Yfirferð laga 2011 III

Við höldum áfram að birta okkar yfirferð yfir lögin í fyrri undanriðlinum. Næst eru það Malta, San Marínó, Króatía, Ísland og Ungverjaland.

Malta – One Life í flutningi Glen Vella

Eyrún segir: Malta sendir í ár starfandi stuðningsfulltrúa með óbilandi söngleikjaáhuga, Glen Vella. Hann syngur um að njóta lífsins til fullnustu – í raun gæti þetta lag orðið einkennislag aðdáenda Eurovision! 🙂 Lagið er hins vegar lapþunnt og óáhugavert og ég held að það eigi ekki eftir að koma Möltu í úrslitin í ár!

Hildur segir: Í ár veðja Maltverjar á hressilegt júrópopplag sem er vending frá ofurballöðunni sem þeir sendu í fyrra og sátu heima á úrslitakvöldinu. Lagið er alls ekki slæmt en raddbeiting Glen og millikaflinn í laginu fara alveg óskaplega í taugarnar á mér sem endar með því að ég verð ofsalega pirruð þegar ég heyri lagið. Þrátt fyrir það held ég að Glen verði hress á sviðinu og komist áfram í úrslitin.

San Marínó – Stand By í flutningi Senit

Eyrún segir: Smáríkið San Marínó tók þátt í Eurovision í fyrsta sinn 2008 og uppskar 19. sætið. Það dró sig úr keppninni 2009 og sat heima í fyrra en í ár senda þeir fallega söngkonu ættaða frá Erítreu, Senit, með lagið Stand By. Lagið sjálft er afskaplega lítið spennandi en ljómandi melódía engu að síður. Hins vegar nær það aldrei að rísa neitt upp fyrir meðalmennskuna og mér er lífsins ómögulegt að syngja nokkuð úr því, ekki einu sinni viðlagið. San Marínó situr eftir í ár!

Hildur segir: San Marínó kemur aftur til keppni í ár og hefur valið söngkonuna Senit til að koma fram fyrir þeirra hönd. Senit er vinsæl og farsæl söngkona og á án efa eftir að standa sig vel á sviðinu. Lagið er fallegt popplag í rólegri kanntinum sem jafnvel mætti kalla lágstemmda ballöðu sem svífur um í 3 mínútur en skilur lítið eftir sig. Því miður fyrir San Marínó-búa þá held ég að þeir mun ekki komast áfram í úrslitin.

KróatíaCelebrate í flutningi Dariu

Eyrún segir: Úff, hvar skal byrja? Af þessu fyrrum Júgóslavíuríkjum hefur gengi Króatíu verið hvað síst og í fyrra sátu þeir eftir með sárt ennið í undankeppninni. Í ár senda þeir söngkonu með júrópoppslagara sem er virkilega slæmur. Hann er svo slæmur að þeir hefðu allt eins getað fengið landsliðskonuna í stangarstökki til að flytja það – og hún hefði verið eðlilegri en Daria sú sem syngur! Hún er einkar afkáraleg og í myndbandinu er hún afskaplega ósannfærandi í „partíinu“ sínu. Ætli Króatía verði ekki að horfa á aðalkeppnina úr sófanum heima í ár eins og í fyrra?

Hildur segir: Króatar veðja á júrópopp í ár eftir að hinar geysivinsælu Feminnem sátu mörgum að óvörum eftir í undankeppninni í fyrra með ballöðu. Því miður held ég að Króatar hljóti sömu örlög í ár. Lagið byrjar í hægari kantinum með djúpum nótum sem ég er hrædd um að verði falskar hjá hinni ungu Dariu og það verði mjög lítið um fagnaðarlæti á sviðinu meðan hún flytur lagið sitt. Það bara vantar eitthvað til að gera það áhugavert!

Ísland – Coming Home í flutningi Vina Sjonna

Eyrún segir: Þá er komið að Vinum Sjonna – og heppnin virðist vera með þeim því að það hlýtur að vera gott að koma á eftir svona slöku júrópoppi með blússkotið lagið Coming Home. Nú held ég að öll þjóðin sé farin að syngja með þeim fallegu melódíuna hans Sjonna og ég treysti því að eftir að þeir hafa flutt lagið og auglýsingahlé verður gert, verði öll Evrópa syngjandi og hummandi lagið á meðan fólk fer að pissa eða poppa meira! Hreimur, Gunni, Viggi, Matti, Benni og Pálmi – gangi ykkur vel og góða skemmtun á sviðinu! 🙂

Hildur segir: Aftur heim var algjörlega mitt uppáhaldslag í undankeppninni heima í ár og ég byrja alltaf að brosa þegar ég heyri það. Mér finnst vel hafa tekist til að laga lagið að Vinum Sjonna og enski textinn er vel heppnaður. Ég trúi að glaðleg laglínan, einlægni strákanna og boðskapur lagsins nái til Evrópubúa og skili okkur í úrslitin 🙂

Ungverjaland – What about my dreams?  í flutningi Kati Wolf

Eyrún segir: Klárlega uppáhaldslagið mitt í fyrri undankeppninni. Kati Wolf kom á óvart þegar hún vann ungverska X-factorinn í fyrra og sýndi það og sannaði að einstæð móðir með tvö börn getur sannarlega orðið stórstjarna. Hennar helstu fyrirmyndir eru Whitney Houston og Freddie Mercury og hún fær meira að segja að stæla Whitney í millikaflanum í laginu (sterk vísun í I wanna dance with somebody). Lagið hefur svo margt til brunns að bera og ekki hvað síst, ákveðna epík sem er nauðsynleg í svona júrópoppi svo að það verði ekki flatt og leiðinlegt. Kati minnir óneitanlega á Celine Dion, bæði í útliti og söngstíl og er fantagóð söngkona. Ungverjar hafa hæst komist í 4. sæti og það var árið 1994 þegar þeir debúteruðu. Önnur skemmtileg staðreynd er að flest stig hafa Ungverjar fengið frá okkur Íslendingum – og það er sennilega frá árinu 2007 en þá var lagið Unsubstantial Blues vinsælt hér á Fróni. Ég held að lagið og söngur Kati skili þeim áfram í úrslitin í ár!

Hildur segir: Ungverjar taka þátt svona öðru hvoru í Júróvísjon og oft með ágætum lögum sem þó eru afar ólík! Í ár senda Ungverjar júrópoppklúbbalag sungið af dívunni Kati Wolf og loksins fáum við að heyra júrópopplög eins og þau eiga að vera. Þetta lag hefur allt sem gott og hresst júrópopplag þarf að hafa, góða laglínu, grípandi viðlag og hittir á útsetningu sem nær eyrum manns. Ef Kati syngur vel á sviðinu og Ungverjar detta niður á sviðsframkomu sem virkar (ég er svolítið hrædd um að ef sviðsframkoman klikkar, klikki lagið alveg líkt og gerðist með hinn búlgarska Miro í fyrra) mun lagið fljúga áfram í úrslit og jafnvel lenda í topp 10 slag!

Auglýsingar

5 athugasemdir við “Yfirferð laga 2011 III

 1. Doddi Jónsson skrifar:

  Miðað við þá sviðsframkomu sem maður sá frá t.d. Íslandi og Ungverjalandi í dag, þá finnst mér persónulega að þessi tvö lög eigi að komast áfram. En það er minn smekkur. Ég held hins vegar því enn fram að lókallinn sé of mikill í laginu okkar og að einlægnin nái ekki að skila sér nógu vel til Evrópu, þegar meirihluti áhorfenda er að sjá lögin mögulega í fyrsta skipti 🙂 Ég held að Malta, San Marínó og Króatía sitji eftir, en þó veit maður ekki hverju sumar þjóðir gætu tekið upp á. Í fyrra voru Króatar með æðislegt lag en komust ekki áfram í keppninni. Mér fyndist sárgrætilegt að sjá þá komast áfram með þetta lag… en riðillinn er í heildina ekkert svakalega góður. Og alls ekki hliðhollur okkur Íslendingum. Miðað við OGAE klúbbana þá sér Ísland ekki fram á það að komast áfram en maður getur alltaf vonað. Ungverjaland er hins vegar algjört æði og ég spái því hiklaust áfram og í topp-5 baráttu mögulega! 🙂

 2. jurovision skrifar:

  Sammála, Doddi, að það er ekkert víst að þeir sem eru að sjá þetta í fyrsta skipti gætu sleppt því að kjósa okkur! Það hefur hins vegar sýnt sig að það eru miklu fremur aðdáendur sem kjósa í undankeppnunum frekar en fólkið heima í stofu – eigum við ekki að vona að það sé okkur í vil? 😉

 3. Þröstur skrifar:

  Malta: Á að vera rosalega hresst og skemmtilegt en verður bara drepleiðinlegt. Fer ekki áfram.
  San Marino: Rosalega auðgleymanlegt. Fer ekki áfram.
  Króatía: Sjá Malta.

  Ísland: Hef aldrei fílað lagið neitt sérstaklega og á sjálfur ekki von á því að það fari áfram. Gaman samt að segja frá því að írsku júrónördarnir sem ég fylgist hvað mest með (þau eru þrjú úti núna sem fylgjast með öllum æfingum og blogga um þetta) spá því öll að við förum áfram. Hægt að fylgjast með þeim hér http://akoe07.livejournal.com/

  Ungverjaland: Besta eurodans lagið í ár og fer örugglega áfram þrátt fyrir vöntun á vinaþjóðum. Verður svo í topp 10 en vantar betri nágranna til að skila sér alveg í toppbaráttuna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s