Þrjú lög áfram í úrslit

Þriðja og síðasta undanúrslitakvöldinu í Söngvakeppni Sjónvarpsins er lokið og því ljóst hvaða lög keppa á úrslitakvöldinu sjálfu þann 12. febrúar næst komandi. Í ljósi sérstakra aðstæðna komust þrjú lög áfram úr keppninni á laugardaginn var en það voru lögin Aftur heim eftir Sjonna Brink í flutningi Hreims, Pálma, Benna, Vignis, Gunna og Matta, Ég lofa eftir Vigni Snæ Vigfússon og Jógvan Hansen í flutningi Jógvans og loks Ég trúi á betra líf eftir Hallgrím Óskarsson í flutningi Magna. Þetta þýðir að sjö lög munu keppast um að verða framlag Íslands í Júróvísjon í Düsseldorf í vor.

Lagalistinn fyrir úrslitakvöldið lítur því svona út:

Ef ég hefði vængi eftir Halla Reynis í flutning hans sjálfs.

Ástin mín eina eftir Arnar Ástráðsson í flutningi Ernu Hrannar Ólafsdóttur.

Nótt eftir Maríu Björk og fleiri í flutningi Jóhönnu Guðrúnar.

Eldgos eftir Matthías Stefánsson í flutningi Matta og Erlu Bjargar.

Aftur heim eftir Sjonna Brink í flutningi Hreims, Benna, Matta, Vignis, Gunna og Pálma.

Ég lofa eftir Vigni Snæ Vigfússon og Jógvan Hansen í flutningi Jógvans.

Ég trúi á betra líf eftir Hallgrím Óskarsson í flutningi Magna.

Það má því búast við spennandi og skemmtilegri keppni þann 12. febrúar! En eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá er einn laugardagur á milli þriðja undanúrslitakvöldsins og úrslitana. Í þeim þætti verður ekki keppt í neinu heldur verður skoðað hvað fer fram bakvið tjöldin í keppni sem þessari og við júróvísjonaðdáendur getum komist í allan sannleikan um hvernig þetta fer allt saman fram!

Söngvakeppni Sjónvarpsins 2011: Yfirferð laga III

Sáluhjálp eftir Pétur Örn Guðmundsson í flutningi Buffsins
900-9001

Hildur segir:
Buffið býður okkur upp á popplag í rólegri kantinum og það minnir mig svakalega mikið á eitthvað annað lag eða lög þó að ég átti mig alls ekki á því hvaða lög það eru! Ég átta mig ekki alveg á textanum og veit hreinlega ekki hvort Buffið sem er annáluð gleðihljómsveit, sé að gera eitthvað grín eða hvort um er að ræða grafaralvarlega tónsmíð og flutning. Lagið finnst mér ekki sérlega eftirminnilegt þótt það minni mig á annað lag/önnur lög og það er aldrei mjög vænlegt í júróvísjon. Lagið er þó hið fínasta og gæti auðveldlega orðið vinsælt á útvarpsstöðvum landsins. Ég á þó ekki von á því að það komist áfram á úrslitakvöldið en maður veit þó aldrei þegar vinsæl gleðisveit á borð við Buffið flytur!

Eyrún segir:
Pétur Örn á tvö lög í keppninni og hitt var Elísabet sem við höfum fjallað um áður. Mér finnst það mun skárra lag en lagið sem keppir núna á laugardaginn, Sáluhjálp. Nú fær hann fulltingi félaga sinna í Buffinu og það er viss Buff-bragur yfir því, skemmtilegar raddanir o.s.frv. en lagið grípur mig einhvern veginn ekki og ég man aldrei laglínuna! Mér finnst alltaf gaman að hljómsveitaflutningi í Söngvakeppninni en ég býst ekki við því að þetta lag komist áfram á úrslitakvöldið.

Ég lofa eftir Vigni Snæ Vigfússon og Jógvan Hansen í flutningi Jógvans Hansen

900-9002

Hildur segir:
Söngvakeppnin 2011 er sannarlega keppni rólegu laganna því að hér er á ferðinni enn eitt lagið í rólegri kantinum. Lagið er nokkuð lengi að byrja en það er samt sem áður góður stígandi í því og mér finnst útsetningin skemmtileg. Þrátt fyrir það er það jafnvel enn minna eftirminnilegt en Sáluhjálp Buffsins og það er jú ekki alveg það besta í Júróvísjon. Hér gildir það saman og um Sáluhjálpina, lagið er fínt og gæti orðið vinsælt í útvarpi en ég tel ólíklegt að það nái langt í Söngvakeppninni.

Eyrún segir:
Þetta lag er pínulítið sérstakt og útsetningin er skemmtileg, undir áhrifum frá Coldplay og jafnvel Jónsa í Sigurrós. Jógvan flytur vel og ljær því skemmtilegan blæ með örlítið bjagaðri íslensku (en það heyrist varla!) Þetta er klárlega lag sem vex við hverja hlustun og Jógvan er vinsæll flytjandi og ef flutningurinn heppnast fullkomlega á laugardaginn held ég að það sé nokkuð víst að hann fari áfram í úrslitin.

Ég trúi á betra líf eftir Hallgrím Óskarsson í flutningi Magna
900-9003

Hildur segir:
Hallgrímur bíður okkur upp á fallegt lag að sjálfsögðu í rólegri kantinum í stíl við keppnina! Lagið finnst mér afar fallegt og Magni flytur það vel í upptökunni og mun án efa flytja það hnökralaust í sjónvarpssal á morgun. Lagið er með nokkuð grípandi viðlagi en mér finnst millikafli lagsins draga örlítið úr annars góðum stíganda í laginu. En hann er sem betur fer stuttur og lagið nær sér aftur á gott strik en endar svo nokkuð snögglega. Ég spái því að lagið verði í baráttu um að komast í úrslitin.

Eyrún segir:
Enn ein góð ballaðan frá Hallgrími en dálítið rokkaðri en hin lögin á þessu kvöldi – sem er bara gott! Einhvern veginn fer ég strax að hugsa um Eirík Hauksson og Ég les í lófa þínum, en það er kannski bara af því að Magni syngur! Mér finnst þetta mjög gott lag og býst við að flutningurinn verði mjög góður á morgun. Þá er bara spurning hvort þetta fljúgi ekki bara áfram í úrslitin?


Morgunsól eftir Jóhannes Kára Kristinsson í flutningi Georg Alexanders
900-9004

Hildur segir:
Þegar ég heyrði þetta lag fyrst þá byrjaði ég strax að dilla mér og hefði ég ekki vitað betur þá hefði ég haldið að ég hefði heyrt lagið oft áður. Svoleiðis kunnugleiki er oftast mjög góður í Júróvísjon. Lagið er svona hressileg popplag sem batnar bæði þegar líður á það sem og við hlustun. Ég hef aldrei heyrt Georg Alexander syngja live en ef hann gerir það vel spái ég því að hann verði í baráttu við Magna og jafnvel Buffið um að komast í úrslitin.

Eyrún segir:
Mér finnst þetta lag í raun hvorki vera fugl né fiskur… Textinn höfðar engan veginn til mín, einhverra hluta vegna finnst mér fráhrindandi í léttu popplagi að tala um „oss“ og undurfagra storð“ en það er kannski bara smekksatriði! Ég held ekki að lagið eigi eftir að komast áfram, einfaldlega vegna þess að það grípur mig ekki nægilega.

Aftur heim eftir Sigurjón Brink í flutningi Hreims, Pálma, Benna, Matta, Gunna og Vignis
900-9005

Hildur segir:
Þetta er algjörlega uppáhalds lagið mitt í keppninni þetta árið. Lagið er sætt og hlýtt popplag og maður getur ekki annað en brosað og orðið glaður þegar maður hlustar á það. Þó það sé ekki beint júróvísjonlegt þá er einhver stemning í því sem á án efa eftir að fleyta því langt líkt og lagið Waterslide sem Sjonni samdi einmitt og flutti í keppninni í fyrra. Við höfum að sjálfsögðu ekki heyrt það í flutningi þeirra Hreims, Pálma, Benna, Matta, Gunna og Vignis en þrátt fyrir það er ég viss um að lagið þýtur beinustu leið í úrslitin.

Eyrún segir:
Ég er eiginlega sammála því sem Hildur segir um að þetta sé uppáhalds lagið mitt. Kannski af því að Sjonni samdi það og það er undir sterkum Bítlaáhrifum. Laglínan er alla vega afskaplega skemmtileg og falleg. Það hefur heldur enginn farið varhluta af allri umfjölluninni sem sviplegt fráfall Sjonna hefur fengið og spáin fyrir laugardaginn hlýtur því að einhverju leyti að miðast við að þetta lag hefur fengið langtum meiri umfjöllun en önnur í keppninni. Hvort sem það verður því vegna þess hver samdi lagið eða hvernig flutningurinn á sviðinu verður (og hann verður án efa góður!) er ég nokkuð viss um að þetta lag á tryggan sess í úrslitunum!

Æfingar fyrir þriðja og síðasta undanúrslitakvöldið

Allt um Júróvísjon heldur áfram að spá í spilin í Söngvakeppni Sjónvarpsins með því að rýna í myndir af fyrstu æfingum laganna sem keppa. Myndirnar er hægt að sjá á vef keppninnar, http://www.ruv.is/songvakeppni, sem og Facebook síðu keppninnar. Á þessum síðum má einnig finna allar upplýsingar um keppnina og heilmikið af skemmtilegu aukaefni!

Sáluhjálp
Lagið er eftir Buffarann og Jesúinn Pétur Örn Guðmundsson og mun Buffið í heild sinni flytja lagið. Buffaranir virðast hressir á æfingunni og það lítur út fyrir að þeir muni hafa hefbunda hljómsveita uppsetning þar sem Pétur mun vera í forgrunni og syngja í míkrafón á statífi en hljómsveitin umkringja hann með hljóðfærum sínum.

Ég lofa
Lagið er eftir Vigni Snæ Vigfússon og Jógvan Hansen en Jógvan mun flytja lagið. Eins og oft áður benda myndirnar til þess að um hefbundna uppsetningu verði að ræða. Jógvan verður í forgrunni og syngur í míkrafón á standi en með honum á sviðinu verða fimm bakraddir sem standa vinstra megin við hann og syngja líka í míkrafón á standi. Á myndum sést glitta í Yasmin Olson og má því búast við að hreyfingarnar verðir útpældar á sviðinu.

Ég trúi á betra líf
Lagið er eftir hinn reynda Söngvakeppnis höfund Hallgrím Óskarsson og mun enginn annar en Magni flytja lagið. Það lýtur út fyrir að Magni muni standa einn og óstuddur á sviðinu á morgun en mun þó hafa míkrafónin í statífi til að styðja sig við ;).

Morgunsól
Morgunsólin er eftir augnlækninn Jóhannes Kára Kristinsson og hinn myndalegi Georg Alexander mun flytja lagið. Allt bendir til þess að Georg muni hafa með nokkrar bakraddir sem munu standa vinstra megin við hann. Georg sjálfur mun hins vegar tilla sér á stól að minnsta kosti til að byrja með í laginu.

Aftur heim
Lagið er eftir Sjonna Brink verður flutt af vinum hans, þeim Hreimi Erni Heimissyni, Vigni Snæ Vigfússyni, Pálma Sigurhjartarsyni, Matthíasi Matthíassyni, Gunnar Ólason og Benedikt Brynleifssyni. Það verður gaman að sjá hvernig þeir munu haga flutningum og hvernig atriðið mun verða útfært á sviðinu.

Flytjendur 2011: Georg Alexander

Georg Alexander –  Morgunsól (lag: Jóhannes Kári Kristinsson)

(mynd: ruv.is/songvakeppni)

Fullt nafn:

„Georg Alexander Valgeirsson.“

Hver er uppáhalds Eurovision-flytjandinn þinn og af hverju?

„Lag Olsen-bræðranna fannst mér gott, Fly on the wings of love, kæruleysi og hamingja og þeir voru BARA flottir!“
Hvert er eftirminnilegasta lagið/atriðið úr Söngvakeppninni í gegnum tíðina?
„Eftirminnilegasta atriðið…  hmmmmm … flutningur ICY tríósins á Gleðibankanum góða, það klikkar ekki…“
Hverju mega áhorfendur eiga von á á laugardag?
„Jaaa… held að við viljum bara gera eins og danirnir, vera bjartsýnir, glaðir og dáldið kærulausir, það er svo mikil gleði í laginu að annað er ekki hægt :)“

Geturðu lýst Söngvakeppni Sjónvarpsins í fimm orðum?

„Blóð, sviti, tár, gleði (og mikil) hamingja.“

Ef þú værir lag, ættirðu erindi í Júróvisjón?

„Ég hef ekki nógu mikið hugmyndaflug :(“

Vilt þú komast til Düsseldorf á aðdáendamiða??

Eins og við höfum fjallað um hér á síðunni er miðasalan á Eurovision 2011 í fullum gangi og meira að segja uppselt í bili á aðalkeppnina!

Við höfum fengið fyrirspurnir um hvernig hægt sé að nálgast miða á keppnina fyrir þá aðdáendur sem misstu af miðasölunni á netinu. Þar sem við berum hag íslenskra Júróvisjón-aðdáenda fyrir brjósti fórum við á stúfana og athuguðum hvar hægt sé að nálgast miða.

Bestu miðarnir til aðdáendaklúbba

Það eru kannski ekki allir sem vita það en LANGbestu miðarnir í salnum á Eurovision-keppninni sjálfri fara sjálfkrafa til opinberra aðdáendaklúbba keppninnar (OGAE). Þetta eru sætin alveg upp við sviðið, sem sjást í sjónvarpinu og þar sem allir eru með fána. Til að fá þessi bestu sæti er því gulltryggt að maður þarf að vera meðlimur í aðdáendaklúbb!

Hvað með íslenskan aðdáendaklúbb?

Eins og sakir standa er ekki opinber/OGAE klúbbur á Íslandi og þess vegna eru engir miðar teknir frá sérstaklega fyrir íslenska aðdáendur. Það er þó þar með sagt að útilokað sé fyrir ykkur þarna úti að nálgast miða/skrá ykkur í aðdáendaklúbb!

OGAE Rest of the World er aðdáendaklúbbur fyrir aðra en þá sem hafa opinberan klúbb í sínu heimalandi. Klúbburinn er staðsettur í Suður-Afríku en tekur við öllum og Íslendingar eru sérstaklega velkomnir!

Hvernig get ég komist í samband við OGAE Rest of the World?

Við hér á síðunni erum í góðu sambandi við Roy, formann Rest of the World, og hann benti okkur á að hver sem væri frá Íslandi gæti haft samband við klúbbinn og gerst meðlimur. Að gerast meðlimur snýst m.a. um að fá svokallað OGAE-meðlimakort. Að sögn Roy hverfist öryggisgæslan í Þýskalandi í vor um að fylgjast með þessum kortum. Á þeim er mynd af viðkomandi og persónuupplýsingar (nafn, þjóðerni). Hægt er að sækja um kort með því að senda tölvupóst með passamynd til Roys eða aðdáendaklúbbsins. Meðlimakortið sjálft kostar 1 evru.

Eru enn til miðar á keppnina í Düsseldorf í maí?

Sem fyrr segir eru teknir frá miðar fyrir aðdáendaklúbbana. Hins vegar hefur gengi landa og þjóða oft áhrif á áhuga aðdáenda að sækja keppnirnar, t.d. hafa breskir og franskir aðdáendur sóst í minna mæli eftir miðum. Þetta þýðir að það eru alltaf einhverjir miðar afgangs! Hægt er að komast á biðlista eftir miðum hjá OGAE Rest of the World en til þess þarf að gerast meðlimur fyrst – og fá meðlimakort!

Hvað kosta miðar á keppnina fyrir aðdáendur?

Að sögn Roy er verðið fyrir 1. Semi-Final, 2. Semi-Final og lokakeppnina 256 evrur, eða um 40 þúsund íslenskar krónur! Það verður að teljast afbragðsverð fyrir þrjú kvöld í bestu sætum hússins!

– Vonandi svarar þetta einhverjum spurningum sem þið hafið um hvernig eigi að nálgast miða!

Ef ekki, endilega hafið samband við okkur á netfangið eurovisioneurovision[at]gmail.com

Flytjendur 2011: Magni Ásgeirsson

Magni Ásgeirsson: Ég trúi á betra líf (lag: Hallgrímur Óskarsson)

(mynd: ruv.is/songvakeppni)

Fullt nafn?

„Guðmundur Magni Ásgeirsson“.

Hver er uppáhalds Eurovision-flytjandinn þinn og af hverju?

„Ég þekki svo marga af þessum íslensku að þetta er næstum óþægileg spurning en ef ég þyrfti að velja segði ég Birgitta vegna þess að hún komst ofarlega og stóð sig frábærlega vel. Af erlendum segi ég bara ABBA einfaldlega vegna þess að það er ein af áhrifamestu poppsveitum allra tíma.“

Hvert er eftirminnilegasta lagið/atriðið úr Söngvakeppninni í gegnum tíðina?

„Ætli það sé ekki Húbba húlle sem er búið að vera lengst fast í hausnum á mér – ég veit ekki einu sinni hvað land það var enda er mér gjörsamlega sama – lagið var samt skemmtilegt í minningunni :)- “

Hverju mega áhorfendur eiga von á á laugardag (t.d. sprengjur eða fiðlukonsert)?

„Mér að gera mitt besta við að flytja lag og texta. Ég er ekkert of gefinn fyrir sprengjur“

Geturðu lýst Söngvakeppni Sjónvarpsins í fimm orðum?

„Í gangi núna á RÚV… hehe “

Ef þú værir lag, ættirðu erindi í Júróvisjón?

„Það er alltaf gaman að sjá lög í júró sem eru ekki „júró-lög“ þannig að svarið yrði „já“! “

Flytjendur 2011: Jógvan Hansen

Ég lofa í flutningi Jógvan Hansen (lag: Vignir Snær Vigfússon og Jógvan Hansen)

(mynd: ruv.is/songvakeppni)

Fullt nafn?
,,Jógvan Hansen“

Hver er uppáhalds Eurovision-flytjandinn þinn og af hverju?
,,Friðrik Ómar Hjörleifsson. Hann er bara svo pottþéttur í því sem hann gerir, hann er bæði öruggur á sviði og í söng.“

Hvert er eftirminnilegasta lagið/atriðið úr Söngvakeppninni í gegnum tíðina?
,,Þegar Einar Ágúst fór út og var í kjól 🙂  Mér fannst það bæði skrítið/töff !“

Hverju mega áhorfendur eiga von á á laugardag (t.d. sprengjur eða fiðlukonsert)?
,,Fyndið að þið spyrjið því að það verða bæði sprengjur og fiðlukonsert í laginu sem við Vignir sömdum. Þetta er stuðlag með mikilli dýnamík.“

Geturðu lýst Söngvakeppni Sjónvarpsins í fimm orðum?
,,Mikilvæg,  skemmtileg,  erfið, frábær og Ísland!“

Ef þú værir lag um hvað myndirðu fjalla?
,,Ef eg væri lag mundi ég fjalla um tunglið sem breytir lit á hverju degi allt eftir hvaða skapi það er í.“

Flytjendur 2011: Pétur Örn (og Buffið)

Við höldum áfram að heyra örstutt í flytjendum í Söngvakeppni sjónvarpsins. Nú er komið að Pétri Erni sem steig á stokk fyrsta undanúrslitakvöldið og mun syngja eigið lag með Buffinu á laugardaginn kemur. Við hvetjum ykkur eindregið til að hlusta á saxafónsólóið í gríska laginu sem Pétur nefnir hér að neðan!

Pétur Örn og Buffið: Sáluhjálp (lag: Pétur Örn Guðmundsson)


(mynd: ruv.is/songvakeppni)

Fullt nafn?
Pétur Örn Guðmundsson

Hver er uppáhalds Eurovision-flytjandinn þinn og af hverju?
Kristján Gíslason því hann er með svo suðræna og seiðandi rödd.

Hvert er eftirminnilegasta lagið/atriðið úr Söngvakeppninni í gegnum tíðina? Saxófón-sólóið hjá gríska laginu árið 1991.

Hverju mega áhorfendur eiga von á á laugardag? Það verður einlægni og krúttlegheit með stórri skvettu af sönggleði.

Geturðu lýst Söngvakeppni Sjónvarpsins í fimm orðum?
Vonir, væntingar, viðlög, víðómur og víólur.

Ef þú værir lag, um hvað myndirðu fjalla?
Ég myndi fjalla um tvo ketti sem leggja af stað í langferð og lenda í galsafengnum ævintýrum, villast en ástin færir þá loks heim….til mín.

Höfundafjölbreytni

Höfundar laganna í Söngvakeppni sjónvarpsins koma úr ýmsum áttum og hafa síst allir atvinnu af tónlistarsköpun sinni. Við höfum áður sagt frá höfundum úr öllum áttum á fyrsta undanúrslitakvöldinu en á laugardaginn var og á laugardaginn kemur má einnig sjá fjöldbreytnina meðal höfunda.

Á laugardaginn var mátti til dæmis heyra lög eftir forleggjarann Tómas Hermannsson, athafnakonuna Maríu Björk, viðskiptafræðinginn Albert Jónsson, tónlistarkennarann og fiðluleikarann Matthías Stefánsson og hönnuðinn Jakob Jóhannsson.  Núna á laugardaginn kennir áfram ýmissa grasa í höfundaflórunni. Til að mynda er lagið Morgunsól eftir augnlækninn Jóhannes Kára Kristinsson og Ég trúi á betra líf eftir viðskiptafræðinginn Hallgrím Óskarsson. Lagið Ég lofa er svo eftir hárgreiðslumanninn  Jógvan Hansen og tónlistarmanninn Vigni Snæ Vigfússon.  Síðustu tvö lögin sem keppa á laugardaginn eru þó eftir tónlistarmenn, þá Sjonna Brink og Pétur Örn Guðmundsson.

Nokkrir þessara höfunda hafa þó komið áður við sögu í Söngvakeppninni þrátt fyrir að vera ekki atvinnutónlistarmenn. Þar á líklega Hallgrímur Óskarsson vinninginn en hann hefur í heildina keppt fjórum sinnum í Söngvakeppni sjónvarpsins og þar af borið sigur úr bítum einu sinni. Það var árið 2003 þegar Birgitta Haukdal flutti lagið Open your heart. Jóhannes Kári Kristinsson hefur einnig tekið þátt áður sem og Albert Jónsson og Tómas Hermannson.

Við minnum svo á að það er kominn mánudagur og þá er hægt að hlusta á þau fimm lög sem keppa á laugardaginn kemur á vef keppninnar http://www.ruv.is/songvakeppni!

Lögin á þriðja undanúrlistakvöldi

Það kom líklega fáum á óvart að Jóhanna Guðrún komst áfram í úrslitin í Söngvakeppni sjónvarpsins á laugardaginn var með lag Maríu Bjarkar, Nótt. Auk Jóhönnu komust þeir Mattar, Mattíhas Matthíasson og Matthías Stefánsson, félagar úr Pöpum, áfram með lagið Eldgos. Allt um Júróvísjon óskar þeim innilega til hamingju með árangurinn.

Nú er einnig komið í ljós hverjir flytja síðustu lögin fimm sem keppa á þriðja og síðasta undanúrslitakvöldin. Eins og kom fram í þættinum í gærkvöldi hefur fjölskylda Sjonna Brink ákveðið að halda laginu hans við texta eiginkonu sinnar, Þórunnar Ernu Clausen, inni í keppninni og munu vinir hans flytja lagið sem heitir Aftur heim. Önnur lög í keppninni á laugardaginn kemur eru:

Morgunsól eftir Jóhannes Kára Kristinsson í flutningi Georgs Alexanders.

Ég trúi á betra líf eftir Hallgrím Óskarsson í flutningi Magna.

Ég lofa eftir Vigni Snæ Vigfússon og Jógvan Hansen í flutningi Jógvans.

Sáluhjálp eftir Pétur Örn Guðmundsson í flutningi hljómsveitarinnar Buff.