Veisluhelgi framundan!

Eins og örlítið var komið inn á í færslu um framlag Búlgara í ár þá er mikil veisluhelgi framundan hjá júróvísjon-aðdáendum. Það er nefnilega þannig að frá og með kvöldinu í kvöld og fram á sunnudag munu alls níu þjóðir velja framlög sín til keppninnar í Düsseldorf! Kíkjum aðeins á hverjir þetta eru:

Litháen
Litháar kepptu í fyrsta skipti í Júróvísjon árið 1994 og hafa keppt 12 sinnum síðan en aldrei verið svo heppnir að vinna. Raunar hefur Litháum aldrei gengið sérlega vel í keppninni og hafa aldrei náð ofar en 6. sæti og í þeirra fyrstu keppni árið 1994 fengu þeir 0 stig!

Litháar halda þó ótrauðir áfram og  velja sitt framlag úr hópi 13 laga í kvöld, fimmtudag, og verður hægt að fylgjast með útsendingunni á júróvísjonvefnum http://www.eurovision.tv.

Tyrkland
Tyrkir eru skemmtileg þjóð í Júróvísjon.  Þeir hófu Júróvísjonferil sinn í Stokkhólmi 1975 og hafa síðan þá keppt 33var sinnum. Þeir hafa þó einungis einu sinni unnið, árið 2003 þegar Sertab Erener vafði dansmeyjum sínum í fötin af sér í laginu Everyway that I can.

Tyrkir eru nú þegar búnir að velja flytjanda en lagavalið fer fram á föstudagskvöldið 25. febrúar og verður hægt að fylgjast beint með því á vefnum http://www.eurovision.tv.

Austurríki
Austurríki er eitt af þessum löndum sem er að koma og fara í Júróvísjon og getur ekki alveg ákveðið sig hvort það vill vera með eða ekki! Þeir eru þó búnir að taka 44 sinnum þátt en þeir tóku fyrst þátt í Frankfurt árið 1957. Þrátt fyrir að hafa tekið þátt þetta oft hafa þeir bara einu sinni unnið og það var fyrir allt of mörgum árum síðan, eða árið 1966. Þau eru heldur ekki mörg lögin sem eru eftirminnileg frá Austurríki en líklega á Bobbi Singer eftirminnilegasta lagið á undanförnum árum og Alf Poier eftirminnilegasti flytjandi.

Austurríkismenn velja sitt framlag úr tíu lögum á föstudagskvöldið klukkan korter yfir átta og er eins hægt að fylgjast með því á http://www.eurovision.tv.

Moldavía
Moldavía kom ný inn í keppnina árið 2005 með mjög svo eftirminnilegu lagi Boonika Bate Toba en þar mátti meðal annars sjá ömmu í ruggustól á sviðinu! Þeir komust alla leið í 6. sætið og er það langbesti árangur þeirra hingað til.

Áhuginn á Júróvísjon er mikill í Moldavíu og voru 93 lög upphaflega í undankeppninni heima fyrir. Það verða þó ekki nema 25 sem keppa á laugardagskvöldið um að komast til Dusseldorf.

Úkraína
Úkraína er þekkt fyrir að senda kvenbombur með mjög katsí europopplög í keppnina! Þeim hefur oft gengið vel en það var einmitt bara í annarri keppni þeirra, árið 2004 sem Ruslana kom, sá og sigraði með laginu Wild dances. Úkraínumenn hafa allt frá því þeir hófu keppni komist í úrslitin og yfirleitt náð nokkuð langt, þar af tvisvar sinnum náð 2. sætinu!

Það var mikið havarí í kringum undankeppnina í Úkraínu í fyrra þar sem þeir þurftu að borga sektir fyrir að skila inn framlagi sínu of seint en mikið uppnám komst í keppnina eftir kosningar í landinu. Í ár er öllu rólegra yfir undankeppninni en á laugardaginn munu 21 framlag keppast um að verða fulltrúi Úkraínu í Düsseldorf. Sýnt verður beint frá úraínsku keppninni á eurovision.tv.

Lettland
Lettar hafa tekið þátt í Júróvísjon frá árinu 2000. Þá sendur þeir hina frábæru hljómsveit Brianstorm til að keppa og náðu 3. sætinu. Ári seinna kom atriði sem einkum var eftirminnilegt fyrir að vera slæmt og skrítið og náðu þeir eingöngu 18. sæti. Árið 2002 sigruðu Lettar hins vegar keppnina en síðan þá hefur gengi þeirra verið mismunandi.

Á laugardagskvöldið velja Letta sitt 12 framlag til Júróvísjon keppninnar. 11 lög munu keppa til úrslita og hægt verður að horfa á keppnina beint af vef eurovision.tv.!

Danmörk
Öll Norðulöndin eru búin að velja framlög sín eða komin af stað með að velja þau nema Danmörk. Í ár er eingöngu eitt kvöld helgað undankeppni júróvísjon í Danmörku og verður það kvöldið núna á laugardaginn. Hægt verður að horfa á keppnina á vef júróvísjon http://www.eurovision.tv.

Eistland
Eistar ætla velja sitt framlag á sunndaginn. Þeir hafa keppt í júróvísjon frá árinu 1994 og hafa af þeim 17 skiptum sem þeir hafa keppt unni einu sinni. Það var árið 2001 þegar lagið Everybody sigraði nokkuð óvænt og líklega eitt minnst þekkta sigurlag síðustu ára.

Undankeppni Eista í ár var byggð upp á tveimur undankvöldum og á sunnudaginn er komið að sjálfum úrslitunum. Það keppa 10 lög um miða til Düsseldorf en hver situr uppi sem sigurvegari kvöldsins byggir á atkvæðum bæði frá áhorfendum og dómnefnd.

Serbía
Síðasti í þessari veislu eru Serbar. Þeir eiga sér ekki mjög langa sögu í Júróvísjon en hafa þó unnið einu sinni og oft náð langt. Fyrst tóku Serbar þátt (þá með Svartfjallalandi) árið 2004 með laginu Lane Moja.  Árið 2007 kepptu Serbar í fyrsta skipti án Svartfjallalands en það var einmitt árið sem þeir gerðu sér lítið fyrir og sigruðu keppnina með laginu Molitva. Það er líklega í eina skipti í langan tíma keppandi hefur komið á svið með gleraugu!

Serbar velja í ár milli fjölskyldumeðlima til að keppa fyrir sína hönd í Düsseldorf en keppnin fer fram á sunnudagskvöldið og verður hægt að fylgjast með henni á http://www.eurovision.tv.

Búlagría sendir Poli Genova til Düsseldorf

Í gærkvöldi völdu Búlgarir framlag sitt í júróvísjon þetta árið og markaði það upphaf af mikilli júróvísjon veislu næstu daga en fram á sunnudag munu níu lönd til viðbótar velja framlög sín!

Búlgarar hafa ekki riðið feitum hesti frá Júróvísjon frá því þeir hófu keppni árið 2005 þrátt fyrir að hafa reynt ýmislegt! Skemmst er að minnast sjónhverfinga Krassimirs sem keppti fyrir hönd Búlgara árið 2009 og í fyrra sendu þeir eina af sínum skærustu stjörnum, sjálfan Miro, til að keppa og gekk þrátt fyrir það ekki sem skyldi. Í ár var haldin heljarinnar undankeppni og á úrslitakvöldinu kepptu 19 lög um að fá að fara til Düsseldorf og keppa fyrir hönd Búlgaríu. Við val á laginu gilltu bæði atkvæði frá almenningi og dómnefndar sem var vandlega saman sett.

(mynd: eurovision.tv)Hlutskörpust var stúlka að nafni Poli Genova. Lagið hennar Na Inat, eða Þrjóskur, er rokkaður poppslagari og var eins og titillinn gefur til kynna sunginn á búlgörsku. Poli þessi er alls ekki óvön júróvísjon því árið 2009 reyndi hún fyrir sér í undankeppninni heima og lent í 2. sæti alls ekki löngu á eftir hinum umdeilda Krassimir. Lagi það heitir One life time is not enough og hlaut nokkrar vinsældir og fékk meira að segja sjálfa Beyoncé til að skæla yfir fegurð þess en dæmi nú hver fyrir sig!

Allt um Júróvísjon er spennt að sjá hvort Poli nái að rétta hlut Búlgara í keppninni og komast upp úr undanúrslitum, þá aðeins í annað skipti frá því Búlgaría hóf keppni! Poli stígur á sviði í seinni hluta seinna undarúrslitakvöldsins þann 12. maí.

Hér má sjá sigurlag Búlgara í ár og strax fyrir neðan má finna lag Poli frá því árið 2009.

Jóhanna Guðrún vinsæl í Suður-Afríku!

Við höfum áður minnst á að vinsældir Eurovision-keppninnar ná sannarlega út fyrir Evrópu og hún er t.d. virkilega vinsæl í Ástralíu, Suður-Ameríku og Japan. OGAE Rest of the World/International er félagsskapur þjóða og landa sem hafa mikinn áhuga á keppninni og öllu sem viðkemur henni en eiga ekki opinberan aðdáendaklúbb – Ísland fellur þar undir eins og við töluðum um í þessum pósti!
Í þessum fjölþjóðlega aðdáendaklúbbi hefur mikið verið gert af því að endurútgefa þekkt Eurovision-lög – og oft á hinum ólíklegustu tungumálum. Klúbburinn er staðsettur í S-Afríku og útgáfan á afrikaans, opinberu tungumáli þar í landi, er mjög öflug!

Af hverju ættum við, íslenskir Eurovision-aðdáendur, að hafa nokkurn áhuga á þessari útgáfu?

Jú, málið er að á stuttum tíma hafa tveir ungir s-afrískir listamenn gefið út eigin útgáfur af laginu hennar Jóhönnu Guðrúnar, Is it true!! Verður það ekki að teljast nokkuð góð dreifing á íslenskri tónlist??

Þeir sem fylgdust með Öllu um Júróvisjón þegar við vorum í Osló á síðasta ári, muna e.t.v. eftir færslunni um Lee Scott sem mætti galvaskur á svæðið með nýjan disk sinn þar sem hann söng Fairytale með Alexander Rybak – og jú mikið rétt, Is it true með Jóhönnu Guðrúnu!

Drengurinn Lee Burton Scott er 22 ára gamall og hafði áður slegið í gegn á s-afrísku tónlistarsenunni með strákabandinu Hi5. Sú grúppa gaf árið 2006 út vinsæla plötu, Versoeking, þar sem meðal annars var að finna Eurovision-lögin Invincible (Carola) og My Number One (Helena Paparizou). Hérna er örlítið tóndæmi þar sem þeir flytja lag söngvarans Arash sem keppti fyrir Azerbaídjan 2009 með Aysel, en þetta lag heitir á frummáli Temptation (flutningurinn náttúrulega eldheitur og up to date :)):

Lee vill nú hasla sér völl sem sólóartisti og gaf út fyrstu plötuna sína í fyrra, Die Enigste Manier (ísl. Eina leiðin) og þar er að finna lagið hennar Jóhönnu Guðrúnar undir heitinu Wens Ek kon (ísl. Ég óska að ég gæti) – hægt er að hlusta hér!

Við fengum fregnir af því fyrir stuttu að annar ungur tónlistarmaður, Candy Benson, hefði einnig gefið út lagið hennar Jóhönnu – og það bæði á afrikaans og spænsku! Allt um Júróvisjón hafði að sjálfsögðu áhuga á því og við komumst í samband við söngkonuna.

Stúlkan sú er nýorðin tvítug og syngur og semur einnig eigin tónlist. Hún hefur sungið frá unga aldri (svipað og JGJ!) Hún vann sér það helst til frægðar að hafa að gamni sínu tekið þátt í American Idol-áheyrnarprufum í Hollywood Studios þegar hún var í Bandaríkjunum á ferðalagi og lenti í topp 7 á því kvöldi – hins vegar komst hún ekki áfram vegna þjóðernis síns!

Eftir að við höfðum samband við hana fengum við að vita að Is it true heillaði Candy strax og hún hafði trú á því að lagið myndi hljóma sérlega vel sem ballaða á afrikaans! Candy segist einnig hafa svipað tónsvið og Jóhanna og því hafi lagið hentað vel. Hún segir einnig að þetta lag hafi strax komið til greina þegar henni bauðst að gera spænska útgáfu – og þeir sem hafi heyrt hana fíli hana í tætlur!

Við spurðum Candy hvort hún hefði heyrt Nótt, lag Jóhönnu Guðrúnar í undankeppninni 2011 og hún sagði að það höfðaði einkar vel til sín. Og bætti við að flest íslensku lögin sem hún hefði heyrt væri virkilega góð – og kæmu vel til greina sem lög á næstu plötu hennar!

Hægt er að hlusta á útgáfur Candy á síðunni hennar undir Music. Afrikaans-útgáfan heitir Is Dit Waar!

Hér er eitt tóndæmi með Candy og bandi sem hún hefur sungið með, Chicas – og þeirra útgáfa af Bleeding Love:


Ítalir og Georgíumenn velja framlög sín í kvöld!

Í kvöld er söguleg stund í júróvísjon því Ítalir velja framlag sitt til Júróvísjon eftir margra ára hlé frá keppninni. Ítalir eru ein af stóru þjóðunum í júróvísjon og tóku þátt samfleytt frá fyrstu keppninni 1956 til ársins 1993 og eiga tvö sigurlög auk fjöldans alls af þekktum lögum úr keppninni enda hafa þeir sjö sinnum lent í 2. og 3. sæti. Ítalía tók aftur þátt í keppninni árið 1997 og lenti þá í 4. sæti en síðan þá hafa Ítalir ekki verið með. Sagan segir að ástæða fyrir fjarveru Ítala sé sú að þeir hafi verið móðgaðir yfir að hafa ekki unnið árið 1997 þegar þeir komu aftur eftir stutt hlé en það er saga sem við seljum ekki dýrari en við keyptum hana!!

Síðan Ítalir tóku síðast þátt hefur keppnin breyst mikið, fjöldi þjóða sem tekur þátt hefur aukist all verulega og kosningakerfið einnig breyst. Það hefur verið ákveðið að Ítalía teljist sem ein af stóru þjóðunum sem ekki keppa í undankeppnunum tveimur og mun því framlag Ítala eingöngu taka þátt á úrslitakvöldinu í Düsseldorf þann 14. maí.

Ítalir fara hefbundnar leiðir við val á framlagi sínu því framlagið mun koma úr hinni sögulegu söngvakeppni Ítala Festival di Sanremo en sjálf Júróvísjon byggir einmitt á hugmynd þessarar keppni sem rekur sögu sína allt aftur til ársins 1951. Það er þó ekki þannig að sigurvegarinn í Sanremo keppninni í kvöld fái sjálfkrafa þátttökurétt í Düsseldorf heldur mun dómnefnd á vegum Rai sjónvarpstöðvarinnar velja framlagið úr því 21 lagi sem keppa í kvöld!

Til gaman setjum við inn síðasta lag sem keppti fyrir hönd Ítala í Júróvísjon. Lagið heitir Fiumi Di Parole, flutt af Jalisse og lenti sem áður segir í 4. sæti.

Ítalir eru þó ekki einir um að velja framlag sitt í kvöld því það gera einnig Georgíumenn. Sjö lög keppa til úrslita. Upphaflega átti þó keppnin að vera milli tíu laga en þrír hafa sagt sig frá keppninni af ýmsum (og aðallega óþekktum) ástæðum.

Hér má heyra brot úr öllum lögunum sem keppa í kvöld!

Hvað vilt þú sjá á Allt um Júróvisjón?/What is missing from our site?

Hvað viltu sjá hér á síðunni? Er eitthvað sem þér finnst við vera að gleyma, t.d. varðandi nýafstaðna Söngvakeppni? Við viljum endilega fá viðbrögð frá lesendum. Þú getur skilið eftir skilaboð í kommentum eða sent okkur línu á eurovisioneurovision@gmail.com. Við viljum vera með þétta og góða umfjöllun um tímann fram að keppni, undirbúninginn og keppnina sjálfa! :)

What do you want to see on this site? Are we forgetting anything, e.g. anything about the NF? We’d love to get comments from you guys and you can leave a message in Comments or send us an email on eurovisioneurovision@gmail.com. Please help us to make the site even better :)

Eurovision-stjörnur í undankeppninni á Möltu!

Oh, þau voru í algjöru uppáhaldi í fyrra í Osló! Við hér á Allt um Júróvisjón urðum vitni að samruna tveggja Eurovision-stjarna á keppninni í fyrra. Nefnilega þeirra Marcin Mrozinski frá Póllandi og Theu Garrett frá Möltu!

Í vikunni fyrir keppnina voru þau einna hressust keppenda, mættu í partí og á Euro-klúbbinn eins og þau gátu og voru hjartanlega almennileg við brjáluðu aðdáendurna. Thea lítil og krúttleg (og töluvert sætari) útgáfa af Lizu Minnelli og Marcin hress og skemmtilegur gaur – sem minnir okkur vinkonurnar óendanlega mikið á Michał pólskan vin okkar 🙂

Eðalfólk, Pólverjar – við elskum þá! 😉 (Witam narodu polskiego, kochamy cię!)

Hvorugt þeirra komst reyndar upp úr undankeppninni sem var afar leiðinlegt, og Thea tók það sérstaklega nærri sér… Hún brotnaði saman á Euroklúbbnum og þá var Marcin til staðar til að hugga hana! Eftir undankeppnina (og á aðalkeppninni) sáust þau æ oftar saman og greinilegt að gott vinasamband var í mótun. Þau deila líka einlægum áhuga á „showtunes“ og stórum ballöðum…

Í undankeppninni á Möltu komu þau svo saman fram og sungu lag sem þau hafa tekið upp í sameiningu: In Our Love.

Er þetta kannski upphaf einhvers meira??

Nánar um undankeppnina á Möltu

Eins og áður hefur verið sagt frá hér á Öllu um Júróvísjon þá völdu Maltverjar framlag sitt á laugardaginn var. Sigurvegarinn var Glen Vella. Glen þessi  er 27 ára gamall og hefur lengi reynt að komast að sem fulltrúi Möltu í Júróvísjon enda hefur hann fjórum sinnum áður tekið þátt í undankeppninni á Möltu. Lengst komst hann árið 2010 þegar hann varð í öðru sæti með lagið Just a little more love. Draumur Glen hefur nú loksins ræst og mun hann flytja europopplagið One life í Düsseldorf á fyrra undanúrslitakvöldinu þann 10. maí.

Þrátt fyrir að keppnin á Möltu sé búin er ekki úr vegi að velta sér aðeins upp úr þeim möguleikum sem Maltverjum stóðu til boða. Á úrslitakvöldinu á Möltu var nefnilega að finna 16 lög með hinum ýmsu flytjendum. Hjá okkur hér á Öllu um júróvísjon stóð eitt nafn sérstaklega út af þessum 16 flytjendum, nefninlega hin geysivinsæli Fabrizio Faniello sem einmitt hefur keppt tvisvar fyrir hönd Maltverja í Júróvísjon. Faniello hafði þó ekki erindi sem erfiði að þessu sinni í undankeppninni og náði ekki einu sinni inn í topp þrjá í keppninni. Maður veltir fyrir sér hvort Maltverjar séu kannski komnir með leið á honum! Hér fyrir neðan má hins vegar sjá hann flytja lagið sitt í ár og dæmi nú hver fyrir sig hvort það eða sigurlagið sé betra!

Annað nafn sem vakti athygli okkar í undankeppninni var Claudia nokkur Faniello. Það var einkum vegna kunnuglegs eftirnafns (nú eru líklega flestir lesendur búnir að fatta að Claudia þessi og sjálfur Fabrizio bera sama eftirnafn!). Við fórum því á stúfana og kynntum okkur þessa konu. Það vill svo skemmtilega til að Claudia er systir Fabrizio svo það var heldur betur systkinakeppni á Möltu! Hún hefur líkt og bróðir sinn tekið nokkrum sinnum þátt í undankeppnunum á Möltu en aldrei náð svo langt að vinna. Í ár tókst henni að komast alla leið á úrslitakvöldið sjálft á Möltu en náði eingöngu 8. sæti af þeim 16 lögum sem kepptu og var þar nokkur eftirbátur bróður síns sem lenti í 4. sæti. Claudia hefur sungið frá 12 ára aldri en er einkum þekkt á Möltu fyrir að syngja í ýmsum sjónvarpsþáttum. Hún hefur gefið út eina plötu sem hægt er að hlusta á brot af á heimasíðu hennar.

Hér má líta framlag hennar til undankeppninar á Möltu í ár og það er ekki hægt að segja annað en hún sé í aðeins rokkaðri kantinum en bróðir hennar!

Undankeppnin í Grikklandi

Grikkir eru yfirleitt hressir og skemmtilegir á sviði (OPA!!!) og hafa alltaf komist í aðalkeppnina í Eurovision.

Sex lög keppa á úrslitakvöldi undankeppninnar í Grikklandi fyrstu vikuna í mars. Nú hefur ríkissjónvarpið ERT gefið út hver þau eru.
Lögin má öll nálgast á þessari frábæru síðu en til gamans látum við tvö myndbönd fylgja:

Írska tilraunin!

Á föstudaginn var valdi sigursælasta þjóð Eurovision-keppninnar, Írar, sitt framlag í keppnina í vor. Þeim hefur nú ekki gengið vel undanfarið, voru síðast í topp 10 árið 2000 og sigruðu árið 1996. Eftir að tungumálaákvæðið var fellt niður í keppninni og fleiri fóru að syngja á ensku hefur hinum engilsaxnesku þjóðum nefnilega gengið verr.

Í ár var stokkað dálítið upp í þessum Eurovision-málum hjá ríkissjónvarpinu írska, RTÉ. Í keppninni sem kallaðist ‘Eurosong 2011’ var fylgst með framgangi og keppni fimm atriða og laga sem fimm þekktir og vinsælir einstaklingar í tónlistarbransanum „fóstruðu“ og þróuðu. Valið fór svo fram með símakosningu og dómnefndum.

Yfirlýst markmið með þessu nýja fyrirkomulagi er auðvitað að rétta hlut Íra sem finnst þeir bera skarðan hlut frá borði þegar kemur að sigri í Eurovision.

Hver og einn „mentor“ sá um allt í tengslum við atriðið; lag, útsetningu, hljóðblöndun og val á söngvurum og öðrum flytjendum. Flest af þessu fólki er lagahöfundar, tónlistarráðunautar og annað í tengslum við tónlist; Caroline Downey-Desmond, Ronan Hardiman, David Hayes, Willie Kavanagh og Liam Lawton.

Afraksturinn var svo kunngjörður á föstudag, eins og fyrr segir. Skemmst er frá því að segja að dýnamískt dúó sem kallar sig Jedward urðu hlutskarpastir en heldur var mjótt á mununum því að sú sem lenti í öðru sæti fékk einungis 2 stigum færri, með 96 á móti 98 stigum Jedward.

Hverjir eru svo þessir undarlegu drengir sem eru greiddir eins og Coneheads? Jú, þeir eru tvíburar fæddir árið 1991 og stigu fyrst fram á sjónsviðið árið 2009 í X-factor í Írlandi þar sem þeir lentu í 6. sæti. Þeir eru nokkuð vinsælir í heimalandinu sem og í Bretlandi, einkum fyrir líflega sviðsframkomu og fyrir að taka gamla slagara, t.d. með Vanilla nokkrum Ice.

Lagið þeirra verður að teljast nokkuð hressandi og undir áhrifum frá Lady GaGa. Þeir hafa verið óðir og uppvægir að taka þátt í Eurovision og eru virkilega spenntir að taka þátt í vor! Hér má sjá flutninginn á föstudaginn á laginu Lipstick:

Undankeppnir á fullu!

Það má með sanni segja að undankeppnir fyrir Júróvísjon séu á fullu um alla Evrópu þess daganna. Í gærkvöldi völdu fimm þjóðir framlög sín auk þess sem nokkur undanúrslitakvöld voru haldinn.

Eins og við vitum öll fór að sjálfsögðu úrslitakvöldið í Söngvakeppni sjónvarpsins fram þar sem lag Sjonna Brink, Aftur heim, sigraði og mun því verða framlag okkar í Dusseldorf í vor.  Auk okkar völdu Norðmenn, Finnar, Belgar og Maltverjar framlög sín.

Mikil stemmning var í Noregi yfir undanúrslitakvöldin og veðjuðu flestir á að Stella Mwangi myndi hafa sigur úr bítum með stuðlagið Haba haba. Sú varð svo raunin eftir mikla spennu og keppni milli hennar og The Black Sheeps með lagið Dance tonight. Stella var mjög hrærð með sigurinn og þurfti að þurkka tár af vöngum sínum þegar úrstlin voru ljós! Hér má sjá Stellu syngja um ráð og visku frá ömmu sinni í laginu Haba haba!

Finnar völdu einnig sitt framlag í gærkvöldi. Lagið heitir Da da dam og er flutt af Paradise Oskar. Kosning fór þannig fram að fyrst  var kosið á milli allra laganna tíu en svo var kosið aftur milli þriggja efstu laganna. Þar vann Da da dam nokkuð öruggan sigur með rúmlega 46% atkvæða.

Lögin þrjú sem búið er að velja á Norðurlöndunum eru öll mjög ólík og má því búast við spennandi og fjölbreyttu fyrra undanúrslitakvöldi í Düsseldorf þann 10.maí en þar munu öll þessi þrjú lög keppa!

Eins og áður segir þá völdu Maltverjar og Belgar einnig framlög sín í gærkvöldi. Þið getið hlustað á þau lög með því að klikka á nöfn landana hér fyrir neðan!

Malta

Belgía