Eins og örlítið var komið inn á í færslu um framlag Búlgara í ár þá er mikil veisluhelgi framundan hjá júróvísjon-aðdáendum. Það er nefnilega þannig að frá og með kvöldinu í kvöld og fram á sunnudag munu alls níu þjóðir velja framlög sín til keppninnar í Düsseldorf! Kíkjum aðeins á hverjir þetta eru:
Litháen
Litháar kepptu í fyrsta skipti í Júróvísjon árið 1994 og hafa keppt 12 sinnum síðan en aldrei verið svo heppnir að vinna. Raunar hefur Litháum aldrei gengið sérlega vel í keppninni og hafa aldrei náð ofar en 6. sæti og í þeirra fyrstu keppni árið 1994 fengu þeir 0 stig!
Litháar halda þó ótrauðir áfram og velja sitt framlag úr hópi 13 laga í kvöld, fimmtudag, og verður hægt að fylgjast með útsendingunni á júróvísjonvefnum http://www.eurovision.tv.
Tyrkland
Tyrkir eru skemmtileg þjóð í Júróvísjon. Þeir hófu Júróvísjonferil sinn í Stokkhólmi 1975 og hafa síðan þá keppt 33var sinnum. Þeir hafa þó einungis einu sinni unnið, árið 2003 þegar Sertab Erener vafði dansmeyjum sínum í fötin af sér í laginu Everyway that I can.
Tyrkir eru nú þegar búnir að velja flytjanda en lagavalið fer fram á föstudagskvöldið 25. febrúar og verður hægt að fylgjast beint með því á vefnum http://www.eurovision.tv.
Austurríki
Austurríki er eitt af þessum löndum sem er að koma og fara í Júróvísjon og getur ekki alveg ákveðið sig hvort það vill vera með eða ekki! Þeir eru þó búnir að taka 44 sinnum þátt en þeir tóku fyrst þátt í Frankfurt árið 1957. Þrátt fyrir að hafa tekið þátt þetta oft hafa þeir bara einu sinni unnið og það var fyrir allt of mörgum árum síðan, eða árið 1966. Þau eru heldur ekki mörg lögin sem eru eftirminnileg frá Austurríki en líklega á Bobbi Singer eftirminnilegasta lagið á undanförnum árum og Alf Poier eftirminnilegasti flytjandi.
Austurríkismenn velja sitt framlag úr tíu lögum á föstudagskvöldið klukkan korter yfir átta og er eins hægt að fylgjast með því á http://www.eurovision.tv.
Moldavía
Moldavía kom ný inn í keppnina árið 2005 með mjög svo eftirminnilegu lagi Boonika Bate Toba en þar mátti meðal annars sjá ömmu í ruggustól á sviðinu! Þeir komust alla leið í 6. sætið og er það langbesti árangur þeirra hingað til.
Áhuginn á Júróvísjon er mikill í Moldavíu og voru 93 lög upphaflega í undankeppninni heima fyrir. Það verða þó ekki nema 25 sem keppa á laugardagskvöldið um að komast til Dusseldorf.
Úkraína
Úkraína er þekkt fyrir að senda kvenbombur með mjög katsí europopplög í keppnina! Þeim hefur oft gengið vel en það var einmitt bara í annarri keppni þeirra, árið 2004 sem Ruslana kom, sá og sigraði með laginu Wild dances. Úkraínumenn hafa allt frá því þeir hófu keppni komist í úrslitin og yfirleitt náð nokkuð langt, þar af tvisvar sinnum náð 2. sætinu!
Það var mikið havarí í kringum undankeppnina í Úkraínu í fyrra þar sem þeir þurftu að borga sektir fyrir að skila inn framlagi sínu of seint en mikið uppnám komst í keppnina eftir kosningar í landinu. Í ár er öllu rólegra yfir undankeppninni en á laugardaginn munu 21 framlag keppast um að verða fulltrúi Úkraínu í Düsseldorf. Sýnt verður beint frá úraínsku keppninni á eurovision.tv.
Lettland
Lettar hafa tekið þátt í Júróvísjon frá árinu 2000. Þá sendur þeir hina frábæru hljómsveit Brianstorm til að keppa og náðu 3. sætinu. Ári seinna kom atriði sem einkum var eftirminnilegt fyrir að vera slæmt og skrítið og náðu þeir eingöngu 18. sæti. Árið 2002 sigruðu Lettar hins vegar keppnina en síðan þá hefur gengi þeirra verið mismunandi.
Á laugardagskvöldið velja Letta sitt 12 framlag til Júróvísjon keppninnar. 11 lög munu keppa til úrslita og hægt verður að horfa á keppnina beint af vef eurovision.tv.!
Danmörk
Öll Norðulöndin eru búin að velja framlög sín eða komin af stað með að velja þau nema Danmörk. Í ár er eingöngu eitt kvöld helgað undankeppni júróvísjon í Danmörku og verður það kvöldið núna á laugardaginn. Hægt verður að horfa á keppnina á vef júróvísjon http://www.eurovision.tv.
Eistland
Eistar ætla velja sitt framlag á sunndaginn. Þeir hafa keppt í júróvísjon frá árinu 1994 og hafa af þeim 17 skiptum sem þeir hafa keppt unni einu sinni. Það var árið 2001 þegar lagið Everybody sigraði nokkuð óvænt og líklega eitt minnst þekkta sigurlag síðustu ára.
Undankeppni Eista í ár var byggð upp á tveimur undankvöldum og á sunnudaginn er komið að sjálfum úrslitunum. Það keppa 10 lög um miða til Düsseldorf en hver situr uppi sem sigurvegari kvöldsins byggir á atkvæðum bæði frá áhorfendum og dómnefnd.
Serbía
Síðasti í þessari veislu eru Serbar. Þeir eiga sér ekki mjög langa sögu í Júróvísjon en hafa þó unnið einu sinni og oft náð langt. Fyrst tóku Serbar þátt (þá með Svartfjallalandi) árið 2004 með laginu Lane Moja. Árið 2007 kepptu Serbar í fyrsta skipti án Svartfjallalands en það var einmitt árið sem þeir gerðu sér lítið fyrir og sigruðu keppnina með laginu Molitva. Það er líklega í eina skipti í langan tíma keppandi hefur komið á svið með gleraugu!
Serbar velja í ár milli fjölskyldumeðlima til að keppa fyrir sína hönd í Düsseldorf en keppnin fer fram á sunnudagskvöldið og verður hægt að fylgjast með henni á http://www.eurovision.tv.