Yfirferð laga 2010 VIII

Þetta er síðasta yfirferðin! Nú höfum við farið yfir öll löndin og spáð og spöglerað. Við skellum inn spá fyrir þriðjudaginn um helgina, hverjir komast áfram og hverjir sitja heima! Fylgist svo með framhaldinu!

Við förum til Oslóar á sunnudaginn!! 🙂

Frakkland – Alllez Olla Olé í flutningi Jessy Matador

Hildur segir: Tja ég veit ekki hvað maður á að segja um franska lagið í ár. Mér finnst það afar hresst, ég get ekki sagt annað og ætli ég dæmi það ekki klúbbalag keppninnar í ár. Ég sé alveg fyrir mér léttklædda dansfíkla á danskólum meginlandsdiskóteka sólarstrandanna þegar ég heyri lagið. Mér finnst lagið pínu skemmtilegt en ekki meira en það. Ég er þó alls ekki viss um hvernig það fellur inn í keppnina í ár og á erfitt með að spá um gengi þess.

Eyrún segir: Ég hef yfirleitt lúmskt gaman af frönsku lögunum. Þeir sendu oft svona yfirlætisfullar söngkonur sem héldu að þær myndu rúlla þessu upp sem varð svo ekki raunin og niðurstaðan ekki eins og sóst var eftir. Þeir eru þó sannarlega stórþjóð hvað Eurovision-sigra varðar; hafa sigrað fimm sinnum og eru næstir á eftir Írum, hafa fjórum sinnum vermt annað sætið og níu sinnum hið þriðja! Í ár slá þeir hins vegar tvær flugur í einu höggi og senda bæði Eurovision- og HM-lag. Lagið heitir Allez Olla Olé sem er vel þekkt fótboltaslagorð í Frakklandi og lagið verður vafalítið kyrjað í S-Afríku! Það er ágætlega grípandi en ekki nógu mikið til að Frakkar standi með pálmann í höndunum!


Þýskaland Satellite í flutningi Lenu

Hildur segir: Fyrst þegar ég heyrði þetta lag gat ég ekki alveg keypt það og fannst það bara frekar leiðinlegt. Ég hef hins vegar algjörlega skipt um skoðun og finnst lagið alveg frábært! Það er bara eitthvað bæði við Lenu og lagið sem gerir það ómótstæðilegt og mikið eurovision á sama tíma og það er alls ekki eurovisionlegt. Lenu er spáð góðu gengi í veðbönkunum, er rétt á hæla hinnar azerbætjinsku Safuru í toppsætið. Ég hlakka mikið til að sjá Lenu á sviðinu og spái henni góðu gengi og jafnvel sigri í ár.

Eyrún segir: Uppáhaldslagið mitt í keppninni. Ég vissi strax og ég heyrði þýska lagið að nú væri Þýskaland að vakna úr Eurovision-dvala síðustu 28 ára! Frá því að þeir unnu með Ein Bisschen Frieden hafa þeir þó tvisvar lent í öðru sæti og einu sinni í því þriðja en síðari ár hafa verið mjög slök. Í ár héldu þeir undankeppnina Unser Star fur Oslo sem voru sjö undankvöld. Lena Meyer-Landrut sigraði og er alvöru stjarna í Þýskalandi fyrir vikið, aðeins 18 ára gömul. Lagið er mjög grípandi og líflegt og maður getur varla setið kyrr þegar maður hlustar á það! Ef hún stendur sig á sviðinu og flytur þetta almennilega þá munu Þjóðverjar bjóða til veislu að ári! Það er líka kominn tími á stórþjóð – og af þeim stóru fjórum er Þýskaland langlíklegast! Go Lena!


NoregurMy heart is yours í flutningi Didriks Solli-Tangen

Hildur segir: Þegar ég sá þetta lag fyrst þá bara trúði ég því ekki að Norðmenn myndu velja það sem framlag sitt í ár og varð  því afar hissa þegar ég sá úrslitin í norsku keppninni. Ég er lítið fyrir óperublandið popp í Eurovision, það hefur í flestum tilfellum ekki gengið upp. Hins vegar finnst mér Didrik komast betur frá því en margir aðrir. Hann beitir röddinni á sinn hátt en er ekki að blanda saman poppsöng og óperusöng eins oft hefur verið gert. Þetta gerir lagið alveg einstakt finnst mér og vöxturinn í því er góður líka. Þó að ég spái því ekki að Didrik muni vinna kemst hann örugglega í topp 10.

Eyrún segir: Yfirleitt er gestgjafaframlaginu hvert ár spáð virkilega góðu gengi. Lagið hans Didriks er gott en ekki nógu gott til að sigra fyrir Noreg annað árið í röð. Hann flytur þetta vel og lagið er mjög sérstakt en samt vantar e-n neista. Kannski bara eins gott, því Norðmenn vilja alls ekki halda keppnina aftur!


SpánnAlgo Pequeñito (Something Tiny) í flutningi Daniel Diges

Hildur segir: Spánverjar hafa ekki riðið feitum hesti frá Eurovision undanfarin ár. Þeir hafa reynt ýmislegt með misgóðum árangri. Í ár senda þeir söngleikjalag, lagið sem þú hefur heyrt í öllum söngleikjum á einhverjum tímapunkti! Daniel er mjög vanur söngleikjamaður á Spáni og á því vel heima í þessu lagi. Hann flytur það vel og myndbandið er afar líflegt þar sem við erum stödd í fjölleikahúsi þar sem ýmsar persónur fara á kostum, meðal annars Lína Langsokkur. Þrátt fyrir að finnast lagið ágætt og myndbandið skemmtilegt þá er ég alls ekki viss um að söngleikjaformið gangi í Eurovision.  Gengi lagsins veltur held ég algjörlega á sviðsframkomunni.

Eyrún segir: Spánverjar lögðu mikið í undankeppnirnar, höfðu viðamikla símakosningu á netinu og vildu virkja þjóðina. Þeir eru orðnir langeygir eftir sigri (rétt eins og hinar stóru þjóðirnar) en síðast unnu þeir 1968 og lentu í öðru sæti 1995 þegar Nocturne sigraði. Nú senda þeir rauðhærðan hnokka sem getur vel sungið. Lagið er þó alls ekki minn tebolli og mér finnst það fremur leiðinlegt. Kannski skánar það með atriðinu hver veit. Þeir gera engar gloríur í ár!


BretlandThat Sounds Good To Me í flutningi Josh

Hildur segir: Ég verð nú bara að segja úff hérna…… Bretum gekk ágætlega í fyrra, í fyrsta skipti í mjög langan tíma. En svo virðist ekki vera að þeim muni ganga vel í ár. Lagið er eftir fræga lagahöfunda sem hafa samið fyrir hinar ýmsu stór stjörnur. Svo virðist þó að þeim hafi ekki tekist að semja smell að þessu sinni. Lagið er með afleiddu viðlagi og Josh greyið er allt of óöruggur til að syngja rétt, hann er oft á tíðum á mörkum þess að vera falskur og mér finnst eins og honum líði ekki vel á sviðinu. Ég spái því þess vegna að Bretar verði í botnsætunum í ár.

Eyrún segir: Aumingja Bretar. Þeim gekk vel í fyrra og deila með Frökkum heiðrinum af að vera önnur sigursælasta þjóðin í Eurovision, hafa unnið 5 sinnum. Þeir halda þó áfram að senda léleg lög ár eftir ár. Í ár voru þeir með undankeppni heima fyrir en ef þetta var skásta lagið… Einhvern tímann var hugmynd að senda Morrissey í Eurovision. Bretar ættu alvarlega að íhuga það!!

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s