi 2006 t.d.). Þá er maður auðvitað enn að jafna sig á fiðlunni eftir Rybak-geðveikina. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta lag er bara gríðarlega kraftmikið og miðað við þá gæsahúð sem það kallar fram í míní-stúdóinu hjá RÚV þá get ég rétt ímyndað mér hvernig tilfinningu maður fær af því á stóra sviðinu í Baku. Svo er bara ekki hægt að neita því að Jónsi er geðveikislega góður performer, sérstaklega í svona drama, og ég held að salurinn muni þrýstast í sætin þegar æðarnar poppa út. Svo finnst mér það mjög skemmtilegt að höfundurinn sé svona hæfileikaríkur og góður flytjandi líka, eins og Greta er. Og mér finnst hún ekki hverfa í skuggann af Jónsa vegna þess að þetta lag á að vera dúett og Jónsi bara þarf að fá að skína. Þrátt fyrir allt þetta, þá finnst mér enn eins og laginu vanti eitthvað örlítið, en ég get ekki sett puttann á það. Kannski er það bara stærra hús? Ég vona allavega að ég sjái þetta lag í Kristallshöllinni í maí, og ég held að það séu góðar líkur á því. Og þá erum við að tala um topp 5 í vor! Að lokum vil ég biðja Gretu og Jónsa að íhuga það alvarlega að flytja lagið á íslensku í Baku ef þau vinna. Þetta er rammíslenskt lag og ég held að fólki muni finnast þetta jafnvel enn dramatískara ef það skilur ekki textann (nefni gömlu Júgóslavíulöndin í þessu samhengi).“

Auglýsingar

Ein athugasemd við “Gestaálit: Flosi og Haukur stjórnarmenn í FÁSES

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s