Yfirferð laga 2011 I

Nú þegar aðeins nokkrir dagar eru þar til Júróvísjon hefst er komið að því að líta yfir framlögin í keppninni í ár og setja fram okkar álit á þeim. Í ár, eins og í fyrra, verður hægt að kjósa eftir hvert og eitt lag og það gæti haft nokkur áhrif en við gerum okkar besta í spádómum :)

Fjallað verður um fimm framlög í einu og við hvert  framlag verða gefin tvö álit, annað frá Hildi og hitt frá Eyrúnu. Fjallað verður um framlögin í þeirri röð sem þau stíga svið.

Í þessari fyrstu yfirferð verður því farið yfir framlög Póllands, Noregs, Albaníu, Armeníu og Tyrklands.

PóllandJestem í flutningi Magdalenu Tul

Eyrún segir: Pólland er dálítið eyland í keppninni þrátt fyrir að vera staðsett nákvæmlega í miðri Evrópu. Besti árangurinn náðist með 2. sæti þegar Edyta Górniak söng To Nie Ja árið 1994 en síðan þá hafa Pólverjar aðeins nokkrum sinnum náð í topp 10 og, eftir að forkeppnafyrirkomulagið var tekið upp, aðeins einu sinni náð að komast í aðalkeppnina (2008 með Isis Gee og For Life). Í fyrra sendu Pólverjar angurværa ballöðu flutta af karlmanni en nú tefla þeir fram poppsöngkonunni Mögdu sem hefur reynt fyrir sér í söngleikjum og fleiru heima fyrir. Lagið er frekar týpísk popp en ég dáist að því að það er flutt á pólsku – það gefur því alveg nýja vídd og flatneskjan verður ekki eins mikil! Það átti að setja enskan texta við lagið en pólskir aðdáendur þvertóku fyrir það og söfnuðu undirskriftum gegn því – og fengu í gegn að lagið verður flutt á pólsku! Húrra fyrir því! Ég fæ þetta lag ítrekað á heilann og held að keppnin byrji vel og skemmtilega á því en ég hef þó enga trú á því að það komi Póllandi í úrslit fremur en undanfarin ár.

Hildur segir: Pólverjar bjóða upp á júrópopp/klúbbalag í ár sungið á móðurmálinu. Það kemur lítið á óvart í laginu, allt er eftir bókinni. Það er þó svolítið eins og Magdalena hafi ekki haft nennu í að semja nema hálft lag því að eftir rúma mínútu hættir maður að nenna að hlusta því að lagið er alltaf eins. Pólverjar hafa ekki riðið feitum hesti frá þessari keppni og ég spái því að Pólverjar sitji eftir í þetta skiptið.

NoregurHaba Haba í flutningi Stellu Mwangi

Eyrún segir: Noregur fór fremur óhefðbundna leið í ár og valdi sem framlag unga hiphop-söngkonu ættaða frá Keníu. Saga hennar er ævintýri líkust því að hún hefur lengi strögglað við að koma sér á framfæri. Hún fékk síðan hugljómun þegar hún kvartaði einu sinni við ömmu sína í Kenía yfir slæmu gengi. Þá á gamla konan að hafa sagt við hana: „Haba haba, Hujaza Kibaba“ sem á Swahili þýðir að litlu skrefin í lífinu geri mann hamingjusaman. Stella skellti þessu í lag sem vann í norsku undankeppninni með yfirburðum. Atriðið er ekta Eurovision-sjónvarp þrátt fyrir að lagið sjálft sé ekkert beysið. Vegna þess að Eurovision er fyrst og fremst sjónvarpskeppni spái ég Noregi nokkuð öruggu sæti í úrslitunum.

Hildur segir: Ég var bara engan veginn að fíla þetta lag þegar ég heyrði það fyrst. Laglínan er undarleg og Stella virðist bara ekki ráða alveg við að syngja hana á spennandi hátt. Viðlagið er hins vegar grípandi og sagan bakvið textann og lagið er einlæg. Í heildina er því eitthvað heillandi og einlægt við lagið og í því er mikil gleði og stemmning og viðlagið geta allir sungið. Ég spá því Stellu áfram og að hún lendi í topp 10 í aðalkeppninni.

AlbaníaFeel the Passion í flutningi Aurelu Gaçe

Eyrún segir: Ég heyrði lagið fyrst með albönskum texta og ég get eiginlega ekki sagt að enski textinn hjálpi mikið! Þetta er hreinlega lagið sem ég gleymi alltaf! Albanir hafa undanfarin þrjú ár flogið upp úr undankeppnunum en verið svo í kringum 16. sætið í lokakeppninni. Ég ímynda mér að e-ð svipað komi til með að eiga sér stað núna (þar sem nágrannaböndin eru sterk) en þetta lag á ekki eftir að gera neina gloríur í aðalkeppninni.

Hildur segir: Ég er mikill aðdáandi Albaníu í keppninni og bíð alltaf spennt eftir að heyra framlög þeirra. Í ár varð ég þó fyrir vonbrigðum. Lagið er alltof lengi að komast inn í viðlagið (góð ein mínúta!) og svo þegar það loksins kemur þá er það hundleiðinlegt og það hljómar stundum eins og Aurela sé að æpa þegar hún syngur það og það gæti komið mjög illa út á sviðinu. Af því mér þykir þetta lag svo afskaplega leiðinlegt þá bara get ég ekki annað en spáð því að það sitji eftir.

ArmeníaBoom Boom í flutningi Emmy

Eyrún segir: Fyrsta lagið á svið með bulltexta sem á að höfða til fólks – og fá það til að syngja með. Ég held að það sé varla nokkur vafi á því að Armenía komist áfram – þeir hafa alltaf verið í topp 10 í lokakeppninni. Lagið höfðaði strax dálítið til mín en við nánari hlustun finnst mér eins og það vanti dálítið botninn í það – en framkoman á sviðinu á klárlega eftir að bæta það upp. Hef fulla trú á Armeníu í ár!

Hildur segir: Armenar hafa löngum átt góðu gengi að fagna í þessari keppni og oft sent lög sem eru alveg þess virði að komast áfram.  Ég er ekki alveg viss um að framlag þeirra í ár sé þess virði að komast áfram en ég er þó handviss um að Boom Boom komist áfram. Það er bara eitthvað svo skemmtilega hallærislegt og jafnvel barnalegt við lagið og flutninginn að það er ekki hægt annað en að vera hress og syngja boom boom með og kjósa svo!

TyrklandLive It Up í flutningi Yüksek Sadakat

Eyrún segir: Þetta er lag sem ég fæ alltaf kjánahroll yfir! Klárlega næntísógeð eins og Dr. Gunni minntist á – en mér finnst það eins og þemalag í lélegum amerískum unglingaþáttum! Húff… ein hlustun er sannarlega nóg fyrir mig! En vissulega komast Tyrkir upp úr undankeppninni eins og venjulega, sama hversu gott/vont lagið er!

Hildur segir: Tyrkir hafa oft sent allskonar rokk í þessa keppni og náðu til dæmis alla leið í 2. sætið í fyrra með rokkinu sínu. Í ár er rokkið í anda Bon Jovi og fleiri amerískra næntís rokkara sungið af hljómsveitinni Yüsek Sadakat sem er vinsæl í heimalandinu. Lagið er merkilega grípandi og ákveðin stemmning í því þó að það bjóði ekki upp á neitt nýtt. Það er í raun kunnuglegt og það veitir nú oft á gott í Júróvísjon. Tyrkir eru ein af þeim þjóðum sem bara komast alltaf áfram í keppninni og í ár verður engin undanteking þar á.

Vinir Sjonna í nærmynd: Gunni

Næstur í röðinni í yfirferð okkar um Vini Sjonna er sjálfur Gunnar Ólason, betur þekktur sem Gunni Óla. Gunni mun munda gítarinn á sviðinu í Düsseldorf og er samkvæmt frétt eurovision.tv. slæmi strákurinn eða the bad boy, í hópnum.

Eins og margir vita þá kemur Gunni frá Selfossi og er líklega þekktastur fyrir að vera einn af stofnendum hinnar alræmdu sveitaballahljómsveitar Skítamórals. Gunni er ekki bara forsöngvari hljómsveitarinnar heldur hefur hann samið fjöldan allan af lögum fyrir sveitina. Skítamórall gerði einkum garðinn frægan á 10. áratugnum og var ein allra vinsælasta hljómsveit landsins og átti fjölda þekktra slagara en líklega er lagið Farinn þeirra allra þekktasta og vinsælasta. Hljómsveitin lagði upp laupana í upphafi 21. aldarinnar en kom aftur saman árið 2002 og hefur síðna þá spilað öðru hvoru við góðar undirtektir.

Gunni hefur tekið sér ýmislegt annað fyrir hendur á sínum tónlistarferli en koma fram með Skítamóral. Gunni á til að mynda eitt af vinsælli jólalögum landsins, Komdu um jólin. Gunni hefur einnig, eins allir júróvísjon aðdáendur vita, tekið þátt í Júróvísjon fyrir hönd Íslands. Það var árið 2001 þegar hann, ásamt Kristjáni Gíslasyni, kom fram sem bandið Two Tricky og fluttu lagið Angel eftir Einar Bárðarson. Lagið náði nú ekki góðum árangri í keppninni en lagið og Gunni og Kristján eru þrátt fyrir það þekktir í júróvísjonaáðdáendaheiminum. Gunni kom einnig fram með Sjonna í Söngvakeppni sjónvarpsins árið 2010 í laginu Waterslide. Gunni kom oft fram með Sjonna við ýmis tækifæri en saman spiluðu þeir lög úr öllum áttum á gítar og sungu m.a. á Hverfisbarnum á fimmtudagskvöldum.

Í stuttu spjalli við Allt um Júróvísjon sagði Gunni að hann gæti ekki gert upp við sig hvað væri eftirminnilegast á ferlinum því svo margt væri í uppáhaldi en nefndi þó að hann hefði haft mjög gaman að því að taka þátt í Júróvísjon árið 2001. Uppáhalds júróvísjonlag Gunna er þó ekki úr þeirri keppni heldur frá árinu 2005 en það er lagið In my dreams með norsku glysrokksveitinni Wig Wam. Það lag á vel við lýsingu Gunna á Júróvísjon en hann segir keppnina vera hressandi, skemmtilega og fagmannlega. Að lokum sagðist Gunni hlakka til að koma fram fyrir Íslands hönd í minningu góðs vinar ásamt því að komast aðeins í sumarið í Düsseldorf og eiga góðar stundir með vinum sínum.

Vinir Sjonna í nærmynd: Hreimur

Til að kynnast Vinum Sjonna örlítið nánar ákváðum við hér á Öllu um Júróvísjon að grennslast aðeins fyrir um hverjir þessir menn væru og hvað þeir hefðu gert áður í tónlistabransanum og fórum því á stúfana um netið og settum saman smá upplýsingar um þá auk þess sem við áttum stutt spjall við hvern og einn þeirra. Fyrstur í röðinni í þessari yfirferð okkar er Hreimur Örn Heimisson.

Hreimur mun munda bassann á sviðinu í Düsseldorf í vor og er samkvæmt eurovision.tv sá einlægi og saklausi í hópnum.  Hreimur er fæddur 1. júlí 1978 og eyddi barnæsku sinnir í Rangárvallasýslunni.  Árið 1997 stofnaði hann ásamt félögum sínum hljómsveitina Land og Syni og varð upp frá því heimþekktur á Íslandi. Land og Synir nutu mikilla vinsælda við lok 10. áratugarins og fram á fyrstu ár 21. aldarinnar og seldu plötur og spiluðu á böllum eins og enginn væri morgundagurinn. Land og synir reyndu fyrir sér í Ameríku í kringum aldarmótin 2000. Þegar ekkert hafði gengið um tíma í Ameríku þreifingunum var Hreimur sendur út til að kippa í spotta. Hreimi tókst að heilla bransakallana í Ameríku upp úr skónum og eftir stóðu Land og synir með 6 plötu samning í Ameríku.

Hreimur hefur einnig spilað og skemmt sjálfur víða í gegnum tíðina. Hann hefur til dæmis sungið barnalög inn á plötur og söng eitt lag í kvikmyndinni Gemsar. Hreimur kom stundum fram með Sjonna, til dæmis á fimmtudögum á Hverfisbarnum þar sem Sjonni spilaði og skemmti lengi. Auk þess hefur Hreimur fjórum sinnum tekið þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Lögin Þú, Mig dreymdi lítin draum og Draumur söng hann einn og svo kom hann fram með Sjonna þegar hann flutti Waterslide í keppninn árið 2010.

Mynd: visir.is

Mynd: visir.is

Hreimur er einnig orðin óaðskiljanlegur hluti Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum en eitt allra vinsælasta þjóðhátíðarlag seinni tíma, Lífið er yndislegt frá árinu 2001,  er eftir hann. Hreimur samdi einnig þjóðhátíðarlag ársins 2002, Vinátta, ásamt hljómsveit sem kallaðist Lundakvartettinn. Síðan þá hefur Hreimur samið þjóðhátíðarlagið tvisvar, árin 2005 og 2008. Árið 2005 var hann sérstaklega beðin um að semja lag hátíðarinnar enda þótti ekkert lag sem send voru inn í keppnina um Þjóðhátíðarlagið nægilega gott. Árið 2008 samdi Hreimur svo þjóðhátíðarlagið Brim og boðaföll. Í stuttu samtali við Allt um Júróvísjon sagði Hreimur að eftirminnilegasta stundin á ferli sínum hafi einmitt verið þegar fyrsta þjóðhátíðarlagið hans, Lífið er yndislegt, var frumflutt á Þjóðhátið 2001.

Aðspurður um uppáhalds júróvísjonlag segir Hreimur það ekki vera neina spurningu, það sé lagið Wild dances sem Ruslana kom sá og sigraði með árið 2004. Það er mikið stemmnings lag og á vel við því þegar Hreimur var beðin um að lýsa Júróvísjon í þremur orðum sagði hann: ,,stuð og stemmning“. Allt um Júróvísjon spurði Hreim um hvaða væntingar hann hefði til Düsseldorf ævintýrisins og sagðist hann gera sér væntingar um að komast upp úr undankeppninni og lenda vonandi í efrihluta tölfunar. Að lokum sagðist Hreimur hlakka mest til þess að vera með hluta af sínum nánustu vinum í Düsseldorf og flytja lag Sjonna og Þórunnar og bætti við að  hann vonaðist líka til að komast aðeins golf :o).

 

Veðbankaspár 2 vikum fyrir keppni!

Nú líður heldur betur að keppninni… aðeins 14 dagar í fyrri undanriðilinn þegar Vinir Sjonna stíga á svið!

Það er því heldur betur tími til kominn að líta á veðbankaspárnar eins og sakir standa í dag:

Veðbanki

1. sæti

2. sæti

3. sæti

4. sæti

5. sæti

Oddschecker.com Frakkland 7/2 Eistland 15/2 Bretland 7 Svíþjóð 9 Ungverjaland 11
Online Betting Guide.co.uk Frakkland 5 Eistland 8 Bretland 9 Svíþjóð 11 Ungverjaland 13
Paddypower.com Frakkland 7/2 Eistland 7/1 Bretland 7/1 Svíþjóð 8/1 Ungverjaland 11/1
Eurovisionbetting.com Frakkland 4 Eistland 7 Bretland 7 Svíþjóð 9 Ungverjaland 11
William Hill Frakkland 7/2 Eistland 7/1 Bretland 7/1 Azerbaídjan 10/1 Ungverjaland 10/1
ESC stats.com Ungverjaland Bretland Frakkland Eistland Svíþjóð
Esctoday.com Svíþjóð 126 Frakkland 124 Ungverjaland 123 Bretland 120 Eistland 79
Nicerodds.co.uk Frakkland Eistland Þýskaland Bretland Noregur

Hérna sést að það eru nokkurn veginn sömu löndin sem skipa efstu fimm sætin. Áhugavert er að af þeim fimm eru tvær stórþjóðir sem verður að teljast til tíðinda, sem og Ungverjaland sem snýr aftur í keppnina eftir nokkurt hlé (og sem gárungarnir segja að eigi enga vini í keppninni!)

En hefur staðan mikið breyst fyrir Ísland? Nei, það er ekki að sjá að spárnar hafi tekið mikið við sér:

Veðbanki Sæti Íslands
Oddschecker.com 27. sæti
Eurovision-betting.com 27. sæti
Paddypower.com 34. sæti
Online Betting Guide.co.uk 27. sæti
William Hill 23. sæti
Esctoday.com 27. sæti
ESC stats.com 36. sæti
Nicerodds.co.uk 27. sæti

Við getum því búið okkur undir spennandi daga á næstunni.

Fylgist með okkur því að við munum fara að birta okkar spár og spekúlasjónir um lögin og löndin. Ekki missa af þeim!

Staðan eftir tvo „Alla leið“-þætti … og staðan í OGAE-kosningu!

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum aðdáanda keppninnar að þættirnir hans Palla, Alla leið, eru byrjaðir á RÚV.

Þeir eru sýndir á laugardagskvöldum fram að keppni kl. 19:40 og eru því þrír þættir eftir.

EKKI MISSA AF HONUM Í KVÖLD! 🙂 Hina þættina má nálgast á vef RÚV hér.

Er þá ekki rétt að fara örlítið yfir stöðuna hjá þeim Palla, Reyni, Guðrúnu og dr. Gunna? Eins og þið vitið fara þau yfir lögin í þeirri röð sem þau stíga á svið og gefa þeim grænt ljós eða rautt eftir því hvort þau telja að þau haldi áfram í keppninni eður ei.

Í fyrsta þættinum voru þau frekar jákvæð en neikvæð í þeim næsta.

Svona lítur þetta þá út eftir 2 þætti:

Grænt

Rautt

Pólland Sviss
Noregur Georgía
Albanía Finnland
Armenía Malta
Tyrkland San Marínó
Serbía Króatía
Rússland
Ísland
Ungverjaland

Enn sem komið er hafa spekingarnir íslensku verið fremur jákvæðir og fljótt á litið getum við nú verið nokkuð sammála þeim. Þau voru reyndar ekkert svakalega sannspá í fyrra – Palli var þeirra hlutskarpastur þegar hann spáði Rúmeníu sigri (lentu í 3. sæti). Guðrún spáði Danmörku sigri (lenti í 4. sæti) en Reynir og dr. Gunni spáðu Frakklandi sigri (12. sæti) og Lettlandi (komst ekki upp úr undankeppninni).  En þetta skýrist þó þegar líður nær keppninni.

Það var reyndar dálítið sérstakt að þau skyldu taka það fram að í fyrra hafi „enginn klár sigurvegari verið“ því að spár veðbanka, aðdáenda og vinsældir þýska lagsins voru mjög áberandi frá upphafi…  og við spáðum Lenu sigri 🙂

Það er líka gaman að líta aðeins á hvernig aðdáendaklúbbarnir hafa verið að kjósa en á síðunni esctoday.com er á hverju ári kosning um uppáhaldslög aðdáenda. Þau lönd sem ekki eru á listanum hafa enn ekki fengið stig – takið eftir því að Ísland er þarna komið á blað! 🙂

Svona leit sá listi út í gær (22.04):

OGAE 2011 Complete Lineup (af http://www.esctoday.com)

1 Frakkland 118
2 Bretland 115
3 Svíþjóð 114
4 Ungverjaland 113
5 Eistland 79
6 Azerbaídjan 59
7 Bosnía Hersegóvína 55
8 Danmörk 28
9 Noregur 23
Rússland 23
11 Þýskaland 21
12 Pólland 20
13 Austurríki 17
14 Rúmenía 16
15 Ísrael 13
16 Grikkland 9
Írland 9
Ítalía 9
19 Búlgaría 4
Kýpur 4
Spánn 4
Sviss 4
Úkraína 4
24 Serbía 3
25 Ísland 2
Holland 2
25 Georgía 1
San Marinó 1

Keppni bullorðanna?

Það hafa verið nokkðu skiptar skoðanir á gæði laganna sem keppa í júróvísjon í ár. Margir hafa sagt að keppni sé slök og fá góð lög muni verða flutt á sviðinu í Düsseldorf. Hverju sem líður gæði laganna þá virðist gæði sumra textanna ekki vera upp á marga fiska eða að minnsta kosti sum viðlögin! Heil fjögur lög í keppninni í ár heita bullorðum þó þau sé ekki alvarið á uppgerðu tungumáli eins og stundum hefur verið raunin í júróvísjon!

Fyrst á svið með bullorðaviðlag er hin norska Stella Mwangi en hún er önnur á svið í fyrri undankeppninn þann 10. maí n.k. Stella flytur lagið Haba haba sem er afar hress smellur!

Næsta bullorðaviðlag er í framlagi Armena. Emmy syngur lagið Boom Boom fyrir hönd þjóðar sinnar og er ekki nóg með að hún syngi Boom Boom heldur bætir hún við chaka chaka og lætur það við  like a like a! Algjör snilldar texti hér á ferð!!

Finnar eru næstir í röðinni í bullorðaviðlagakeppninni en Paradise Oscar stígur á svið ellefti í röðinni á fyrra undanúrslitakvöldið og syngur lagið Da da dam en viðlagið í því lagi heldur áfram darararmm og svo framvegis!

Síðasta bullorðaviðlagið í ár er flutt af engri annarri en Dönu International! Hún stígur á stokk númer 12 á seinna undanúrslitakvöldinu þann 12. maí og flytur þar lagið Ding dong. Nú er spruning hvort Ding dong fleytir henni jafnlangt og Diva!

Gamalt uppáhalds: Video Video

Árið 1982, þegar Þjóðverjar sigruðu Júróvísjon í fyrsta skipti, sendu Danir grúbbuna Brixx í keppnina með lagið Video Video. Ekki er miklar upplýsingar að finna um þetta band í netheiminum en það skiptir ekki öllu máli því lagið er algjör gullmoli í júróvísjon sögunni! Gengi lagsins var þó afar slappt og rétt náði í 5 stig og endaði í næst síðasta sæti á eftir Finnlandi sem fékk ekkert stig þetta árið. Þrátt fyrir það hefur lagið lifað áfram og er eitt allra vinsælasta júróvísjonlagið í Danmörku og má heyra það amk einu sinni á hverju kvöldi á karíókí börum Kaupmannahafnar!

Atriði Brixx liða var ekki til að hrópa húrra fyrir en búningarnir voru dásamlegir. Forsöngvarinn í bandinu, Jens Brixtofte, klæddist gulum jakka og bleikum skóm við bleikt lakkrísbindi og allt of stóra skyrtu meðan bassaleikarinn klæddist allt of þröngum gullbuxum við þrönga glansandi bláa skyrtu! Allt þetta ásamt dásmlegum texta um mann sem hefur eignast hina frábæru nýju tækni, videotækið, og gerir ekkert annað allan liðlangan daginn en að horfa á video!