
Allt um Júróvísjon settist niður með Matta á miðvikudaginn, daginn eftir að hann ásamt Pálma, Gunna, Hreimi, Vigni og Benna komst áfram í úrslitin í júróvísjon. Við hittum Matta á hótelinu þar sem hann var ferskur nýkominn úr gufu og spjölluðum við hann um þátttökuna í júróvísjon, væntingarnar fyrir laugardaginn og sitthvað fleira skemmtilegt.
Fyrsta spurning okkar til Matta var að sjálfsögðu hvernig það tilfinningin hefði verið þegar Ísland var ekki komið áfram og bara eitt umslag var eftir óopnað. ,,Við þökkuðum bara hvort öðru fyrir“ svaraði Matti og bætti við að þau hefðu engan veginn átt von á að koma upp úr umslaginu. ,,Þegar var búið að tilkynna sjö lög og Rússland, Tyrkland, Finnland, Noregur og fleiri voru eftir þá vorum við alveg búin að gefa upp vonina.“ AUJ: En hvernig leið þér þá þegar íslenski fáninn birtist á skjánum? ,,Veistu ég man það ekki!“
Aðspurður um hvernig framhaldið leggist í hópinn svaraði Matti að það legðist mjög vel í þá og í þeirra huga væru þeir búnir að vinna því stærsti sigurinn hafi verið að komast áfram. Hann bætir þó við að hópurinn stefni á að komast í topp 10 á laugardaginn. Við spurðum Matta hvort hann héldi að þeir hafi toppað á réttum tíma og hann svaraði að hann að það gæti verið og segir að þeir hafi verið duglegir að æfa, syngja og koma fram.
Í rútinni á leiðinni í höllina á þriðjudaginn var mikil stemning og strákanir sungu lagið Hjálpum þeim við góðar undirtektir. AUJ lék forvitni á að vita hvort Hjálpum þeim væri stemningslag hópsins og hjálpaði þeim að komast í gírinn. ,,Þetta var í fyrsta skipti sem við sungum Hjálpum þeim en gerum það pottþétt aftur“ sagði Matti og bætti við að þeir undirbyggju sig með því að setja saman niður og spila á kassagítar og syngja nokkur lög.

mynd: eurovision.tv
Á þeim tveim vikum sem júróvísjon stendur yfir er jafnan mikið um partý og mörg lönd keppast við að halda sem skemmtilegustu partýin auk þess sem iðulega er góð stemmning á svokölluðum Euroclub. Okkur lék því forvitni að vita hvort íslenski hópurinn hafi verið duglegur að þræða partýin! Matti segir þau hafa verið nokkuð dugleg að fara í partý og koma fram og bætir við að gríska partýið hafi verið best en þar komu þeir einmitt fram. ,,Það byrjaði frekar rólega en endaði í öskrandi stemningu!“ segir Matti.
Eins og flestir vita er Matti að taka þátt í júróvísjon í fyrsta skipti. Við spurðum hann því hvað hefði komið honum mest á óvart. ,,Kannski er það vinnan á bakvið þetta sem kom mér mest á óvart og allt umstangið í kringum þetta. En í raun er þetta ekkert öðurvísi en allt annað sem ég hef verið að gera síðan ég var 17 ára. Hér eru ljósamenn, hljóðmenn, svið og tónlistarfólk, þetta er bara allt stærra! En númer eitt, tvö og þrjú er þetta upplifun“. Það hefur svo oft verið talað um að Júróvísjon-heimurinn sér svolítið sérstakur og þar sé mikið af skrítinu fólki. Við spurðum því Matta hvort þeir hefðu lent í einhverjum sérstaklega skrítnum aðstæðum. Matti hugsaði sig nokkuð um og sagði svo að í raun hefðu þeir ekki lent í neinu sérstaklega skrítinu og að þetta sé aðallega búið að vera mjög skemmtilegt og áhugavert.
Það hefur ekki farið framhjá mörgum að Vinir Sjonna eru golfáhugamenn og okkur lék því fovitni á að vita hvort þeir hefðu fundið tíma í öllum undirbúningum til að skella sér einn hring á golfvellinum. ,,Já ég, Pálmi, Benni og Hreimur tókum 18 holur um daginn á fallegum golfvelli hér í Düsseldorf. Það var yndislegt veður og við skaðbrunnum í sólinni, sminkunum til lítillar ánægju!“ segir Matti og bætti við að hann hefði unnið þennan hring!

mynd: hugi.is
Aðspurður um uppáhaldsflytjandann sinn í keppninni í ár segist Matti halda svolítið upp á dönsku strákanna í hljómsveitinni A friend from London og Stellu frá Noregi en segist fíla makedóníska lagið hvað mest. Matti sagði einnig frá því að hin finnski Paradise Oscar hefði spilað og sungið með þeim Coming home inn í búningsherbergi um daginn og að hópurinn væri orðinn miklir vinir portúgölsku flytjendanna. ,,Þeir eru algjörir snillingar og dásamlegt fólk“ sagði Matti um Portúgalana og hélt áfram: ,,Þetta eru tveir bræður sem hafa lengi verið að gera grín, einkum með pólitískum undirtóni, svona Halli og Laddi Portúgala. Það er bara nýlega sem þeir fengu til liðs við sig hljóðfæraleikara og fóru að spila músík. Stelpan sem spilar á þverflautu kom inn í búningsherbergi til okkar í gær [innskot AUJ: á þriðjudaginn] og spilaði með okkur.“
Að lokum spurðum við Matta hvað væri framundan hjá honum þegar heim kæmi. Hann sagði að við tæki að halda áfram með söngleikinn Hárið á Akureyri en Vinir Sjonna væru svo að byrja að huga að því að gera plötu í haust sem væri ekki eingöngu hugsuð fyrir Íslandsmarkað. Þeir ætla hins vegar ekkert að flýta sér í þeim efnum og vinna hana í rólegheitunum.
Við þökkuðum Matta kærlega fyrir spjallið og hleyptum honum að fara að hafa sig til enda stóð til kvöldverður með hópnum þar sem halda átti upp á afmæli eiginkonu Matta og 10 ára brúðkaupsafmæli þeirra hjóna!
