Vissir þú að þetta er júróvísjonlag?

Þau eru mörg lögin sem hafa tekið þátt í júróvísjon í gegnum tíðina. Svo mörg raunar að við getum aldrei þekkt þau öll. Það væri nú líka kannski tímasóun að þekkja öll lögin enda mörg þeirra alls ekki þess verð að muna eftir! En að sama skapi eru fjöldin allur af júróvísjonlögum sem hafa lifað lengi og margir tónlistarmenn hafa tekið og endurgert. Íslenskir tónlistamenn eru þar alls enginn undantekning og nokkur af okkar vinsælustu dægurlögum eru einmitt júróvísjonlög sem snarað hefur verið á íslensku. Raunar er það svo að margir hafa ekki hugmynd um að þessi lög eru einmitt júróvísjon lög en það á kannski ekki allveg við okkur júróvísjon nördana! Hér fyrir neðan er að finna nokkur dæmi um gömul og góð júróvísjon lög sem annað hvort hefur verið snarað yfir á íslensku, íslenskir tónlistarmenn hafa tekið upp á sína arma og endurflutt og hreinlega vinsæl lög sem stundum gleymast að eru júróvísjon lög! Ef þið vitið um fleiri endilega látið okkur vita í kommentakerfinu!

Heyr mína bæn – Non Ho L’étà
Ellý Vilhjálms söng mörg falleg og vinsæl lög. Eitt þeirra er hið hugljúfa lag Heyr mína bæn sem kom út á 45 snúninga plötu árið 1965. Íslenski textinn er eftir Ólaf Gauk en lagið er eftir Nisa. Lagið er upprunalega ítalskt Eurovisionlag frá árinu 1964 og var það Gigliola Cinquetti sem flutti lagið til sigurs. Upprunalega heitir lagið Non Ho L’étà og má líta á það hér. Á þessari slóð má svo heyra lagið í flutningi Ellýar.

 

Jack in a box – Þú ert minn súkkulaði ís
Árið 1971 flutti Clodagh Rodgers lagið Jack in a box fyrir hönd Breta í Eurovision og lenti í 4 sæti. Sama á flutti Svanhildur Jakobsdóttir lagið með íslenskum texta undir heitinu Þú ert minn súkkulaði ís.

 

 

Gente di mare – Komdu um jólin
Árið 1987 sungu Umberto Tozzi og Raf lagið Gente di mare á sviðinu í Brussel en árið áður hafði hin (þá) unga Sandra Kim tryllt Evrópu með sigurlaginu sínu J’aime La Vie. Þeir Umberto Tozzi og Raf enduðu í 3. sæti með þetta hugljúfa lag sem lang flestir Íslendingar þekkja enda hefur það verið gefið út á íslensku sem jólalagið Komdu um jólin og er mikið spilað á útvarpsstöðvum í desember mánuði. Internetið segir okkur að bæði Gunnar Ólafsson og Stefán Hilmarsson hafi sungið lagið og það heitir stundum Komdu um jólin og stundum Svona eru jólin. En allt virðist þetta vera sama lagið! Sem sagt ítalskt júróvísjonlag verður að íslensku jólalagi!

All kind of everything – Það er svo ótalmargt
Árið 1970 var eitt af þessum árum þegar Írar unnu Júróvísjon, þá með laginu All kinds of everything í flutningi Dönu (þó ekki International!).  Sama ár gaf Ellý Vilhjálms út 45 snúninga hljómplötu með laginu og hét það í íslenskir þýðingu Jóhanns G. Erlingssonar, Það er svo ótalmargt. Ellý fer vel með þetta fallega Júróvísjonlag sem margir þekkja en þó ekki allir vita hvaðan er upprunið.

Den vilda – Dansaður vindur
Það er greinilega stíll Íslendinga að búa til jólalög úr gömlum Júróvísjonlögum! Árið 1996 flutti hljómsveitin One more time lagið Den vilda fyrir hönd Svíþjóðar. Laginu var snarað yfir á íslensku fyrir Íslensku dívurnar sem syngja iðulega á árlegu jólatónleikunum Frostrósir. Lagið heitir á íslensku Dansaðu vindur og var það Eivör Pálsdóttir sem söng lagið inn á plötu árið 2008 en þær dívur hafa skipst á að syngja það á tónleikum.

Congratulation
Cliff Richard er einn af frægari flytjendum í Júróvísjon. Hann söng lagið Congratulation árið 1968 og lenti í öðru sæti og laut í minni pokann fyrir Massiel frá Spáni með lagið La la la. Cliff sjálfur var á heimavelli enda höfðu Bretar sigrað árið áður með laginu  Hann var á heimavelli enda höfðu Bretar unnið árið áður með laginu Puppet on a String í flutningi Sandie Shaw. Keppnin 1968 var söguleg enda var það í fyrsta skipti sem hún var send út í lit. Þrátt fyrir að Cliff hafi ekki sigrað varð hann mjög þekktur og lagið hans líka. Cliff tók aftur þátt í keppninni árið 1973 þá með laginu Power to all your friends og lenti í 3. sæti.

Halleluja
Ísraelar eiga nokkur Júróvísjonlög sem hafa orðið sígild og þekkt. Eitt þeirra er lagið Halleluja sem sigraði keppnina árið 1979. Lagið var í flutningi Milk and Honey flokksins og var flutt á hebresku í keppninni. Páll Óskar hefur sungið þetta lag með hljómsveitinni Casino en þá á ensku en enski textinn er líklega þekktari hér á landi en sá hebreski. Páll Óskar og Casino sungu fleirir Júróvísjonlög á sinni einu plötu t.d. sigurlagið frá árinu 1978,hið ísraelska A-Ba-Ni-Bi og lagið hans Cliff Richards, Congratulation.

Nel Blu, dipinto di blu (Volare)
Þrátt fyrir að lagið Nel blu, dipinot di blu eða bara Volare hafi verið kosið annað vinsælasta júróvísjon lag allra tíma eru alls ekki allir sem vita að þetta snilldar lag sé upprunið úr júróvísjonkeppninni. Lagið er ítalskt og var flutt af Domenico Mudugno. Lagið lenti í 3.sæti í þriðju keppninni árið 1958. Þetta lag hefur lifað ótrúlega og alls ekki bara í júróvísjon heiminum.

Nýtt frá flytjendum 2010!

Nú er síðan okkar búin að vera í dágóðu sumarfríi og tími til kominn að vekja hana af dvalanum 🙂

Tæpir þrír mánuðir eru frá keppninni í Osló og flestir aðdáendur hafa e.t.v. tekið sér smá frí frá þeim lögum sem kepptu þá. Flytjendurnir halda þó áfram að láta ljós sitt skína. Lena hin þýska er t.d. á ferð og flugi á Evróputúr og gerir það gott á vinsældalistum. Satellite er líka enn spilað töluvert í íslensku útvarpi!

En það er einnig nokkuð um nýtt stöff og við skulum líta á hvað uppáhaldsflytjendurnir okkar hafa verið að gera:

Safura – March On

Hér er dívan frá Azerbaídjan mætt með nýjan R’n’b-smell. Lagið er nokkuð grípandi en það verður nú að segjast að flutningurinn er nokkuð flatur og án nokkurs frumleika. Óþægilega mikil tenging við hernað í myndbandinu svona sögulega séð…

Jessy Matador – Bomba

Pottþéttur danssmellur frá einni óvæntustu stjörnu síðustu keppni. Hér syngur hann á ýmsum tungumálum (frönsku, spænsku og ensku) og hristir sig og skekur.“I like your bombastic“ minnir þó dálítið á Shaggy forðum tíð. Ætli Jessy þekki hann?

Tom Dice – Lucy

Tom Dice eignaðist stað í hjörtum margra Íslendinga með gítarinn sinn á sviðinu í Osló. Hérna er hann með annað keimlíkt og fallegt lag sem er ástarsöngur til hennar Lucyar.

Hver flytjendanna 2010 væri líklegastur til að slá í gegn og verða Júró-klassík? Kíktu á könnunina hér til hliðar!