Yfirferð laga 2011 II

Við höldum áfram að birta okkar yfirferð yfir lögin í fyrri undanriðlinum. Næst eru það Serbía, Rússland, Sviss, Georgía og Finnland.

Serbía – Čaroban í flutningi Ninu

Eyrún segir: Serbar senda Ninu, unga söngkonu í ár, með lagið Caroban eða Töfrandi. Hún hefur sagt að Duffy sé ein hennar helstu fyrirmynda. Það er líka augljóst að áhrif sjöunda áratugarins eru yfir laginu öllu. Söngurinn er mjög frambærilegur en lagið e.t.v. heldur litlaust og flatt. Mér fannst ég fyrst hafa heyrt það í Austin Powers-mynd eða e-u slíku! Sungið er á serbnesku sem ljær laginu ákveðinn sjarma og líkurnar virðast meiri en minni á að nágrannaatkvæðin bjargi þessu lagi í úrslitin – en ég útiloka þó alls ekki að þetta lag geti týnst inn á milli Tyrkjanna og Rússans sem fylgir í kjölfarið.

Hildur segir: Í ár veðja Serbar á litríka sixties-framkomu og þeirra vegna ætla ég að vona að þessi litríka framkoma geri þeim gott því að lagið er ekki upp á marga  fiska. Það er alveg sama hvað ég hlusta oft á það, ég get ekki fyrir mitt litla líf munað hvernig það er og þegar ég hlusta til að rifja það upp man ég alltaf hvað mér finnst það leiðinlegt. Nina virðist þó vera traustur flytjandi en ég held að litirnir og góður söngur verði ekki nóg til að koma þeim áfram.

Rússland – Get You í flutningi Alexej Vorobjov

Eyrún segir: Ég heyrði fyrst lagið þegar léleg klúbbaupptaka af því lak á netið. Ég verð að segja að official-útgáfa er nánast jafnslæm! Ég botna hvorki upp né niður í þessu lagi. Það er ekkert nema bassadrunur og greyið myndarlegi sjarmörinn hann Alexej getur ekki sungið það þó að hann eigi lífið að leysa! Þekktur lagahöfundur og pródúsent, RedOne, samdi lagið en hann er maðurinn á bak við t.d. Poker Face frá Lady GaGa. Það er auðséð að í ár ætla Rússar ekki að endurtaka leikinn frá því í fyrra þegar krúttlegur grasrótarlistamaður, Peter Nalitch, var fenginn til að keppa – og gekk ekki vel, „bara“ 11. sæti! Í ár er það stórstjarna og stór lagahöfundur! Nú er að sjá hvernig það kemur til með að ganga en Rússar hafa alltaf komist upp úr undankeppninni. Þó að þetta lag höfði alls ekki til mín fer það bókað áfram!

Hildur segir: Rússar eru stórþjóð í Júróvísjon eða hafa að minnsta kosti verið það síðustu árin. Í ár bjóða þeir Evrópubúum upp á hressandi júrópoppsmell sunginn af hávaxna hönkinu Alexej. Með Alexej á sviðinu í Rússlandi voru eingöngu karldansarar og ef þeir verða með í för í Düssedorf mun það án efa vita á gott, tómir karlmenn á sviðinu í júróvísjon vísa oft á góðan árangur! Lagið er einstaklega grípandi og með viðlagi sem festist í hausnum á manni og allir geta sungið með! Rússar fljúga því án efa áfram í úrslitin og verða örugglega í topp 10!

Sviss – In Love for a While í flutningi Önnu Rossinelli

Eyrún segir: Fyrst þegar ég heyrði lagið fannst mér það ágætt en það hefur orðið nokkuð þreytandi við nánari hlustun. Ég held að það sem er þreytandi við það er hvað það er afskaplega lítið eftirminnilegt. Reyndar eru Svisslendingar heppnir að koma með svona rólegt lag strax á eftir hressa Rússanum en ég efast um að lagið verði mikið öðruvísi á sviðinu en í myndbandinu. Svona lag þarf nefnilega að hafa e-ð ákveðið element á sviðinu til að virka. Nokkuð hrædd um að það týnist! Undanfarin fjögur ár hefur Sviss ekki tekist að komast upp úr undankeppninni og í ár verður engin undantekning og þeir sitja eftir!

Hildur segir: Eftir gott gengi Tom Dice í keppninni í fyrra þá koma nokkur hugguleg og róleg popplög í keppnina í ár. Eitt af þeim er framlag Svisslendinga. Anna Rossinelli syngur fyrir okkur um hvernig er að vera ástfangin um stund. Lagið er einfalt og áreynslulaust og Anna er með sérstaka en sterka rödd og ef hún hefur útgeislun á sviðinu á hún eftir að stinga sér í úrslitin.

Georgía – One More Day í flutningi Eldrine

Eyrún segir: Fyrri hluti þessa lags lofar nokkuð góðu og mér fannst samlíking Dr. Gunna í Alla leið-þáttunum um að þetta væri Skunk Anansie með hár nokkuð góð (ég fílaði Skunk Anansie mikið!). Hins vegar skemmir rappkaflinn fyrir miðju lagi algjörlega fyrir – og ég steinhætti að hlusta! Eins fór trefill aðalsöngkonunnar sem hún hafði hneppt undir jakkann mikið í taugarnar á mér í myndbandinu. Hljómsveitin Eldrine var valin til að flytja lagið en skipti söngkonunni út á síðustu stundu og fékk þessa með sér, Sophio Toroshelidze, þar sem að hin söngkonan lenti í „samningavandræðum“. Sophio er nokkuð kunn Eurovision, því að hún söng bakraddir hjá Sofiu Nizharadze í laginu Shine í fyrra! Það gæti sannarlega brugðið til beggja vona með þetta lag en saga Georgíu í Eurovision bendir þó frekar til þess að þeir fari áfram.

Hildur segir: Georgíubúar veðja á rokkið í ár og senda söngkonu í hálfum jakka með rappara með sér í för. Eitthvað eru Georgíubúar ekki með puttann á púlsinum því sú tíð er löngu liðin að rapp og rokk í sama laginu sé góð hugmynd (ef það var þá einhverntímann góð hugmynd!). Lagið byrjar ágætlega en er bara niður á við eftir að æpandi viðlagið hefst og svo rappið. Ég held því að Georgía muni sitja heima í úrslitunum.

Finnland – Da Da Dam í flutningi Paradise Oskar

Eyrún segir: Krúttlegur Finni með kassagítar. Kannski ekki stereótýpan yfir finnska flytjendur sem undanfarin ár hafa verið undir sterkum Lordi-áhrifum! 🙂 En Tom Dice-áhrifin segja til sín og hin þekkta Eurovision-regla á við hér sem oft áður; það sem virkaði í fyrra hlýtur að virka í ár! Þetta lag á án efa eftir að hljóta ágæta útvarpsspilun og það er það sem dómnefndin horfir á – og því gætu vægi dómaraatkvæða haft sitt að segja. Ég held þó ekki að þetta lag fari neitt voðalega langt í ár…

Hildur segir: Annað lagið í keppninni í ár undir Tom Dice-áhrifum er framlag Finna. Paradise Oskar (sem heitir í alvörunni Axel Ehnström) syngur fyrir okkur hvernig mannfólkið lifir áfram án þess að hugsa um afleiðingar gjörða sinna fyrir jörðina. Lagið er einfalt, einlægt og grípandi og maður fær viðlagið da da dam auðveldlega á heilan. Axel er hreinn og beinn og er ekkert að reyna neitt og leiddi það til þess að hann fékk yfir 50% atkvæða í finnsku undankeppninni. Hvort hann fær yfir 50% atkvæða í júróvísjon skal ósagt látið en ég er viss um að hann fær a.m.k. nægilega mörg atkvæði til að komast áfram.

Auglýsingar

2 athugasemdir við “Yfirferð laga 2011 II

 1. Doddi Jónsson skrifar:

  Eins og áður, mjög áhugaverðar pælingar… mér finnst þetta allt vera lög sem gætu fallið flöt eða „flogið“ inn, en ætla þó einungis að giska á að þrjú þeirra geri það – spái því að Sviss og Finnland sitji eftir eða Serbía og Finnland inn…? Æi, þetta er erfitt 🙂 En skemmtilegt. Þetta eru alls ekki uppáhaldslögin mín fimm í keppninni 🙂

 2. Þröstur skrifar:

  Serbía: Finnst lagið ekkert sérstakt en það sker sig samt svolítið út. Serbía á líka góða granna og þurfa að vera með sérstaklega vont lag til að komast ekki í úrslitin. Þeir fara áfram núna.

  Rússland: Þetta lag gæti alveg fúnkerað ef flytjandinn væri þokkalegur en þar sem sykursætir gaurar sem geta ekki sungið eru ekki að gera neitt fyrir mig þá finnst mér þetta alveg svakelega leiðinlegt. Þetta er samt alveg að fara að fljúga í úrslitin og endar örugglega í topp 10.

  Sviss: Allt í lagi lag en alls ekkert keppnis. Gleymist alveg rosalega auðveldlega og fer ekki í úrslitin.

  Georgía: Bara hávaði fyrir mér. Georgía hefur þó alltaf komist áfram enda fá þeir ávalt góða kosningu frá Sovíetblokkinni og gætu alveg komist áfram núna. Það hefur þó aldrei staðið jafntæpt, þetta verður á mörkunum.

  Finnland: Alger andstæða Georgíu. Rosalega sætt lag með frábærum texta. Fyrir mér er þetta og Frakkland mín uppáhaldslög í keppninni og ef Paradise Oscar stendur sig vel þá gæti þetta alveg verið dökkhesturinn í toppbaráttunni. Þetta veltur þó svakalega mikið á Oscari en mér fannst hann svolítið shaky í finnsku keppninni. Ég reikna með að þetta fljúgi áfram úr forkeppninni og gæti lent ofarlega ef Oscar stendur sig.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s