Vinir Sjonna í nærmynd: Benni

Við höldum áfram að fjalla nánar um hvern og einn af Vinum Sjonna og trommarinn Benedikt Brynleifsson er næstur. Hann er yfirleitt kallaður Benni og skv. eurovision.tv er hann myndarlegi og hressi gaurinn 🙂

Benni er fæddur og uppalinn á Akureyri. Hann á ekki langt að sækja tónlistaráhugann því að faðir hans var gítarleikari og lék með hljómsveit Ingimars Eydal forðum. Benni var vanur að fara með honum á æfingar og þar spratt upp áhugi hans á trommum sem hljóðfæri. Það var síðan með Axel vini hans (fyrrum trommuleikara úr 200.000 Naglbítum) sem Benni fór að spreyta sig á trommunum í kringum fermingu.

Benni varð einna fyrst þekktur fyrir glæstan trommuleik með norðanmönnunum í 200.000 Naglbítum og tók þar við kjuðunum af Axel vini sínum árið 2002. Síðan þá hefur vegur hans sem trommuleikara heldur betur aukist og hann hefur trommað með ófáum hljómsveitum. Að sögn Benna er eitt eftirminnilegasta giggið á ferlinum þegar hann fór að spila með hljómsveitinni Mannakornum aðeins 20 ára gamall en hann leikur enn með sveitinni. Það hafi verið mikill heiður fyrir hann sem tónlistarmann.

Tengsl Benna við Sjonna heitinn hófust þegar hann gekk til liðs við sveitina The Flavors en í henni var einnig Pálmi Sigurhjartar, annar Vinur Sjonna. Þeir spiluðu saman og voru einnig saman í húsbandi skemmtistaðarins Players, hljómsveitinni Rokk. Sú sveit átti stórsmellana Alveg orðlaus og Love is you sem gefið var út í tilefni af ártíð Johns Lennons árið 2010. Benni var einnig hluti af hópnum sem keppti með Sjonna í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2010 með lagið Waterslide.

En það eru ekki einu kynni Benna af Eurovision því að hann þekkir heldur betur til keppninnar þar sem hann fór út með Eiríki Haukssyni árið 2007 og hefur spilað með Eurobandinu og fór með þeim út árið 2008. Hann ætti því að kunna alla þessu Júró-slagara fyrir Euroklúbbinn í ár 🙂

Þegar Allt um Júróvisjón spurði Benna hvert uppáhaldsjúróvisjónlagið hans væri svaraði hann því til að það væri danska lagið frá 2005, Talking to you. Hann segir að fyrir sér snúist Eurovision-keppnin um þrennt: Gleði, glens og gaman! Aðspurður um væntingarnar til Düsseldorf-ævintýrisins segir hann að fyrst sé að komast áfram upp úr forkeppninni og að þeir muni gera sitt allra besta til að ná því. Hann grínast með að hann hlakki líka mest til að fara í golf en auðvitað snúist þetta allt saman um að standa á sviðinu með vinum sínum og flytja lag eftir vin þeirra allra. Og Benni segist viss um að Sjonni verði með þeim þarna í anda.

Ásamt því að tromma með öllum helstu sveitum landsins er Benni tónlistarkennari í Tónlistarskóla Seltjarnarness. Auk Eurovision-ævintýrisins er á döfinni hjá honum að leika með hljómsveitinni Todmobile og á tónleikunum með Páli Óskari og Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpunni í sumar.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s