Nú þegar aðeins nokkrir dagar eru þar til Júróvísjon hefst er komið að því að líta yfir framlögin í keppninni í ár og setja fram okkar álit á þeim. Í ár, eins og í fyrra, verður hægt að kjósa eftir hvert og eitt lag og það gæti haft nokkur áhrif en við gerum okkar besta í spádómum
Fjallað verður um fimm framlög í einu og við hvert framlag verða gefin tvö álit, annað frá Hildi og hitt frá Eyrúnu. Fjallað verður um framlögin í þeirri röð sem þau stíga svið.
Í þessari fyrstu yfirferð verður því farið yfir framlög Póllands, Noregs, Albaníu, Armeníu og Tyrklands.
Pólland – Jestem í flutningi Magdalenu Tul
Eyrún segir: Pólland er dálítið eyland í keppninni þrátt fyrir að vera staðsett nákvæmlega í miðri Evrópu. Besti árangurinn náðist með 2. sæti þegar Edyta Górniak söng To Nie Ja árið 1994 en síðan þá hafa Pólverjar aðeins nokkrum sinnum náð í topp 10 og, eftir að forkeppnafyrirkomulagið var tekið upp, aðeins einu sinni náð að komast í aðalkeppnina (2008 með Isis Gee og For Life). Í fyrra sendu Pólverjar angurværa ballöðu flutta af karlmanni en nú tefla þeir fram poppsöngkonunni Mögdu sem hefur reynt fyrir sér í söngleikjum og fleiru heima fyrir. Lagið er frekar týpísk popp en ég dáist að því að það er flutt á pólsku – það gefur því alveg nýja vídd og flatneskjan verður ekki eins mikil! Það átti að setja enskan texta við lagið en pólskir aðdáendur þvertóku fyrir það og söfnuðu undirskriftum gegn því – og fengu í gegn að lagið verður flutt á pólsku! Húrra fyrir því! Ég fæ þetta lag ítrekað á heilann og held að keppnin byrji vel og skemmtilega á því en ég hef þó enga trú á því að það komi Póllandi í úrslit fremur en undanfarin ár.
Hildur segir: Pólverjar bjóða upp á júrópopp/klúbbalag í ár sungið á móðurmálinu. Það kemur lítið á óvart í laginu, allt er eftir bókinni. Það er þó svolítið eins og Magdalena hafi ekki haft nennu í að semja nema hálft lag því að eftir rúma mínútu hættir maður að nenna að hlusta því að lagið er alltaf eins. Pólverjar hafa ekki riðið feitum hesti frá þessari keppni og ég spái því að Pólverjar sitji eftir í þetta skiptið.
Noregur – Haba Haba í flutningi Stellu Mwangi
Eyrún segir: Noregur fór fremur óhefðbundna leið í ár og valdi sem framlag unga hiphop-söngkonu ættaða frá Keníu. Saga hennar er ævintýri líkust því að hún hefur lengi strögglað við að koma sér á framfæri. Hún fékk síðan hugljómun þegar hún kvartaði einu sinni við ömmu sína í Kenía yfir slæmu gengi. Þá á gamla konan að hafa sagt við hana: „Haba haba, Hujaza Kibaba“ sem á Swahili þýðir að litlu skrefin í lífinu geri mann hamingjusaman. Stella skellti þessu í lag sem vann í norsku undankeppninni með yfirburðum. Atriðið er ekta Eurovision-sjónvarp þrátt fyrir að lagið sjálft sé ekkert beysið. Vegna þess að Eurovision er fyrst og fremst sjónvarpskeppni spái ég Noregi nokkuð öruggu sæti í úrslitunum.
Hildur segir: Ég var bara engan veginn að fíla þetta lag þegar ég heyrði það fyrst. Laglínan er undarleg og Stella virðist bara ekki ráða alveg við að syngja hana á spennandi hátt. Viðlagið er hins vegar grípandi og sagan bakvið textann og lagið er einlæg. Í heildina er því eitthvað heillandi og einlægt við lagið og í því er mikil gleði og stemmning og viðlagið geta allir sungið. Ég spá því Stellu áfram og að hún lendi í topp 10 í aðalkeppninni.
Albanía – Feel the Passion í flutningi Aurelu Gaçe
Eyrún segir: Ég heyrði lagið fyrst með albönskum texta og ég get eiginlega ekki sagt að enski textinn hjálpi mikið! Þetta er hreinlega lagið sem ég gleymi alltaf! Albanir hafa undanfarin þrjú ár flogið upp úr undankeppnunum en verið svo í kringum 16. sætið í lokakeppninni. Ég ímynda mér að e-ð svipað komi til með að eiga sér stað núna (þar sem nágrannaböndin eru sterk) en þetta lag á ekki eftir að gera neina gloríur í aðalkeppninni.
Hildur segir: Ég er mikill aðdáandi Albaníu í keppninni og bíð alltaf spennt eftir að heyra framlög þeirra. Í ár varð ég þó fyrir vonbrigðum. Lagið er alltof lengi að komast inn í viðlagið (góð ein mínúta!) og svo þegar það loksins kemur þá er það hundleiðinlegt og það hljómar stundum eins og Aurela sé að æpa þegar hún syngur það og það gæti komið mjög illa út á sviðinu. Af því mér þykir þetta lag svo afskaplega leiðinlegt þá bara get ég ekki annað en spáð því að það sitji eftir.
Armenía – Boom Boom í flutningi Emmy
Eyrún segir: Fyrsta lagið á svið með bulltexta sem á að höfða til fólks – og fá það til að syngja með. Ég held að það sé varla nokkur vafi á því að Armenía komist áfram – þeir hafa alltaf verið í topp 10 í lokakeppninni. Lagið höfðaði strax dálítið til mín en við nánari hlustun finnst mér eins og það vanti dálítið botninn í það – en framkoman á sviðinu á klárlega eftir að bæta það upp. Hef fulla trú á Armeníu í ár!
Hildur segir: Armenar hafa löngum átt góðu gengi að fagna í þessari keppni og oft sent lög sem eru alveg þess virði að komast áfram. Ég er ekki alveg viss um að framlag þeirra í ár sé þess virði að komast áfram en ég er þó handviss um að Boom Boom komist áfram. Það er bara eitthvað svo skemmtilega hallærislegt og jafnvel barnalegt við lagið og flutninginn að það er ekki hægt annað en að vera hress og syngja boom boom með og kjósa svo!
Tyrkland – Live It Up í flutningi Yüksek Sadakat
Eyrún segir: Þetta er lag sem ég fæ alltaf kjánahroll yfir! Klárlega næntísógeð eins og Dr. Gunni minntist á – en mér finnst það eins og þemalag í lélegum amerískum unglingaþáttum! Húff… ein hlustun er sannarlega nóg fyrir mig! En vissulega komast Tyrkir upp úr undankeppninni eins og venjulega, sama hversu gott/vont lagið er!
Hildur segir: Tyrkir hafa oft sent allskonar rokk í þessa keppni og náðu til dæmis alla leið í 2. sætið í fyrra með rokkinu sínu. Í ár er rokkið í anda Bon Jovi og fleiri amerískra næntís rokkara sungið af hljómsveitinni Yüsek Sadakat sem er vinsæl í heimalandinu. Lagið er merkilega grípandi og ákveðin stemmning í því þó að það bjóði ekki upp á neitt nýtt. Það er í raun kunnuglegt og það veitir nú oft á gott í Júróvísjon. Tyrkir eru ein af þeim þjóðum sem bara komast alltaf áfram í keppninni og í ár verður engin undanteking þar á.