Gamalt uppáhalds: Nicola frá Rúmeníu

Hildur skrifar:

Rúmenar hafa oft sent það sem við hér á Allt um júróvísjon kjósum að kalla klúbbalög í keppnina og eru þau oftast mjög skemmtileg. Eitt af mínum uppáhalds lögum frá Rúmeníu fellur þó kannski ekki allveg í klúbbalaga flokkinn þó það sé mjög nálagt því. Það er lagið Don’t break my heart frá árinu 2003 og var flutt af hinn nefmæltu Nicolu. Þó svo að lagið falli ekki allveg í klúbbaflokkin að mínu mati þá var það greinilega ætlunin hjá Rúmenum að lagði gerði það enda var plötusnúður á sviðinu með stærstu plötur sem ég hef séð! Á sviðinu voru líka dansara sem fækkuðu fötum í gríð og erg en það var mikið í tísku á þessum árum að fækka fötum á sviðinu og breyta búningum. Nicola sjálf var þó í sínum alltof stóru rauðu jakkafötum allan tíman! Þetta er klárlega eitt af mínum uppáhalds lögum og uppáhalds atirðum á sviði!

Dómnefndaratkvæðin drógu Heru niður!

Nú hefur EBU gefið út hvernig samsetning atkvæðanna var; dómnefnda og símakosninga. Íslenska framlagið var meðal þeirra landa sem græddu mest á símakosningunni sem sýnir að áhuginn í Evrópu var töluverður fyrir Heru og félögum!

Önnur lönd sem græddu á símakosningunni fremur en önnur voru að sjálfsögðu Tyrkland, Azerbaídjan og Armenía, en einnig Danmörk, Spánn, Frakkland og Serbía. Af þessum löndum er það eiginlega bara Danmörk sem kemur á óvart, kommon Evrópa!

Löndin sem komust lengst á dómnefndaratkvæðum voru Belgía, Georgía, Harel okkar Skaat og fallega lagið hans frá Ísrael og Úkraína. Í sjálfu sér ekkert sem kemur á óvart. Látlausa belgíska lagið og boðskapurinn frá Georgíu og Úkraínu hafa skilað þeim þangað. Ísrael er eina landið sem hefði ekki komist inn á topp tíu fyrir tilstilli símakosningarinnar – og angar að sjálfsögðu af pólitík, eins og alltaf þegar Ísrael á í hlut í Eurovision! Belgía og Úkraína komust bara í topp tíu vegna dómnefndaatkvæða.

Það sem skiptir máli fyrir okkur er að HERA HEFÐI LENT Í 15. SÆTI EF ÞAÐ HEFÐI EKKI VERIÐ FYRIR DÓMNEFNDIRNAR! Með 40 stig úr símakosningu en 57 frá dómnefndum enduðum við í 19. sæti, sem sýnir að þarna hefur dómnefndarálitið vegið þyngra. Í undankeppninni var íslenska lagið annað vinsælasta í símakosningu en aðeins sjötta vinsælasta hjá dómnefndum. Við enduðum svo í þriðja efsta úr undankeppninni, eins og við vitum.

Þetta blessaða kosningakerfi virðist e-n veginn aldrei virka fyrir Ísland! En símakosningin skilaði Páli Óskari góðum árangri þegar hann keppti 1997 þó að hún hafi ekki dugað til.

Við getum þó alls ekki haldið því fram að eldgos og efnahagshrun hafi aftrað fólki frá því að kjósa Ísland! Evrópa hélt með okkur, gott fólk – það var bara smáatriðið eins og dómnefndir fagmanna sem héldu aftur af henni 🙂

Gömul uppáhalds: Papa Pengouin

Það er alltaf dásamlegt þegar búningarnir spila stærsta hlutverkið í Eurovision! Það má segja um framlag Lúxemborgar 1980 þegar frönsku tvíburasysturnar Magaly og Sophie sungu um Papa Pengouin, sorgmæddu mörgæsina sem vildi ekkert frekar en að geta flogið um eins og máfur! Þær lentu í 9. sæti og fengu alls 56 stig.

Í kjölfarið urðu þær gríðarvinsælar í Frakklandi og lagið seldist í milljónum eintaka. Systurnar komust þó að því að frægðin er hverful og hver smáskífa þeirra á fætur annarri hlaut falleinkunn hlustenda og fjölmiðla. Þær gáfu út á árunum 1980-1981 sjö lög en ekkert þeirra náði viðlíka vinsældum og Papa Pengouin. Enda snilldarlag! 🙂

Þýskur sigur í annað skipti í sögu Eurovision

Sigurinn var ákaflega sætur fyrir Þjóðverja í ár því að það eru lítil 28 ár síðan hin ljúfa Nicole sigraði með friðarsöngnum Ein Bißchen Frieden.

Árið 1982 hafði Þýskaland tekið 27 sinnum þátt í Eurovision án þess að sigra; einu sinni hafnað í 2. sæti (1957) og þrisvar í 3. sæti (1970, 1971 og 1972). Þetta getur ekki talist sérstaklega gott þar sem Þýskaland er eitt hinna fjögurra stóru ríkja í Eurovision (Big 4). Á sama tíma höfðu Frakkar unnið keppnina fimm sinnum, Bretar fjórum sinnum og Spánverjar tvisvar sinnum!

Þjóðverjar hafa þó fengið að halda keppnina einu sinni án þess að vinna beinlínis en það var annað árið sem keppnin var haldin, 1957. Ástæðan er sú að atkvæðatalning á fyrstu keppninni 1956 var mjög dularfull og enn hefur ekki fengist botn í það hver röð landanna varð önnur en að Sviss vann! Keppnin 1957 var haldin í Frankfurt af Hessinger Rundfunk fyrir hönd Deutsches Fernsehen ARD. Hún var enn haldin sem útvarpskeppni að stærstum hluta þó að Evrópubúar væru óðum að sjónvarpsvæðast.

Þá voru reglurnar um 3 mínútna lög í mótun og ekkert var aðgert þó að  ítalska lagið væri 5:09 mínútur en það breska aðeins 1:52. En eftir þetta var lögð áhersla á að lög skyldu vera 3 mínútur og ekki lengri!

Í þessari keppni voru keppendur frá 10 löndum og dómnefnd frá hverju landi sem skipuð var 10 aðilum. Hver dómnefndarmaður hafði 1 stig til að veita sínu uppáhaldslagi. Þetta ár var ákveðið að dómnefndin mætti ekki veita sínu eigin landi stig og hefur sú regla haldist síðan.

Þjóðverjar kættust ákaflega þegar Nicole steig síðust á svið árið 1982, ljúf og sæt með vængjaðan topp og hvítan gítar –  og vann:

Þegar hún söng lagið aftur í lokin, bætti hún við enskum, frönskum og hollenskum frösum! Nicole er enn í fullu fjöri og er í ár að túra Þýskaland undir yfirskriftinni Mit Leib und Seele (af lífi og sál) Hér er heimasíðan hennar.

Ári eftir sigurinn var Eurovision haldin í bæversku höfuðborginni München. Kynnirinn Marlene Charell þótti standa sig með afbrigðum illa og tókst að

gera 13 mistök í atkvæðagreiðslunni einni! Einnig dróst keppnin mjög á langinn og varð allt í allt hátt á fjórir tímar að lengd vegna þess að kynningarnar fóru fram á þremur tungumálum; þýsku, frönsku og ensku. Til að bæta svo gráu ofan á svart í klaufaskap Þjóðverja voru engin „póstkort“ til að kynna atriðin á svið því að ekki gafst tími til að klára þau!

Í þessari keppni komst ung sænsk stúlka, Carola Häggkvist, fyrst í kynni við keppnina og söng lagið Främling. Hún hefur síðar markað spor í sænskri Eurovision-sögu sem og orðið einn stærsti norræni listamaðurinn sem hefur tekið þátt í Eurovision.

Ýmislegt gekk á í keppninni 1983 í Þýskalandi en við megum svo sannarlega búast við mikilli sýningu á næsta ári því að Þjóðverjar eiga svo sannarlega eftir að tjalda öllu til! Mjög mikið áhorf er á keppnina í Þýskalandi og t.a.m. eru þar tveir opinberir aðdáendaklúbbar!

Undankeppnirnar verða haldnar 17. og 19. maí 2011 og aðalkeppnin sjálf 21. maí. Ekki er víst hvernig fyrirkomulag aðalkeppninnar verður núna þegar það eru bara hinar fjóru stóru sem komast sjálfkrafa í aðalkeppnina, en gestgjafalandið hefur einnig hlotið þann heiður hingað til. Þetta verður líka í fyrsta sinn sem stórþjóð vinnur eftir að þetta fyrirkomulag með „Big 4“ var kynnt árið 2000.

Þýska sjónvarpið hefur gefið það út að unnið verði að því hörðum höndum að fá Austurríki og fleiri ríki aftur inn í keppnina og einnig hefur Liechtenstein sýnt áhuga á því að taka þátt og verða hluti að EBU.

Enn er ekki komið á hreint hvar keppnin verður haldin en átta borgir hafa lýst yfir áhuga: Hannover (heimaborg Lenu), Berlín, Hamburg, Gelsenkirchen, Düsseldorf, Frankfurt, Cologne og München.

Við fylgjumst að sjálfsögðu með!


(Heimildir: Eurovision.tv og Wikipedia)

Tískan í Júróvísjon

Með vorinu kemur júróvísjon og með júróvísjon kemur sumartískan í Evrópu! Það er raunar með ólíkindum hvernig á hverju ári skapast ákveðin tíska í búningum flytjendanna í júróvísjon. Þessi tíska er ekki alltaf það sem koma skal fyrir hinn almenna borgara í Evrópu en hefur þó stundum orðið til þess að ákveðinn klæðnaður kemst í tísku. Já, eða kannski er það öfugt, það er einhver tíska í gangi sem allir júróvísjonkeppendur keppast um að vera í en við viljum þó líta á það á hinn veginn!


Í ár er tískan fyrir karlmenn mun augljósari en  tískan fyrir konur. Það er alveg deginum ljósara að hvítar þröngar buxur eru það sem koma skal fyrir karlmenn í sumar og skiptir þá engu hvort þeir eru 20 ára eða 40 ára! Allmargir karlkynskeppendur í ár klæddust flíkum sem þessum og spannaði aldursbilið allt frá yngstu keppendum til þeirra eldri. Til að mynda var hinn 22 ára gamli Milan frá Serbíu í hvítum niðurþröngum buxum sem og hinn 39 ára gamli Giorgos frá Grikklandi. Einnig má ætla að það sé líka svolítið töff að vera í óreimuðum hermannaklossum við þessar hvítu buxur ef marka má búninga í júróvísjon. Fyrir þá karlmenn sem vilja vera meira hefðbundnir í klæðnaði var líka nokkuð ljóst að hin klassíska jakkafatatíska viðgengst í sumar. Bæði hinn ísraelski Harel Skaat og breski Josh skörtuðu fallega sniðnum jakkafötum og hvítri skyrtu, sem og Belginn Tom Dice sem var í skyrtu, vesti og fallega sniðnum buxum. Aðalmálið er þó að sleppa bindinu.

Þar sem þetta er í ár þykir okkur þetta kannski ekki svo hallærislegt. En hvernig ætli þetta líti út eftir 10 ár? Jakkafötin verða kannski í lagi en hvítu buxurnar kunna að þykja álíka kjánalegar og buxnakjólarnir sem réðu ríkjum í keppninni árið 1999.

Gamalt uppáhalds

Hildur skrifar:

Án efa er eitthvað lag í keppninni í ár sem á eftir að rata í uppáhalds lög júróvísjon aðdáenda. Hér er hins vegar eitt af mínum uppáhalds lögum úr keppninni í gegnum árin. Lagið heitir Solo og var framlag Rússa árið 2000 í keppninni en það ár var hún einmitt haldin í Svíþjóð eftir frækin sigur Charlotte Nilson á Selmu okkar Björnsdóttur árið áður. Lagið lenti eftirminnilega í öðru sæti á eftir hinum dönsku Olsen bræðrum.

Það var hin 16 ára gamla Alsou sem söng lagið. Hún er fædd í Rússlandi og ólst þar upp fram eftir en flutti þaðan til New York og síðar til Bretlands en hún var búsett þar þegar hún tók þátt í Eurovision. Fjölskylda Alsou er ein sú allra ríkasta í Rússlandi og er faðir hennar þekkur olíkarki sem nú situr á rússneska þinginu. Nú þegar 10 ár eru liðin frá þátttöku Alsou í júróvísjon hefur ýmsilegt gerst. Hún er til að mynda gift milljónamæringi að nafni Ambramov og eiga þau saman tvær dætur. Alsou hefur einnig gefið út nokkrar plötur bæði fyrir rússenskan markað sem og plötur á ensku fyrir Bretlands og Evrópumarkað. Auk þess hefur hún unnið til nokkura verðlauna á sviði tónlistar og leikið í breskum bíómyndum. Alsou var kynnir á lokakeppninni í Rússlandi árið 2009.

Lagið er hressilegt og sviðsetning minnir að hluta til á sviðsetningu íslenska lagsins árið 1999, falleg söngkona og tveir dansarar. Annað er þó ekki líkt með lögunum.  Dansarnair lifa sig vel inn í dansinn og er á köflum dásamlegt að fylgjast með svipbrigðum þeirra. Textinn fjallar um konu sem vill bara vera einhleyp. Textinn er á köflum ótrúlegur eins og oft vill verða með júrvísjon texta en í viðlaginu segir t.d. Now I wait in the cold, and this is getting old, no more stories no more lies, take me of this ride, when I see you in the hall, I look at the wall, by my action you should know, I ‘m going solo.

Hér má svo sjá frammistöðu Alsou in keppninn:

Kosning lesenda Alls um Júróvisjón um úrslitin

Kosning lesenda síðunnar um  sigurvegarann var mjög í anda við niðurstöðuna, þ.e.a.s. að Þýskaland myndi vinna. Alls kusu 112 manns.

Spurt var: Hvaða þjóð vinnur í Eurovision 2010? og þetta voru svörin:

Þýskaland 21% (24 votes) – 1. sæti

Ísland 21% (23 votes) – 19. sæti

Frakkland 10% (11 votes) –  12. sæti

Azerbaídjan 9% (10 votes) – 5. sæti

Danmörk 6% (7 votes) – 4. sæti

Armenía 6% (7 votes) – 7. sæti

Rúmenía 5% (6 votes) – 3. sæti

Belgía 4% (5 votes) – 6. sæti

Ísrael 4% (5 votes) – 14. sæti

Spánn 2% (2 votes) – 15. sæti

Noregur 2% (2 votes) – 20. sæti

– Nokkuð gott, af 10 efstu spáðuð þið sex á toppinn sem rötuðu inn á topp 10! 🙂

Heildarstigin fyrir Ísland í Eurovision 2010!

Í lokakeppninni á laugardag hlaut Ísland 41 stig sem þýðir að Hera og félagar lentu í 19. sæti eins og alþjóð veit. Stigin sem fengust voru eftirfarandi:

Belgía: 8 stig
Malta: 6 stig
Noregur: 6 stig
Finnland: 5 stig
Eistland: 4 stig
Þýskaland: 4 stig
Danmörk: 3 stig
Grikkland: 3 stig
Hvíta-Rússland: 2 stig
_________________
Samtals: 41 stig

Hérna sést að Norðurlandaþjóðirnar voru ekki þær sem gáfu okkur flest stig, heldur Belgía og Malta sem eru í svipaðri stöðu landfræðilega og Íslendingar; dálítil eylönd í Eurovision.

Á undankvöldinu á þriðjudag fengu Íslendingar eftirfarandi stig:

Belgía: 12 stig
Malta: 10 stig
Moldavía: 10 stig
Pólland: 10 stig
Albanía: 8 stig
Grikkland: 8 stig
Rússland: 8 stig
Eistland: 7 stig
Finnland: 7 stig
Slóvakía: 7 stig
Spánn: 7 stig

Hvíta-Rússland: 6 stig
Portúgal: 6 stig
Þýskaland: 6 stig
Frakkland: 5 stig
Serbía: 3 stig
Lettland: 2 stig
Makedónía: 1 stig
______________
Samtals: 123 stig – 3. sæti á eftir Grikkjum og Belganum

Ómögulegt er að reikna út vinsældir eða orsakir fyrir því að við komumst ekki hærra en 19. sæti. Þessi stig eru eins og áður hefur komið fram 50% símakosning og 50% dómnefnd. Ef stigagjöfin í undanúrslitunum og í úrslitunum sést að dreifingin er vissulega mun meiri á undankvöldinu, en þó eru nokkur lönd sem gefa Íslandi mörg stig á báðum kvöldum; Belgía, Malta, Finnland og Eistland.

Úrslit undankeppnanna

Strax og útsendingu lauk á úrslitakvöldinu á laugardaginn var gefið út hver úrslitin urðu í undanúrslitunum. Mjög mjótt var á mununum á 10. og 11. sæti í báðum undanriðlum. Á fyrra undankvöldinu munaði einungis 3 stigum á Moldavíu sem lenti í 10. sæti riðilsins og Finnlandi sem lenti í því 11. Á seinna undanúrslitakvöldinu munaði 5 stigum á 10. og 11. sæti en þá lentu Kýpur og Írland í 9. og 10. sæti, bæði með 67, en Svíþjóð var næst á eftir með 62 stig. Það var því afar mjótt á munum og má því vera ljóst að bæði Anna Bergendahl frá Svíþjóð og finnsku þjóðlagasöngvararnir mega vera ánægð með árangurinn.

Vinningshafi fyrri riðilsins var Belginn Tom Dice sem endaði að lokum í 6. sæti í lokakeppninni. Tom vann riðilinn með nokkrum yfirburðum en hann hlaut í heildina 167 en Grikkir sem voru næstir á eftir hlutu 133 stig. Hera Björk var í þriðja sæti riðilsins og hlaut í heildina 123 stig, nokkuð fleiri stig er Portúgal sem lenti í 4 sæti með 89 stig.

Tyrkir unnu á seinna undarúrslitakvöldinu og fengu í heildina 118 stig og lentu í 2. sæti í lokakeppninni. Næst á eftir var Azerbaídjan með 113 og í þriðja sæti Georgía með 106 stig. Það má því sjá að seinni riðilinn var nokkuð jafnari en sá fyrri. Rúmenía og Danmörk voru í 4. og 5. sæti riðilsins með 104 og 101 stig. Athygli vakti að Kýpur og Írland hlutu jafnmörg stig eða 67, og þurfti því að draga hvort þeirra lenti í 9. sæti og hvort í 10. sæti.

Röð landanna var eftirfarandi í riðlunum:

Fyrri undanúrslit 25. maí

1. Belgium (167 points)
2. Greece (133)
3. Iceland (123)
4. Portugal (89)
5. Serbia (79)
6. Albania (76)
7. Russia (74)
8. Bosnia & Herzegovina (59)
9. Belarus (59)
10. Moldova (52)
11. Finland (49)
12. Malta (45)
13. Poland (44)
14. Estonia (39)
15. FYR Macedonia (37)
16. Slovakia (24)
17. Latvia (11)

Seinni undanúrslit 27. maí

1. Turkey (118 points)
2. Azerbaijan (113)
3. Georgia (106)
4. Romania (104)
5. Denmark (101)
6. Armenia (83)
7. Ukraine (77)
8. Israel (71)
9. Ireland (67)
10. Cyprus (67)
11. Sweden (62)
12. Lithuania (44)

13. Croatia (33)
14. The Netherlands (29)
15. Bulgaria (19)
16. Slovenia (6)
17. Switzerland (2)

Nánar er hægt að lesa um hver gaf hverjum sig í fyrri og seinni undanúrslitum á vef keppninnar.