Við birtum hér pistil Flosa Jóns Ófeigssonar, alþjóðafulltrúa FÁSES um Aserbaídsjan:
Höfuðborg | Baku |
Fólksfjöldi | 7.391.000 |
Stærð | 87,000 km2 |
Mynt | Manat |
Þá er Eurovision-tímabilið byrjað og lög farin að týnast inn sem verða með árið 2012. Að þessu sinni verður keppnin haldin í Baku í Aserbaídsjan.
Ár |
Flytjandi |
Heiti lags |
Sæti |
Stig |
Undanúrslit |
Stig |
2008 | Elnur & Samir | „Day After Day„ | 8 | 132 | 6 | 96 |
2009 | Aysel & Arash | „Always„ | 3 | 207 | 2 | 180 |
2010 | Safura | „Drip Drop„ | 5 | 145 | 2 | 113 |
2011 | Eldar & Nigar | „Running Scared„ | 1 | 221 | 2 | 122 |
Aserbaídsjan hefur átt góðu gengi að fagna í Eurovision síðan landið tók fyrst þátt í Eurovision árið 2008, eins og sjá má á töflunni hér að ofan. Aserbaídsjan sendir metnaðarfull atriði og leggur mikinn pening í atriðin. Meðal annarra var danshöfundur Beyonce fenginn til að semja dansinn fyrir Safuru árið 2010 og dæmi hver fyrir sig hvort það hafi borgað sig.

Frá höfuðborginni Baku
Íslendingar hafa gefið Aserbaídsjan 12 stig samtals á úrslitakvöldinu eða 4 stig árið 2010 og svo 8 stig á síðasta ári. Öll lögin, nema kannski lagið frá 2008, voru mikið spiluð í íslensku útvarpi og ættu allir að kannast við þau. Íslendingar og Aserar eiga það sameiginlegan gríðarlegan áhuga á Eurovision og er Eurovision mikill stökkpallur fyrir söngvara í báðum löndum til kynningar utan landsteinanna. Það sést einnig á því hve margir fara á keppnina sjálfa og veifa fána Aserbaídsjan. Miklar vangaveltur hafa verið uppi um öryggi fólks í Aserbaídsjan í tengslum við Eurovision þar sem mannlífið og menningin í Aserbaídsjan er allt öðruvísi en í Vestur-Evrópu. Mikið hefur verið um neikvæðar umsagnir um Aserbaídsjan, sérstaklega þar sem meirihluti aðdáenda Eurovision eru samkynhneigðir og Aserbaídjan múslimaríki. Ég ákvað að lesa mér aðeins um þetta óþekkta land og sjá hvort það væri þess virði að ferðast þangað.
Aserbaídsjan hefur landamæri að 5 löndum; Rússlandi, Georgíu, Armeníu, Tyrklandi og Íran. Aserbaídsjan liggur líka að Kaspíahafi þar sem nokkrar eyjar tilheyra landinu. Aserbaídsjan er á mörkum Austur-Evrópu og Vestur-Evrópu. Um það bil 40% landsins er fjalllendi og ber þar helst að nefna Kákasus-fjallgarðinn. Hæsta fjallið er Bazarduzu Dagi sem er 4.485 metra hátt.

Bazarduzu Dagi 4.485 m
Kaldir vindar frá Skandinavíu og Síberíu stöðvast á Kákasusfjallgarðinum sem veldur því að Aserbaídsjan er að mestum hluta í tempraða loftlagsbeltinu og því eru hitabreytingar miklar eftir árstíðum. Samt sem áður eru 9 loftlagsbelti í Aserbaídsjan af þeim 13 sem eru í heiminum. Hæsti hiti sem mælst hefur er 46°C og mesta frost er -33°C.
Um það bil 96% þjóðarinnar eru múslimar. Þeir tilheyra múslimahópi sem kalla sig sjíta-múslima. Þeir eru aðeins í meirihluta í tveimur löndum í heiminum; í Aserbaídsjan og nágrannalandinu Íran. Þeir hafa það orðspor að vera mjög íhaldssamir og eru oft kallaðir bókstafstrúaðir múslimar í samanburði við sunní-múslima. Þrátt fyrir að vera bókstafstrúar eru Aserar fremur veraldlegir, þá sérstaklega íbúar Baku. Meirihluti kvenna notar ekki höfuðblæjur og áfengisbann hefur víðsvegar verið aflétt.
Aserbaíska er hið opinbera tungumál en vegna þess hve Rússar réðu lengi yfir Aserbaídsjan, tala margir rússnesku. Einnig er nokkuð um ensku og tyrknesku. Rétttrúaðir, kristnir og gyðingar spila stóran sess sem minnihlutahópar. Í Aserbaídsjan er forseti æðsti þjóðhöfðinginn og er hlutlaus, en eins og á Íslandi getur hann beitt neitunarvaldi ef hann finnur að þjóðin er ósátt. Aserbaídsjan varð fljótt ein af ríkustu þjóðum í heimi eftir að olía og gas fundust þar í landi. Í dag koma 2/3 af tekjum landsins frá olíu og gasframleiðslu. Árið 2007 kom í ljós að hæstu launahækkanir voru allt að 30%. Þessi hraða tekjuauking í orkubransanum hefur hækkað verð í öðrum atvinnugreinum og valdið mikilli verðbólgu og hafa menn kallað svo mikla verðbólgu í orkubransanum „hollensku veiruna“.
Þegar kemur að mannréttindamálum er skiljanlegt að samkynhneigðir aðdáendur Eurovision séu áhyggjufullir yfir því hvernig þeim verður tekið ef þeir ákveða að ferðast til Baku. Samkvæmt heimildum IGLA var það fyrst í september 2001 sem sovéskum hegningarlögum um að samkynhneigð væri ólögleg, var aflétt. Fyrir þann tíma fengu menn 5 til 7 ára dóm fyrir að eiga endaþarmsmök. Nú eru menn dæmdir í 3-15 ára fangelsi fyrir að beita ofbeldi í kynlífi milli tveggja karla. Lesbíur eru ekki nafngreindar í reglunum. Ungur maður frá Aserbaídsjan lýsir því að það séu ekki reglurnar sem koma í veg fyrir að samkynhneigðir geti verið þeir sjálfir opinberlega, heldur trúin og fólkið sjálft. Hann segir: „Það verður hlegið af okkur ef við komum út úr skápnum, það er ekki gott fyrir okkur.“ Með þessu er hann að segja að það sé ekki hræðslan að bregðast guði, heldur niðurlægingin í samfélaginu. Það sama á við þegar kemur að mannréttindum kvenna. Aserskar konur hafa sömu réttindi og aðrar konur í vestrænu samfélagi en samfélagið sjálft er ekki tilbúið að framfylgja þeim réttindum. Konur kjósa meira að segja en það er ekki vel liðið. Vændi fyrirfinnst í miklum mæli í Baku og er það mjög algengt að konur fari í vændi til að leggja sitt af mörkum til heimilisins.

Einn af Azykh-hellunum
Saga Aserbaídsjan er ein sú elsta í heiminum og má rekja til Azykh-hellanna sem eru áhrifamiklir hellar þar sem finna má fornminjar frá steinöld. Hellarnir eru með stærstu hellum í heimi eða um 800 km.
Fyrsta mótun landssvæðisins Aserbaídsjan var í tíð höfðingjans Antropatena-Atropar og nafnið Aserbaídsjan var fyrst notað í hans tíð. Í langan tíma var landssvæðinu Azerbaídsjan skipt í norður og suður, þar sem Albanir réðu í norðri og Antropatan í suðri. Seinna skiptist það í rússneska og íranska hlutann. Múslimar tóku yfir á 8.öld og hefur múslimatrúin verið við lýði síðan. Á 20. öld varð mikil breyting á þar sem olía kom Aserbaídsjan á kortið og breytti þjóðinni yfir í eina ríkustu í heimi. Undir forrystu Mehmet Emin Rasulazadeh, var Aserbaídsjan gert að alþýðulýðveldi á árunum 1918-1920 þar sem Georgíumenn, Aserar, Rússar, Armenar og gyðingar voru með á þingi. Það tók Aserbaídsjan 70 ár að fá sjálfstæði frá Sovétríkjunum en það gerðist 18. október 1991. Í dag er Aserbaídsjan eina fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna sem er ekki með rússneskar herstöðvar í landinu.

Tárin af Kayapaz
Aserbaídsjan og borgin Baku hafa heldur mikið upp á að bjóða þegar kemur að ferðamennsku. Boðið er upp á dagsferðir í Azykh-hellana og hin svokölluðu Tár af Kayapaz, sem eru 7 vötn hlið við hlið og mynda röð af tárum sem er ástæða fyrir nafninu. Aserbaídsjan á það sameiginlegt með Íslandi að þar er mikil eldvirkni og er það oft kallað land Leireldfjallanna. Yanardag-fjallið er talið vera eitt undur veraldar fyrir það eitt að vera brennandi fjall allt árið um kring. Ekki má gleyma Gobustan-þjóðgarðinum sem hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 2007. Hann hefur meðal annars að geyma minjar sem benda til blómlegs mannlífs 10.000 árum fyrir Krist. Í Baku eru byggingar sem vert er að sjá eins og Ataskah-eldmusterið sem er byggt ofan á gashver og hefur verið eldur þar síðan á 17.öld. Það mætti lengi telja hvað Aserbaídjan hefur að bjóða fyrir ferðamenn til að sjá.

Fornminjar í Gobustan-þjóðgarðinum
Það lítur út fyrir að Aserbaídjan hafi ýmislegt fram að færa fyrir ferðamenn en fólkið í landinu er eftir á þegar kemur að mannréttindum. Ég vil trúa því að andinn sem ríkir í Eurovision muni fylgja keppninni alla leið til Aserbaídsjan þannig að allir geti skemmt sér saman og notið frábærs tónlistarviðburðar sem sameinar Evrópu. Það er ólýsanleg tilfinning að reyna að útskýra fyrir öðrum hvernig það er að fara á Eurovision og upplifa stemmninguna. Það er einna helst hægt að lýsa þessu sem stórri fjölskyldu sem stendur saman hvar sem keppnin er haldin. Það sannaði sig þegar keppnin var haldin í Serbíu sem er nú ekki talið mjög opin fyrir samkynhneigð. Með góðri skipulagningu og mikilli gæslu fóru allir ánægðir heim. Það er þá ekkert annað eftir en að bóka miða til Aserbaídsjan. Það þarf að hafa vísa, eða vegabréfsáritun, til að fara til Aserbaídsjan. Hér er heimasíða með öllum upplýsingum um hvernig á að sækja um en ég bendi á að verið er að vinna í að auðvelda fólki að koma til landsins í kringum Eurovision: http://www.visaforazerbaijan.org.uk/about.php. Nokkur flugfélög bjóða upp á flug til Aserbaídsjan og er London besti staðurinn fyrir þá sem eru að fara frá Íslandi. Engin hótelherbergi eru enn fáanleg vegna þess að lokað var fyrir forsöluna en þau verða aðgengileg til sölu í lok febrúar. Ég vil að lokum óska öllum góðrar skemmtunar fyrir komandi Eurovision-tímabil og segi áfram Ísland 🙂