Pistill: Aserbaídjsan – Ákjósanlegt ferðamannaland?

Við birtum hér pistil Flosa Jóns Ófeigssonar, alþjóðafulltrúa FÁSES um Aserbaídsjan:

Höfuðborg Baku 
Fólksfjöldi 7.391.000
Stærð 87,000 km2 
Mynt Manat

Þá er Eurovision-tímabilið byrjað og lög farin að týnast inn sem verða með árið 2012. Að þessu sinni verður keppnin haldin í Baku í Aserbaídsjan.

Ár

Flytjandi

Heiti lags

Sæti

Stig

Undanúrslit

Stig

2008 Elnur & Samir Day After Day 8 132 6 96
2009 Aysel & Arash Always 3 207 2 180
2010 Safura Drip Drop 5 145 2 113
2011 Eldar & Nigar Running Scared 1 221 2 122

Aserbaídsjan hefur átt góðu gengi að fagna í Eurovision síðan landið tók fyrst þátt í Eurovision árið 2008, eins og sjá má á töflunni hér að ofan. Aserbaídsjan sendir metnaðarfull atriði og leggur mikinn pening í atriðin. Meðal annarra var danshöfundur Beyonce fenginn til að semja dansinn fyrir Safuru árið 2010 og dæmi hver fyrir sig hvort það hafi borgað sig.

Frá höfuðborginni Baku

Íslendingar hafa gefið Aserbaídsjan 12 stig samtals á úrslitakvöldinu eða 4 stig árið 2010 og svo 8 stig á síðasta ári. Öll lögin, nema kannski lagið frá 2008, voru mikið spiluð í íslensku útvarpi og ættu allir að kannast við þau. Íslendingar og Aserar eiga það sameiginlegan gríðarlegan áhuga á Eurovision og er Eurovision mikill stökkpallur fyrir söngvara í báðum löndum til kynningar utan landsteinanna. Það sést einnig á því hve margir fara á keppnina sjálfa og veifa fána Aserbaídsjan. Miklar vangaveltur hafa verið uppi um öryggi fólks í Aserbaídsjan í tengslum við Eurovision þar sem mannlífið og menningin í Aserbaídsjan er allt öðruvísi en í Vestur-Evrópu. Mikið hefur verið um neikvæðar umsagnir um Aserbaídsjan, sérstaklega þar sem meirihluti aðdáenda Eurovision eru samkynhneigðir og Aserbaídjan múslimaríki. Ég ákvað að lesa mér aðeins um þetta óþekkta land og sjá hvort það væri þess virði að ferðast þangað.

Aserbaídsjan hefur landamæri að 5 löndum; Rússlandi, Georgíu, Armeníu, Tyrklandi og Íran. Aserbaídsjan liggur líka að Kaspíahafi  þar sem nokkrar eyjar tilheyra landinu. Aserbaídsjan er á mörkum Austur-Evrópu og Vestur-Evrópu. Um það bil 40% landsins er fjalllendi og ber þar helst að nefna Kákasus-fjallgarðinn. Hæsta fjallið er Bazarduzu Dagi sem er 4.485 metra hátt.

Bazarduzu Dagi 4.485 m

Kaldir vindar frá Skandinavíu og Síberíu stöðvast á Kákasusfjallgarðinum sem veldur því að Aserbaídsjan er að mestum hluta í tempraða loftlagsbeltinu og því eru hitabreytingar miklar eftir árstíðum. Samt sem áður eru 9 loftlagsbelti í Aserbaídsjan af þeim 13 sem eru í heiminum. Hæsti hiti sem mælst hefur er 46°C og mesta frost er -33°C.

Um það bil 96% þjóðarinnar eru múslimar. Þeir tilheyra múslimahópi sem kalla sig sjíta-múslima. Þeir eru aðeins í meirihluta í tveimur löndum í heiminum; í Aserbaídsjan og nágrannalandinu Íran. Þeir hafa það orðspor að vera mjög íhaldssamir og eru oft kallaðir bókstafstrúaðir múslimar í samanburði við sunní-múslima. Þrátt fyrir að vera bókstafstrúar eru Aserar fremur veraldlegir, þá sérstaklega íbúar Baku. Meirihluti kvenna  notar ekki höfuðblæjur og áfengisbann hefur víðsvegar verið aflétt.

Aserbaíska er hið opinbera tungumál  en vegna þess hve Rússar réðu lengi yfir Aserbaídsjan, tala margir rússnesku. Einnig  er nokkuð um ensku og tyrknesku. Rétttrúaðir, kristnir og gyðingar spila stóran sess sem minnihlutahópar. Í Aserbaídsjan er forseti æðsti þjóðhöfðinginn og er hlutlaus, en eins og á Íslandi getur hann beitt neitunarvaldi ef hann finnur að þjóðin er ósátt. Aserbaídsjan varð fljótt ein af ríkustu þjóðum í heimi eftir að olía og gas fundust þar í landi. Í dag koma 2/3 af tekjum landsins frá olíu og gasframleiðslu. Árið 2007 kom í ljós að hæstu launahækkanir voru allt að 30%. Þessi hraða tekjuauking í orkubransanum hefur hækkað verð í öðrum atvinnugreinum og valdið mikilli verðbólgu og hafa menn kallað svo mikla verðbólgu í orkubransanum „hollensku veiruna“.

Þegar kemur að mannréttindamálum er skiljanlegt að samkynhneigðir aðdáendur Eurovision séu áhyggjufullir yfir því hvernig þeim verður tekið ef þeir ákveða að ferðast til Baku. Samkvæmt heimildum IGLA var það fyrst í september 2001 sem sovéskum hegningarlögum um að samkynhneigð væri ólögleg, var aflétt. Fyrir þann tíma fengu menn 5 til 7 ára dóm fyrir að eiga endaþarmsmök. Nú eru menn dæmdir í 3-15 ára fangelsi fyrir að beita ofbeldi í kynlífi milli tveggja karla. Lesbíur eru ekki nafngreindar í reglunum. Ungur maður frá Aserbaídsjan lýsir því að það séu ekki reglurnar sem koma í veg fyrir að samkynhneigðir geti verið þeir sjálfir opinberlega, heldur trúin og fólkið sjálft. Hann  segir: „Það verður hlegið af okkur ef við komum út úr skápnum, það er ekki gott fyrir okkur.“ Með þessu er hann að segja að það sé ekki hræðslan að bregðast guði, heldur niðurlægingin í samfélaginu. Það sama á við þegar kemur að mannréttindum kvenna. Aserskar konur hafa sömu réttindi og aðrar konur í vestrænu samfélagi en samfélagið sjálft er ekki tilbúið að framfylgja þeim réttindum. Konur kjósa meira að segja en það er ekki vel liðið. Vændi fyrirfinnst í miklum mæli í Baku og er það mjög algengt að konur fari í vændi til að leggja sitt af mörkum til heimilisins.

Einn af Azykh-hellunum

Saga Aserbaídsjan er ein sú elsta í heiminum og má rekja til Azykh-hellanna sem eru áhrifamiklir hellar þar sem finna má fornminjar frá steinöld.  Hellarnir eru með stærstu hellum í heimi eða um 800 km.

Fyrsta mótun landssvæðisins Aserbaídsjan var í tíð höfðingjans Antropatena-Atropar og nafnið Aserbaídsjan var fyrst notað í hans tíð. Í langan tíma var landssvæðinu Azerbaídsjan skipt í  norður og suður, þar sem Albanir réðu í norðri og Antropatan í suðri. Seinna skiptist það í rússneska og íranska hlutann. Múslimar tóku yfir á  8.öld og hefur múslimatrúin verið við lýði síðan.  Á 20. öld varð mikil breyting á þar sem olía kom Aserbaídsjan á kortið og breytti þjóðinni yfir í eina ríkustu í heimi.  Undir forrystu Mehmet Emin Rasulazadeh, var Aserbaídsjan gert að alþýðulýðveldi á árunum 1918-1920 þar sem Georgíumenn, Aserar, Rússar, Armenar og gyðingar voru með á þingi. Það tók Aserbaídsjan 70 ár að fá sjálfstæði frá Sovétríkjunum en það gerðist 18. október 1991. Í dag er Aserbaídsjan eina fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna sem er ekki með rússneskar herstöðvar í landinu.

Mikið hefur verið rætt um samband  Armeníu og Aserbaídsjan þegar kemur að Eurovision. Spennuna má rekja allt til áranna 1918-1921 þegar sjálfstæði ríkjanna komst á og snýst um Nagorno-Karabakh hérað. Síðan þá hefur verið ágrenningur hvoru landinu héraðið tilheyri og jafnvel öðlast sjálfstæði. Árið 2008 lýsti forseti Aserbaídsjan að Naforno-Karabakh yrði aldrei sjálfstætt ríki. Þessar deilur hafa einnig komið sterklega í ljós í Eurovision síðan löndin fóru bæði að taka þátt í Eurovision. Þess má geta að í stigagjöfinni árið 2009 hélt söngkonan Sirusho, sem var keppandi Armeníu árið 2008, á stigunum og aftan á spjaldinu var mynd af musteri sem er staðsett í höfuðborg  Nagorno -Karabakh. Hér er video af stigagjöfinni frá Armeníu 2008:
Þrátt fyrir þessar deilur fékk  Aserbaídsjan 1 stig frá Armenum. Það var mikill svartur blettur árið 2009 þegar það komst til umræðu að þeir 48 sem kusu Armeníu í Aserbaídjan voru samkvæmt heimildum yfirheyrðir og sakaðir um að vera óþjóðernislegir og möguleg ógn við lýðveldi Aserbaídsjana. Eftir miklar rannsóknir sektaði European Broadcasting Union (EBU) ríkíssjónvarp Aserbaídsjan fyrir að brjóta reglur um að leynd ríki yfir hvað fólk kjósi og  þetta væri ekki í anda Eurovision; krafa þess var að pólitískur ágreiningur milli þjóða ætti heima utan Eurovision. Það er því ánægjulegt að sjá að Armenía hefur staðfest þátttöku sína í Baku og það verður mikil pressa að Armenar fái góða meðhöndlun þar. Kannski er Eurovision einn af fáum vettvöngum sem sameina Evrópu á einum stað og allir ágrenningur verður lagður til hliðar.

Tárin af Kayapaz

Aserbaídsjan og borgin Baku hafa heldur mikið upp á að bjóða þegar kemur að ferðamennsku. Boðið er upp á dagsferðir í Azykh-hellana og hin svokölluðu Tár af Kayapaz, sem eru 7 vötn hlið við hlið og mynda röð af tárum sem er ástæða fyrir nafninu. Aserbaídsjan á það sameiginlegt með Íslandi að þar er mikil eldvirkni og er það oft kallað land Leireldfjallanna. Yanardag-fjallið er talið vera eitt undur veraldar fyrir það eitt að vera brennandi fjall allt árið um kring. Ekki má gleyma Gobustan-þjóðgarðinum sem hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 2007. Hann hefur meðal annars að geyma minjar sem benda til blómlegs mannlífs 10.000 árum fyrir Krist. Í Baku eru byggingar sem vert er að sjá eins og Ataskah-eldmusterið sem er byggt ofan á gashver og hefur verið eldur þar síðan á 17.öld. Það mætti lengi telja hvað Aserbaídjan hefur að bjóða fyrir ferðamenn til að sjá.

Fornminjar í Gobustan-þjóðgarðinum

Það lítur út fyrir að Aserbaídjan hafi ýmislegt fram að færa fyrir ferðamenn en fólkið í landinu er eftir á þegar kemur að mannréttindum. Ég vil trúa því að andinn sem ríkir í Eurovision muni fylgja keppninni alla leið til Aserbaídsjan þannig að allir geti skemmt sér saman og notið frábærs tónlistarviðburðar sem sameinar Evrópu. Það er ólýsanleg tilfinning að reyna að útskýra fyrir öðrum hvernig það er að fara á Eurovision og upplifa stemmninguna. Það er einna helst hægt að lýsa þessu sem stórri fjölskyldu sem stendur saman hvar sem  keppnin er haldin. Það sannaði sig þegar keppnin var haldin í Serbíu sem er nú ekki talið mjög opin fyrir samkynhneigð. Með góðri skipulagningu og mikilli gæslu fóru allir ánægðir heim. Það er þá ekkert annað eftir en að bóka miða til Aserbaídsjan. Það þarf að hafa vísa, eða vegabréfsáritun, til að fara til Aserbaídsjan. Hér er heimasíða með öllum upplýsingum um hvernig á að sækja um en ég bendi á að verið er að vinna í að auðvelda fólki að koma til landsins í kringum Eurovision: http://www.visaforazerbaijan.org.uk/about.php. Nokkur flugfélög bjóða upp á flug til Aserbaídsjan og er London besti staðurinn fyrir þá sem eru að fara frá Íslandi. Engin hótelherbergi eru enn fáanleg vegna þess að lokað var fyrir forsöluna en þau verða aðgengileg til sölu í lok febrúar. Ég vil að lokum óska öllum góðrar skemmtunar fyrir komandi Eurovision-tímabil og segi áfram Ísland 🙂

Yanerdag-fjall (Brennandi fjallið)

25. framlagið í Eurovision valið!

Við óskum Jónsa og Gretu Salóme innilega til hamingju með sigurinn í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Þau eru vel að sigrinum komin og við hlökkum til að fylgjast með framganginum fram að keppninni í maí. Vonandi verður gert myndband og einhverjir kynningarviðburðir í kjölfarið, svo er alveg spurning hvort þau fari í kynningarferðir til útlanda eins og margir erlendir flytjendur gera 🙂

Söngvakeppni Sjónvarpsins 2012: Spá EEV

Eins og við nefndum hérna í færslunni á undan er glæsileg keppni framundan og viðvarandi handskjálfti og taugatitringur óneitanlega farinn að hafa áhrif á vinnuframleiðni okkar og einbeitingu 😉

Úrslitin verða án efa glæsileg og mikil tónlistarveisla framundan fyrir áhorfendur, ekki síst þá sem heima sitja. Allir eru auðvitað að velta því fyrir sér hver hampi hnossinu í lokin og standi uppi sem sigurvegari. Við spáum áfram í spilin og það er komið að spá Eyrúnar:

Ég á í mestu vandræðum með spána þetta árið því að mínu mati eru flest lögin líkleg til að hitta í mark hjá einhverjum hópi áhorfenda. Ég minnist þess ekki að svo sterk lög hafi verið í úrslitunum í Söngvakeppninni EVER. Ég hef velt þessu fyrir mér fram og til baka, skipt um skoðun hundrað sinnum og lendingin held ég svei mér þá að verði svona:

3. sæti – Hugarró í flutningi Magna

2. sæti – Stattu upp í flutningi Blás Ópals

1. sæti – Mundu eftir mér í flutningi Gretu Salóme og Jónsa

Ég er hjartanlega sammála því sem Hildur segir í sinni spá um styrk flytjenda og gæði laganna (og var meira að segja búin að ákveða að svoleiðis yrði mín spá en breytti því svo aftur!)

  Á hinn bóginn held ég að, eins og svo oft áður í Söngvakeppninni, hafi persónufylgið mjög mikið að segja. Greta og Jónsi eru á svo miklu flugi, bæði vegna þess að Greta er ungur lagahöfundur og söngkona með tvö lög í úrslitum og Jónsi með sitt Júróvisjón-bakland og sjarma, og lagið hennar hefur svo margt til brunns að bera og er marglaga (íslenskt, þjóðlegt, alþjóðlegt, sögulegt, dramatískt, popp) að ég held að það verði vinningsblandan. Að maður tali nú ekki um ef kosið verður á milli tveggja efstu…

Ég held sko langmest upp á lagið hans Magna af öllum í keppninni en í dag held ég að Blár Ópal sé líklegri til að velgja Gretu og Jónsa undir uggum. Lagið er svo fjörugt og er næstsíðast á svið á meðan Magni er annar á svið (er ekki annað framlag á svið alveg fatalt í þessum Júró-fræðum?!?).  Flutningurinn er vissulega brokkgengari hjá strákunum en hjá Magna sem kemur til með að búa að reynslu sinni. Oft er það nú líka þannig að uppáhalds lagið manns er ekki í uppáhaldi hjá þjóðinni. Og í þessu tilviki held ég að atkvæði þjóðarinnar verði í höndum yngstu kynslóðarinnar sem eru yfirleitt þau sem kjósa yfir sjónvarpinu. Það er jafnvel hætt við því að Blár Ópal skríði fram úr Gretu og Jónsa. Ég held að þau hafi það, og að öllum líkindum mjög naumlega!“

Söngvakeppni Sjónvarpsins 2012: Spá HTF

Stóra stundin er alveg að renna upp! Annað kvöld munu úrslitin loksins ráðast í Söngvakeppni Sjónvarpsins! Við hérna á Öllu um Júróvísjon erum sannarlega spenntar og teljum keppnina vera nokkuð harða í ár og að líklega verði mjótt á mununum í efstu stætunum. En það er komið að spám okkar stallsystra og sem áður setjum við fram spár í sitthvoru lagi. Árið 2010 reyndumst við nokkuð sannspáar, spáðum báðar Heru fyrsta sætinu og raunar var Eyrún með öll þrjú efstu sætin rétt. Í fyrra vorum við ekki alveg eins sannspáar, Hildur spáði Vinum Sjonna sigri og á eftir þeim Jógvan og loks Jóhanna Guðrún í 3. sæti. Eyrún spáði sömu lögum í efstu þrjú sætin, bara í annarri röð eða Jógvan í 1. sæti, Jóhönnu Guðrúnu í 2. sæti og loks vinum Sjonna í 3.sæti. Báðar töldum við Magna koma fast á hæla þessara laga.

Eins og þið efalaust öll munið voru einungis fyrstu tvö sætin gefin upp í fyrra. Hildur reyndist hafa rétt fyrir sér með sigurlagið en báðar flöskuðum við á því að meta árangur Magna rétt sem eftirminnilega lenti í öðru sæti.  Í ár ætlum við eins og áður að spá í fyrstu þrjú sætin og ríður Hildur á  vaðið:

,,Eins og áður segir virðist keppnin vera nokkuð hörð í ár, reyndir flytjendur stíga á svið og mörg lög sem eru sterk og grípandi. Eftir nokkra umhugsun og mikla hlustun á lögin bæði í stúdíó-útgáfu og live-flutningi spái ég eftirfarandi:

3. sæti – Hjartað brennur í flutningi Regínu Óskar

2. sæti – Mundu eftir mér  í flutningi Gretu og Jónsa

1. sæti – Hugarró í flutningi Magna

Spána byggi ég einkum á styrkleika laganna og flytjendum þeirra. Magni hefur sýnt það og sannað að hann á gríðar stórt bakland í þessari keppni og með sterkt lag sem er vinsælt meðal margra tel ég hann ná að sigra. Mundu eftir mér, annað lag Gretu, er mikið uppáhald hjá mörgum, er gríðarlega grípandi og flutningur þeirra Gretu og Jónsa góður. Jónsi á sjálfur marga aðdáendur og gæti auðveldlega dregið inn stig bara fyrir að vera hann sjálfur. Regína Ósk er svo ein af okkar allra skærustu júróvísjonstjörnum og er mætt með ferlega grípandi lag. Ég tel þó að hún muni ekki nái ekki að sigra Gretu og Jónsa eða Magna. 

Ég tel þó að það verði mjög mjótt á mununum annað kvöld og í raun gæti röðin riðlast og hvað af þessum þremur lögum sigrað. Tvö lög til viðbótar gætu auðveldlega blandað sér í baráttuna um að komast inn á top 3 þó ég telji ólíklegt að þau sigri. Það eru lögin Stattu upp í flutningi Blás Ópals og lagið Hey í flutningi Simba og Hrútspunganna. Stattu upp hefur heppnina þetta kvöldið að vera eina up beat-lagið í keppninni og flutt af strákum sem eru vinsælir hjá yngri kynslóðinni. Það verður svo að reikna með þeirri staðreynd að Hey komst áfram í úrslitin og gæti átt gott bakland, höfðað til þeirra sem fíla grín og öðruvísi lög í keppninni og svo er viðlagið bara svo ótrúlega grípandi, ég vaknaði með það á heilanum fjóra morgna í röð um daginn!

Gestaálit: Flosi og Haukur stjórnarmenn í FÁSES

Seinna gestaálitið fyrir Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardaginn gefa þeir Flosi Jón Ófeigsson og Haukur Johnson. Báðir eru þeir afskaplega miklir júróvísjonnördar og hafa spáð og spegúlerað í keppninni í mörg ár. Þeir eru líka stofnendur og stjórnarmenn í FÁSES, Félagi áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

ALDREI SLEPPIR MÉR

Flosi: ,,Dívulag kvöldsins er klárlega Aldrei sleppir mér. Íslendingar eru búnir að eignast Feminem grúppu! Þær eru gullfallegar og syngja allar mjög vel. Það er mikið power í þessari ballöðu og raddirnar hjá þeim fara vel saman. Mér finnst viðlagið ekki alveg nógu sterkt til að vera besta ballaðan í keppninni og eiginlega er lagið svoldið flatt þegar í heildina er litið. Flottasti parturinn er brúin sem endar í svaka trommum. Lagið er bara ekki eins sterkt og hitt lagið hjá Grétu Salomé og ég held að fólk eigi eftir að velja Mundu eftir mér fram yfir Aldrei sleppir mér.  Ég tel það eigi engan sjéns í keppnina hérna heima og eins mikið og aðdáendur lofuðu Feminem árið 2010 þá komst það ekki einu sinni í úrslit þannig að Tríóið á ekki sjéns í Baku að mínu mati. 3 stig af 7″

Haukur: ,,Greta Salóme er að stimpla sig hressilega inn sem einn af okkar dramatískari lagahöfundum og ef hún heldur áfram á þessari braut þá ætti hún að eiga roð í kraftballöðurnar frá gömlu Júgóslavíu einn daginn. Framsetning þessa lags minnir mig einmitt mikið á Lako je sve sem Feminnem fluttu fyrir Króatíu 2010. Lagið sjálft finnst mér svolítið svona Frostrósalegt og það er mjög flott sem slíkt. Sérstaklega finnst mér bláendirinn flottur. Minnir mig á endinn á Circle of Life, og maður kemst ekki hjá því að fá smá gæsahúð. Ég held að lagið eigi möguleika á góðu gengi í Söngvakeppninni, og á þá við 3. og jafnvel mögulega 2. sætið – ef hin tvö sem bítast um 1. sætið skipta atkvæðunum of mikið á milli sín. Ég hef þó ekki trú á að það sigri. Ef ég ber lagið aftur saman við Lako je sve frá Króatíu, sem mér þótti mun sterkara lag, þá held ég að það eigi því miður ekki nægilega góða möguleika í Eurovision, enda sátu Feminnem eftir með sárt ennið í forkeppninni 2010. Maður veit þó aldrei því það er nett væmni fólgin í búningunum (eða eru þær að koma úr busavígslu í MR?), en allt sem höfðar til ungra prinsessa hefur allavega komist upp úr forkeppnunum síðustu ár.“

HUGARRÓ

Flosi: ,,Magni er svo sannarlega í essinu sínu í þessu lagi, rokkballaða og mikil dramantík. Það er spurning hvort 4. skiptið hjá Magna sé árið sem hann vinnur? Þetta er klárlega besta lagið sem Magni hefur sungið í Eurovision. Það er mjög sterk melódía og píanónóturnar fá mann til að fara í einhvern  draumaheim. Ég fýla persónulega ekki rembinginn þegar hann fer á hærri nóturnar en það er bara hans stíll. Magni er með mikið bakland og ef allt gengur upp þá verður hann í TOP 2 og jafnvel spurning um að hans tími sé kominn. Persónulega finnst mér Regína og Jónsi/Gréta með sterkari lög en það er stundum ekki nóg ef þú hefur ekki bakland. Hann mun ná langt í aðalkeppninni og komast í úrslit en verður svona í 15 sæti. 5 stig af 7 mögulegum.“


Haukur: ,,
Það eiga allir sína uppáhaldsflytjendur eins og gengur og gerist, og það er alveg klárt mál að Magni er í miklu uppáhaldi hjá mörgum. Hans tónlist og stíll hafa ekki höfðað til mín og alls ekki í þeim lögum sem hann hefur verið með í Söngvakeppninni fram að þessu. Nú finnst mér hann hins vegar með svo flott og kraftmikið lag að ég get ekki reynt að neita því að ég fíla það. Ég held reyndar að það sé aðallega lagið sem höfðar til mín, sem er gríðarlega flott og að mínu mati fallegasta lagið í keppninni, en Magni er líka að sýna á sér örlítið nýja hlið. Hann gerir þetta vel og ef hann vinnur hér heima þá mun ég styðja hann alla leið. Það eru miklar líkur á að hann fari einn daginn og þá er ég allavega glaður að það sé líka út af laginu, en ekki bara út af hans persónulega fylgi. Mér finnst mjög erfitt að átta mig á því hvernig þessu lagi myndi vegna í Baku.  Hluta af mér finnst að því hljóti að ganga vel þar sem lagið er sjúklega sterkt og Magni er auðvitað svellkaldur undir svona pressu eins og maður sá í Rockstar. En þá er mér hugsað til Eiríks Haukssonar, sem var líka með gott lag (ekki alveg jafngott) og flutningurinn var pottþéttur líka, en það dugði ekki til. Það sem hræðir mig líka smá er að sviðsframsetningin er nánast sú sama. Var það ekki Einstein sem sagði að það væri geðveiki að prófa sömu aðferð aftur og aftur en búast við öðruvísi niðurstöðum? Ég vil benda aðstandendum þessa góða lags á að endurskoða framsetninguna. Ég veit hreinlega ekki hvernig, en við vitum öll að það er enginn að spila á þessi hljóðfæri, og kannski væri hægt að gera eitthvað annað við þá fimm aðila sem mega vera á sviðinu (plís engar ballerínur samt). Og já, ég hef á tilfinningunni að þetta lag sé að fara að sigra Söngvakeppnina.“

STUND MEÐ ÞÉR

Flosi: ,,Þetta er lag sem ég hef enga skoðun á. Mér finnst það hvorki gott né slæmt. Það er svoldið James Bond-fýlingur í og hún er með mjög töff rödd, svoldið lík Duffy. Þetta er lagið sem dómnefndin valdi og því tel ég enga möguleika að það blandi sér í toppinn á laugardaginn næsta. Svona lög gera það oft gott í aðalkepninni en ég held að það týnist þar sem þetta er svona lag sem enginn hefur skoðun á. En þetta er góð tilbreyting frá hinu lögunum í keppninni  og á bara vel skilið að vera þarna og mun örugglega heyrast í útvarpinu heima. 2 stig af 7.“


Haukur: ,,Ég var frekar spenntur þegar ég heyrði að Rósa ætlaði að taka þátt í ár vegna þess að hún sker sig að vissu leyti úr í hópi „the usual suspects“ í Söngvakeppninni. Hún er úr annarri kreðsu, og er kannski að mörgu leyti nær því sem er að gerast í tónlistarsenunni í Reykjavík (bartónleikamenningin). Rósa flytur lagið vel og lagið er líka mjög flott að mínu mati og eitt af þeim sem ég er líklegur til að hlusta á eftir að Söngvakeppninni lýkur. Hins vegar er eitthvað við það sem er ekki nógu afgerandi til þess að það geti náð manni á þremur mínútum. Það er lágstemmt og myndi sóma sér vel sem bakgrunnstónlist á veitingastað eða eitthvað slíkt, eða jafnvel í byrjunaratriði á bíómynd eða eitthvað. En því miður þá held ég að það sé of kraftlaust fyrir Eurovision. Ég held líka að álit fólks hafi lítið breyst frá því í forkeppnunum og því sé það líklegt til að enda neðarlega í Söngvakeppninni.“

HEY

Flosi: ,,Það er eins og Paparnir hafi eitthvað komi nálægt þessu lagi. Þetta eru hressir karlar sem því miður eru ekki góðir söngvarar né kunna að koma fram á sviði. Hugmyndin að atriðinu er flott og gæti virkað ef þeir bæta sig mikið en  lagið er flatt og nær aldrei flugi. Léleg framkoma plús lélegur söngur plús flatt lag þýðir einfaldlega neðsta sæti fyrir mig. Ef þeir taka sig saman í andlitinu þá getu þeir fengið atkvæðin hjá þessum sem fýla grínatriði þó ég haldi að þeir séu ekki að grínast með þetta. Þetta lag getur farið út og floppað eða þá það sama og í undankeppninni hérna fengið atkvæðin hjá  þessum sem fíla grínatriði. 1 stig af 7″


Haukur: ,,
Ég skil ekki hvaðan þetta lag fékk atkvæði sín í forkeppninni. Þetta eru ekki þekktir aðilar sem eiga inni neitt fylgi, svo það hlýtur að vera að fólki hafi þótt þetta fyndið og skemmtilegt. Til að vera sanngjarn þá er lagið sjálft ekkert slæm smíði svo sem, en þetta er bara eins og klósett í borðstofunni í þessari keppni. Það er eitt að vera með grínlög í Eurovision (og sjaldnast dugað vel) en það að vera með einkahúmor er bara vitleysa. Þrátt fyrir að Ísland hafi komist í heimsfréttir á síðustu árum þá er fólk ekki búið að setja sig svona vel inn í okkar mál og ég held að þeim finnist þetta hvorki fyndið né áhugavert. En eftir að hafa verið svona leiðinlegur, þá held ég samt að þessir strákar gætu átt góðan feril hér heima, t.d. með því að spila á þorrablótum. En ég frábið mér að fara að sýna öðrum þjóðum þetta.“

HJARTAÐ BRENNUR

Flosi: ,,Það er óhætt að segja að þegar maður sá að María og Co myndu vinna með Reginu að eitthvað gott væri í vændum. Ég varð fyrir pínu vonbrigðum við fyrstu hlustun en það vann strax á við aðra hlustun. Þetta er að mínu fyrsta lagið í langan tíma sem stenst það að vera samkeppnishæft við nútímapopplög eins og þau gerast best í Bretlandi. Það vinnur á og er svo fast í hausnum á manni eftir nokkrar hlustanir. Regína er flottur performer og vön Eurovision og mun ekki klikka. Spurning er bara hvort Íslendingar séu tilbúnir fyirir að svona nútímapopplag fari til Baku. Ef svo er þá verður hún í Top 2. Væri alveg til í að sjá hana í Baku með lagið á ensku öfugt við Mundu eftir mér. Bakraddirnar eru flott og sviðsframkoman er mjög flott og lítur vel í sjónvarpi. Laginu mun ganga vel í Baku en verður á botninum í aðalkeppninni. 6 stig af 7″

Haukur: ,,Það sem mér finnst frábært við þetta lag er að það er eitthvað algjörlega nýtt í Söngvakeppninni. Það er mjög svona „bouncy“ og manni finnst þetta hafa svolítið útlenskt yfirbragð. Regína skilar því mjög vel og bakraddirnar eru óvenjulega skemmtilegar og flottar. Þetta myndi án alls efa lúkka vel á stóra sviðinu í Azerbaijan og myndi að mínu mati skila góðum meðalfjölda atkvæða í kassann. Persónulega á ég hins vegar stundum svolítið erfitt með svona rosalega frísk og sæt lög, og fæ fljótt nóg. Þetta lag verður alls ekki á botninum í Söngvakeppninni, en ég efast um að það verði í topp tveimur sætunum heldur. Þannig ég segi 4. sæti.“

STATTU UPP

Flosi: ,,Þetta er stuðlag kvöldsins sem mun fá mikinn stuðning  frá ungu kynslóðinni þar sem þeir eru frekar vinsælir og stíllinn hjá Ingó er hressandi og grípandi. Ég hef persónulega lúmskt gaman af þessu lagi þar sem ég er mikill Zumba-aðdáandi og þetta er snilldarlag til að nota í Zumba. Mér finnst samt lagið ekki fara neitt, það byrjar rosa vel en  svo einhvernveginn byggist það ekki,  þannig að það gæti verið að fólki fái leið á því til lengdar. En er það ekki mikilvægast fyrir Evrópu að byrjunin sé grípandi? Þeir eru skemmtilegir og eru pínu sætir með þessi „flóknu“ dansspor. Horfðu þeir á Litháen 2010 með gervi hljóðfæri? Verða kannski glimmer nærbuxur? Ég hef pínu áhyggjur af flutninginum á sviði þar sem þeir voru ekki sannfærandi á undanúrslitunum og hreinlega falskir á köflum. Ef flutningurinn verður góður og þeir í stuði þá gæti þetta orðið í top 2 en ég held að þetta sé ekki vinningslagið. Það héldu margir að Jedwardið í Dusseldorf myndi vinna, en ég held hreinlega að Blár Ópal hafi ekki karakterinn til að skara fram úr í Baku en það veltur að sjálfsögðu á öðrum framlögum. Ég á ekki von að þeir komist í úrslitin ef þeir verða framlag Íslands í ár. Hressir strákar en ekki með reynsluna til að höndla aðalkeppnina. 4 stig af 7 mögulegum.“

Haukur: ,,Mér fannst þetta lag hryllingur við fyrstu hlustun. Mér fannst það í fyrsta lagi bara leiðinlegt, en svo fer alltaf mikið í taugarnar á mér þegar það eina sem mér dettur í hug þegar ég heyri lag er eitthvað annað lag. Í þessu tilviki eru það svona tíu lög, en kannski einna helst Dynamite með Taio Crus (yrði ekki hissa ef hann gæti fengið lögbann á lagið). Það gladdi mig því mikið þegar ég áttaði mig á því að það yrði ekki Ingó sjálfur sem flytti lagið því hann hefur auðvitað mikið persónufylgi, enda er hann mjög lunkinn og sjarmerandi flytjandi. Í dag verð ég að játa að ef ég væri ekki svona hræddur við þetta lag þá þætti mér það örugglega alveg skemmtilegt. En það á hins vegar ekki við framsetninguna. Strákarnir standa sig reyndar sjálfir bara vel, sérstaklega miðað við að flestir eru þeir frekar lítt þekktir og örugglega ekki mjög reyndir að syngja í sjónvarpi. Hins vegar finnst mér atriðið kjánalegt og amatöralegt, og ég þori bara að fullyrða það að Eurovision-kjósendur vilja aðeins meira, enda eru þeir ekki íslenskir menntaskólakrakkar og þetta eru ekki vinir þeirra. Það er heldur ekki nóg að vera flippaður til að standa sig á sviði fyrir framan um 100 milljónir áhorfenda og standa sig vel. Þú þarft reynslu. Loks vil ég biðja Íslendinga að velta einu fyrir sér: Hvernig haldið þið að þetta lag muni hljóma á ensku? Viljiði kannski senda það á íslensku? Það þarf virkilega góða flytjendur til að buna svona hröðum texta út úr sér á ensku án þess að klúðra því. Ég óttast það að þessu lagi gangi vel, en ég held að það vinni ekki, og það myndi vera klúður í Baku.“

MUNDU EFTIR MÉR

Flosi: ,,Þegar texti um sögu Ragnheiði biskupsdóttur og dramatísk Eurovisionuppskrift af lagi með íslenskum þjóðlagakeim er sett saman, verður til Mundu eftir mér. Þegar ég heyrði lagið fyrst þá greip  það mig strax og melódían festist í hausnum hjá mér. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég tengi textann við lagið svona sterkt, ég fæ svona þjóðarstolttilfinningu og sæi þetta fyrir mér svona í auglýsingu til að kynna Ísland á dramantískan hátt, eldgos, fárviðri, jöklar. Þetta tikkar í öll box sem gott Eurovisionlag, kannski nokkrum árum of seint með fiðludramatíkina en það virðist alltaf virka. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé lag sem mun virka jafnvel betur á íslensku í aðalkeppninni. Ég tel þetta vera lag sem verður pottþétt í top 2 í undankeppninni heima og ef það vinnur þá gerir það góða hluti og mun jafnvel  komast í top 10. Þetta er persónulega mitt uppáhalds lag í keppninni. Raddirnar hjá Jónsa og Grétu fara vel saman og lagið er mjög vel sett upp. Flutningurinn á undanúrslitakvöldinu var mjög sannfærandi og á bara eftir að verða betri. Ég hef leyft vinum mínum sem eru ekki aðdáendur Eurovision að hlusta á lögin sem eru í keppninni og þetta er alltaf lagið sem þeir segja vera best. 7 stig af 7 mögulegum.“

Haukur: ,,Krummi svaf í klettagjá með Beethoven ívafi er það sem kemur í hugann í byrjun. Og það er alls ekki svo slæm blanda. Ég hafði ákveðna fordóma fyrir þessu lagi til að byrja með þar sem mér fannst svona norrænt-og-dulrænt þegar hafa verið notað í Eurovision (The Voice frá Írlandi 1996 og Alvedansen frá Noregi 2006 t.d.). Þá er maður auðvitað enn að jafna sig á fiðlunni eftir Rybak-geðveikina. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta lag er bara gríðarlega kraftmikið og miðað við þá gæsahúð sem það kallar fram í míní-stúdóinu hjá RÚV þá get ég rétt ímyndað mér hvernig tilfinningu maður fær af því á stóra sviðinu í Baku. Svo er bara ekki hægt að neita því að Jónsi er geðveikislega góður performer, sérstaklega í svona drama, og ég held að salurinn muni þrýstast í sætin þegar æðarnar poppa út. Svo finnst mér það mjög skemmtilegt að höfundurinn sé svona hæfileikaríkur og góður flytjandi líka, eins og Greta er. Og mér finnst hún ekki hverfa í skuggann af Jónsa vegna þess að þetta lag á að vera dúett og Jónsi bara þarf að fá að skína. Þrátt fyrir allt þetta, þá finnst mér enn eins og laginu vanti eitthvað örlítið, en ég get ekki sett puttann á það. Kannski er það bara stærra hús? Ég vona allavega að ég sjái þetta lag í Kristallshöllinni í maí, og ég held að það séu góðar líkur á því. Og þá erum við að tala um topp 5 í vor! Að lokum vil ég biðja Gretu og Jónsa að íhuga það alvarlega að flytja lagið á íslensku í Baku ef þau vinna. Þetta er rammíslenskt lag og ég held að fólki muni finnast þetta jafnvel enn dramatískara ef það skilur ekki textann (nefni gömlu Júgóslavíulöndin í þessu samhengi).“

Gestaálit: Henný og Siggi fjölmiðlamenn og júróvisjonnördar!

Við kynnum hér með nýjan lið hérna hjá okkur: Gestaálit!

Hér fáum við til liðs við okkur þau Henný Árnadóttur og Sigurð Þorra Gunnarsson (Sigga Gunn) fjölmiðlafólk og júróvisjónspekúlanta til að spá í spilin fyrir úrslitin og meta hvert lag fyrir sig. Henný er blaðamaður fyrir erlenda Eurovision-fréttavefinn ESC Daily og Sigga bregður fyrir á skjánum hjá sjónvarpsstöðinni N4 auk þess sem hann er dagskrárgerðarmaður á FlassFM:

ALDREI SLEPPIR MÉR
„Greta hefur tekið þá ákvörðun að syngja ekki þetta lag sjálf með Heiðu og Guðrúnu Árnýju á úrslitakvöldinu heldur láta þær tvær um flutninginn á laginu.  Ég tel þessa ákvörðun hennar hárrétta því hún getur ekki verið í tveimur atriðum, atkvæðin myndu skiptast á milli laganna og rýra hennar möguleika á sigri. Ég er mjög hrifin af Grétu sem lagahöfundi, söngkonu og fiðluleikara, hún er mjög hæfileikarík. Lagið er vel byggt og innihaldsmikið. Mér fannst hins vegar ekki passa að þær rödduðu ekki viðlagið í undankeppninni og ég vona að þær breyti því fyrir úrslitin. Erlendir áhugamenn um keppnina eru hrifnir af þessu lagi og ég tel að það gæti vel fengið þó nokkur atkvæði í keppninni í Baku.“

„Það er eitthvað í þessu lagi! Gréta kann svo sannarlega að semja flott lög og ég held að þetta gæti verið „the dark horse“ í keppninni á laugardag. Þetta lag gæti auðveldlega unnið, það verður a.m.k. í toppbaráttunni. Þrjár gullfallegar hæfileikaríkar konur að syngja kraftmikið lag = formúla sem er líklegt til árangurs. Þetta lag gæti sömuleiðis sæmt sér vel út í stóru keppninni. Grípandi og heillandi, stelpurnar sviðsvanar og það eru miklir möguleikar að gera flotta sviðsframkomu úr þessu.“

HUGARRÓ
„Sveinn Rúnar vandaði vel til verka þegar hann samdi þetta lag.  Hann er mikill reynslubolti í keppninni og þetta lag er honum mjög hugleikið. Þórunn Erna Clausen kann að semja texta.  Hún nær að koma skilaboðum höfundar vel frá sér. Lagið hentar Magna vel, en hann var sá eini sem kom til greina til að syngja þetta lag. Ég tel þetta lag mjög sigurstranglegt.  Rokkballaða sem hefur allt sem þarf, laglínan er grípandi og áhrifamikil, byrjar rólega, rís svo upp og endar á sömu rólegu nótunum og það byrjaði. Sumir segja að það sé komið að Magna að fara út en ég tel að lagið, textinn og Magni sé blandan sem er að skila atkvæðunum. Höfundur lagsins býr í Ungverjalandi, hefur samið fyrir flytjendur í Rússlandi og Rúmeníu en þessi lönd þrjú eru með okkur í fyrri undankeppninni, gæti skilað okkur atkvæði… hver veit.  Ég tel að þetta lag gæti gert góða hluti fyrir okkur í Eurovision í Baku og skilað okkur upp úr undankeppninni, erlendir aðdáendur hrífast bæði af laginu og Magna.“

„Þetta lag finnst mér eitt af þeim sterkustu í keppninni í ár. Magni er mjög öruggur í sínum flutningi og svo er lagið bara vel samið. „Hookurinn“ er alveg baneitraður og grípu rmann alveg um leið. Þessu lagi á eftir að ganga vel á laugardaginn og tel ég það eitt af þeim sigurstranglegustu. Það verður pottþétt í topp 3. Ég held líka að þetta lag gæti plummað sig mjög vel úti í stóru keppninni. Magni veit alveg hvernig á að haga sér á sviði og gæti orðið góður fulltrúi okkar út í hinum stóra heimi. Hinsvegar þyrftum við að breyta „kóríógrafíunni“ aaaaðeins, mér finnst 4 gaurar á gítar fyrir aftan í leðurbuxum eitthvað svo kjánalegt og lagið þarfnast þess engan veginn.“

STUND MEÐ ÞÉR
„Sveinn Rúnar hefur átt mjög ólík lög í keppninni í ár og fór þetta lag inn í úrslit á dómnefndaratkvæðum. Lagið hentar Rósu mjög vel, nútímalegt popplag sem er gaman að fá í Söngvakeppnina. Rósa er að syngja í fyrsta skipti í Söngvakeppni Sjónvarpsins og fögnum við að sjálfsögðu alltaf nýjum röddum og andlitum í keppninni. Ég held engu að síður að það séu önnur lög sem eru sterkari í keppninni í ár heldur en þetta lag en það verður gaman að sjá Rósu aftur á sviðinu og heyra þetta lag flutt. Ég tel að það séu önnur lög í keppninni sem myndu skila okkur fleiri atkvæðum í Baku en Eurovision keppnin hefur margoft komið okkur á óvart svo maður veit aldrei 🙂

„Þetta er rosalega krúttlegt lag. Flott útvarpslag sem á örugglega eftir að vera spilað á Bylgjunni næstu mánuði. Þetta lag komst ekki áfram nema sem wildcard og árangurinn verður eftir því á laugardagskvöld. Samt gaman að fá það áfram því það er hörkuflott og kryddar keppnina á laugardagskvöld. En ef það færi út? Hmm… ég bara veit ekki ég held að þetta sé ekki Eurovision-lag sem kveikir elda á þremur mínútum, lagið er samt mjög gott!“

HEY
Lagið hefur þjóðlegt yfirbragð, og getur alveg orðið vinsælt hér heima, textinn er nokkuð góður og fjallar um það sem við erum að eiga við í dag, við höfum gaman af þjóðlegri tónlist og ég hugsa að þetta lag gæti safnað góðum atkvæðum hjá eldri kynslóðinni, en ég sé þetta lag einhvern veginn ekki fyrir mér koma okkur áfram í Baku. Það er þó búið að vera virkilega gaman að sjá fjölbreytta flóru í tónlist í keppninni í ár.“

Æji, já, þið segið það… Mér finnst þetta lag ekki vera málið, sorry. Voða sætt, alltílæ, en ekkert meira en það. Lagið komst áfram en ég tel afskaplega litlar líkur á að það geri einhverjar rósir á úrslitakvöldinu… Og það myndi aldrei virka úti!“

HJARTAÐ BRENNUR

Hér eru á ferð sömu lagahöfundar og sömdu lagið sem Jóhanna Guðrún flutti í fyrra. Þetta sinnið hafa þessir höfundar valið reynslubolta úr Eurovisionheiminum, hana Regínu Ósk. Regína veit hvað hún er að gera, syngur óaðfinnanlega og býður upp á líflega og skemmtilega sviðsframkomu.  Hún hefur með sér hressustu bakraddir keppninnar og ekki er það oft sem við sjáum bakraddir með svona mörg spor 🙂
Flutningur lagsins var góður í undankeppninni.  Ég hef einhvern veginn trú á því að þetta lag sé betra á ensku en íslensku, fínasta popplag og verður í topp 4 sætunum. Erlendir aðdáendur keppninnar þekkja vel til Regínu Óskar og það er spurning hvort það sé eitthvað sem myndi hjálpa okkur í Baku.“

Þetta er mjög vel samið popplag, enda Svíar sem semja og ef einhverjir kunna að gera flott popp þá eru það þeir. Mér finnst reyndar rythminn í því ekki henta fyrir íslenskan texta sem gæti skemmt fyrir laginu á laugardaginn. Ég myndi ekki henda stólum og borðum til og frá ef þetta lag færi út en ég held að það verði bara í miðjumoði á laugardag. Regína er alltaf flott og á eftir að skila sínu vel á laugardag, hver veit, kannski skilar það laginu einhverju á laugardag. Ef lagið færi út held ég að því gæti bara vegnað vel, að minnsta kosti hjá frændum okkar í Skandinavíu og auðvitað myndu PR-mennirnir básúna það að Svíar sömdu lagið til að ná í pottþétt 12 stig þaðan!

STATTU UPP
Ég hugsa um sólarströnd þegar ég heyri þetta lag.  Nýbreytni frá Ingó Veðurguð og Axeli Árna. Lagið er skemmtilegt og jákvætt, hægt að dilla sér og unga kynslóðin er að fíla þetta lag, strákarnir eru virkilega skemmtilegir og koma með ferskt blóð inn í keppnina. Lagið er það mikið uptempó að ég vil sjá þá nýta meira sviðið með. Þetta lag sé ég ekki fyrir mér á ensku, veit ekki alveg af hverju. Blár Ópal getur vel verið í baráttunni um sigurinn líka með Magna og Gretu/Jónsa.
Evrópubúar eru sumir mjög hrifnir af laginu.  Mér finnst það hresst og skemmtilegt og ég tel að það muni skipta máli hvar lagið verður í röðinni og hvernig sviðsframkoman verður hjá strákunum.“
Þetta lag er hresst og skemmtilegt og strákarnir sem flytja þetta koma með ferska vinda inn í keppnina. Ég held að þetta lag sé nokkuð sigurstranglegt, aðallega vegna þess að ungu áhorfendurnir eiga eftir að styðja það af lífs- og sálarkröftum. Ég hins vegar veit ekki alveg með þetta lag. Mér finnst strákarnir sem flytja þetta flottir og frambærilegir og lagið skemmtilegt, en ég held að það sé meira „íslenskur sumarsmellur“ en sigurstranglegt Eurovisionframlag. Strákarnir eru tiltölulega nýir í bransanum og ekki það sviðsvanir að stóra sviðið úti gæti verið ansi stórt stökk. Svo veit ég ekki hvort að Evrópa nái laginu. Hins vegar gæti ég bara verið að bulla út um afturendan á mér og laginu gæti gengið mjög vel úti. Það er svolítið erfitt að ráða í þetta. Þetta verður allavegana vinsælt í útvarpinu í vor og sumar, ég alveg pottþétt eftir að spila þetta á Flassinu næstu mánuði.“
MUNDU EFTIR MÉR
Það eru tvö lög í þessari keppni sem eru líkleg til sigurs og þetta er annað þeirra. Jónsi stígur á svið á ný eftir nokkurt hlé ásamt Gretu Salóme og flutningur þeirra er mjög sannfærandi og kraftmikill.  Bakraddirnar eru þéttar og Guðrún Árný vinnur vel með Gretu í hærri tónunum. Lagið er mjög þjóðlegt en þó með austurlenskum keim, ég er mjög hrifin af öllum strengjunum í lögunum hennar Gretu og finnst koma mikil fylling í lagið.
Atriðið á sviðinu í undankeppninni var mjög flott og kjóllinn hennar Gretu einn sá flottasti sem ég hef séð en hún verður í honum einnig á úrslitakvöldinu. Þetta lag gæti gert fyrir okkur góða hluti í Baku og skilað okkur upp úr undankeppninni en erlendir aðdáendur keppninnar eru mjög hrifnir af laginu.“
Þetta lag finnst mér mjög skemmtilegt. Bullandi þjóðleg áhrif eru heillandi og það væri spennandi að senda lag út með þjóðleg áhrif. Svoleiðis lögum hefur oft vegnað vel úti. Lagið er mjög vel samið af Grétu og hún flytur það vel ásamt honum Jónsa. Sambandið þeirra á sviðinu er mjög gott og ég held að laginu eigi eftir að vegna vel á laugardaginn. Mér finnst svo möguleikinn að senda þetta út mjög spennandi, við höfum aldrei sent lag með þjóðlegum áhrifum út en sagan segir okkur að þjóðleg áhrif geta verið góð!“

Möguleikar í úrslitum: Stund með þér

Komið er að því að fara yfir mögleika síðasta lagsins sem keppir á úrslitakvöldinu á laugardaginn. Lagið heitir Stund með þér og er fluttningi Rósu Birgittu Ísfeld. Lagið keppti á öðru undanúrslitakvöldinu og komst ekki áfram. Hins vegar valdi sérstök dómnefnd lagið úr þeim lögum sem ekki voru komin áfram, til að keppa á úrslitakvöldinu.

 

Kostir:

  • Gríðarlega góður og öruggur flutningur.
  • Öðruvísi en öll önnur lögin í keppninni – höfðar til breiðari hóps áhorfenda.
  • Alls ekki júróvisjónlegt lag sem getur verið mjög gott – ferskur andblær og allt það…


Gallar:

  • Dansararnir e.t.v. ekki allra – snilld eða skelfing!
  • Laginu svipar örlítið til þýska framlagsins í fyrra (Taken by a Stranger – Lena) og fyrir þá sem fíluðu það ekki gæti samlíkingin ekki verið til góðs.
  • Lágstemmdara en önnur lög í keppninni sem gæti orðið til þess að það gleymist.


Möguleikar alls í Söngvakeppninni: 
 Möguleikarnir teljast ekki verulega miklir þar sem búast má við því að áhorfendur kjósi frekar júróvisjonlegri lög. Gæti þó orðið vinsælt á útvarpsstöðvum landsins í kjölfar keppninnar.

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Lag í þessum dúr eru algjörlega óráðin stærð í Júróvísjon. Lagið gæti hitt beint í mark og náð ágætum árangri en líkurnar eru þó meiri á því að lagið kæmist ekki áfram úr undanriðlinum.

Möguleikar í úrslitum: Stattu upp

Sjötta lagið sem við fjöllum nú var það fyrsta sem komst áfram í úrslitin. Lagið heitir Stattu upp og er í flutningi strákanna í Bláum ópal.

 

Kostir:

  • Hress og grípandi laglína.
  • Að hluta til þekktir flytjendur hjá ákveðnum aldurshópi.
  • Glaðlegt lag sem allir fá á heilann – og dilla rassinum við heima í stofu.

Gallar:

  • Ekki hægt að treysta á fölskvalausan flutning.
  • Örlítið of menntaskólalegt – og flytjendur einmitt aðeins þekktir hjá ákveðnum aldurshópi.
  • Lagið e.t.v. of mikið undir áhrifum frá Wakawaka (Shakiru) og Habahaba (Stella Mwangi 2011) til að vera nýtt og frumlegt.

Möguleikar alls í Söngvakeppninni: Þetta er klárlega eina lag sinnar tegundar í úrslitunum 2012 og eiginlega ómögulegt að sjá fyrir hvort það slái algjörlega í gegn eða ekki, en það er þó líklegra að þetta verði mjög vinsælt, ekki síst í heimapartíunum!

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Möguleikarnir  verða að teljast ágætir enda hresst grípandi lag hér á ferð. Það veltur þó talsvert á flutningnum. Það gæti sett strik í reikninginn að þetta er mjög íslenskt atriði. Þýsku gönguljósamerkin í bakgrunni gætu aukið á vinsældir lagsins – að minnsta kosti í Þýskalandi 😉

Möguleikar í úrslitum: Mundu eftir mér

Seinna lag Gretu Salóme í keppninni er lagið Mundu eftir mér sem hún flytur ásamt Jóni Jósepi Snæbjörnssyni. Þau komust áfram af fyrsta undanúrslitakvöldinu.

Kostir:

  • Grípandi og mjög íslenskt lag.
  • Raddir hljóma vel saman með góðum stuðningi þaulreyndra bakradda.
  • Hefur þetta „grípur-við-fyrstu-hlustun“ element sem er eiginlega nauðsynlegt í þessari keppni.

Gallar:

  • Lagið er sterkara í stúdíó-útgáfu en live á sviði.
  • Laglína aðeins of djúp fyrir Grétu í live-flutningi.
  • Lítið kemestrí á milli Grétu og Jónsa á sviðinu.

Möguleikar alls í Söngvakeppninni:  Svo framarlega sem flutningurinn verði góður á sviðinu þá gæti lagið átt ágæta möguleika á að komast í efstu sæti keppninnar. Íslenskir aðdáendur virðast líka halda dálítið með þessu lagi sem ætti að geta skilað sér í símakosningunni.

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Möguleikarnir hljóta að vera nokkuð góðir. Lagið er sterkt til að byrja með sem hefur mikið að segja a.m.k. í aðalkeppninni á laugardeginum. Þar sem Jónsi hefur áður tekið þátt í Júróviśjon og á því sess meðal aðdáenda keppninnar gæti það orðið til þess að lagið yrði kosið upp úr undankeppninni. Hins vegar gæti verið að hinn íslenski bragur sem er á laginu og sú þekkta íslenska saga sem þarna liggur að baki nái alls ekki til júróvísjonheimsins og þá missir lagið marks. En maður veit svo sem ekki, það gæti unnið með okkur!

Möguleikar í úrslitum: Hugarró

Síðasta lagið sem við veltum upp möguleikum í úrslitum í dag er lagið Hugarró í flutningi Magna. Lagið keppti á þriðja undanúrslitakvöldinu.

Kostir:

  • Velþekktur og nokkuð pottþéttur flytjandi sem hefur sýnt að hann á stóran aðdáendahóp í Söngvakeppninni!
  • Mjög vel útfært lag, bæði grípandi, með góða júróvísjon-formúlu og áhrifamikið.
  • Sex karlmenn á sviðinu í einu!

Gallar:

  • Kannski of látlaust lag fyrir Júróvisjón.
  • Sviðsetningin ekki nógu spennandi.
  • … okkur detta ekki fleiri gallar í hug því að þetta er uppáhaldslagið okkar í úrslitunum 🙂

Möguleikar alls í Söngvakeppninni:  Möguleikarnir verða að teljast verulega miklir. Magni hefur sýnt það að hann er vinsæll flytjandi í Söngvakeppninni og þetta lag er nánast útsett fyrir hann og mjög grípandi. 

Möguleikar í Eurovision sjálfri: Lög af þessum toga geta oft týnst í Júróvísjon sjálfri. Þar sem Magni er þekktur flytjandi og Sveinn Rúnar og Þórunn þekktir höfundar meðal aðdáenda í júróvísjonheiminum má alveg gera ráð fyrir að lagið nái nægilegri kosningu til að komast áfram í úrslitin en framhaldið væri óskrifað blað!