Yfirferð laga 2010 VII

Þetta er síðasta yfirferðin okkar á undanúrslitunum. Næst eru það bara hin fjögur stóru og Noregur á úrslitakvöldinu. Fylgist með!


Kýpur – Life Looks Better In Spring í flutningi Jon Lilygreen & The Islanders

Hildur segir: Það er alltaf eitt lag í hverri keppni sem ég gleymi bara alveg. Þetta er það lag í ár. Þessi gleymska er ekki endilega vegna þess að lagið er ekki gott eða skemmtilegt; það er bara einhvern veginn ekki eftirminnilegt. Þegar ég hlusta á lagið finnst mér það huggulegt og fínt en alls ekki til þess fallið að gera góða hluti í keppninni. Ég held því miður að Kýpverjar sitji því eftir í ár.

Eyrún segir: Kýpverska lagið í ár er sungið af ungum strák frá Wales sem var boðið að keppa um að taka þátt fyrir hönd Kýpur eftir að lagahöfundarnir rákust á demo frá honum á netinu! Já, ævintýrin enn gerast!  Lagið er hins vegar dálítið litlaust og ekkert voðalega bitastætt. Spurning hvað verður gert á sviðinu en ég býst við látlausu umhverfi. Þetta lag er ekki líklegt upp úr undanúrslitunum!


Króatía – Lako Je Sve í flutningi Feminnem

Hildur segir: Einhverra hluta vegna hef ég líka svolítið gleymt þessu lagi. Þetta lag finnst mér hins vegar vera alveg hressilegasta ballaða og það mun án efa verða flutt af prýði á sviðinu enda hafa þær skvísur í Feminnem sungið saman lengi. Af mörgum ballöðum í keppninni þá held ég að þessi muni ná lengra en margar aðrar, ekki bara fyrir að vera fínasta lagasmíð heldur líka fyrir að þær stöllur syngi það. Af myndbandinu að dæma má ætla að þær verði svona í lágstemmdari kantinum á sviðinu en maður veit nú aldrei. Ég spái því að Króatar komist áfram í úrslitin.

Eyrún segir: Aðrir fyrrum keppendur í Júróvisjón snúa aftur í kvennatríóinu Feminnem sem keppti síðast fyrir hönd Bosníu árið 2005 með lagið Call me en þær voru bara lánaðar þangað og keppa nú fyrir heimalandið, Króatíu. Call Me var svona hressilegt ABBA-skotið lag en nú eru þær meira í balkan/popp/r ‘n’ b-ballöðunum. Lagið heitir Lako Je Sve, er sungið á þjóðtungunni og ég er búin að vera með það á heilanum í bráðum þrjár vikur! Vakna með það í hausnum á morgnana og raula fram á kvöld! Söngurinn er mjög fallegur og þeim er spáð mjög góðu gengi. Ég held að útkoma velti algjörlega á sviðsframkomunni – en þær gætu alveg mætt berfættar eins og í myndbandinu og gert það gott! 🙂 Lagið sjálft á skilið að komast áfram!


Georgía – Shine í flutningi Sofiu Nizharadze

Hildur segir: Þetta lag er keimlíkt fallegu lagi sem tók þátt í dönsku undankeppninn árið 2009. Þó að það lag hafi verið fallegt og þetta sé það líka þá held ég að Shine vinni ekki ballöðukeppnina í ár.  Sérstaklega ekki þar sem hún kemur beint á eftir Femminnem sem munu án efa gera það gott á sviðinu. Af þessum sökum tel ég líklegt að Gerorgía sitji eftir í ár þrátt fyrir fallegt lag.

Eyrún segir: Georgía tók fyrst þátt 2007 og hefur alltaf komist upp úr undanriðlinum að árinu 2009 undanskildu en þá tóku Georgíumenn ekki þátt vegna deilna við Rússa. Nú senda þeir unga stúlku, Sofiu, sem syngur hugljúft lag á ensku en lagahöfundarnir eru norskir og semja einnig framlag Noregs í ár. Melódían er falleg en ég held að staðsetningin á atriðinu, að vera á milli Króatíu og Tyrklands sem aðdáendur flykkjast um, geti verið Georgíu fjötur um fót og hún komist ekki áfram í ár.


Tyrkland – We Could Be The Same í flutningi maNga

Hildur segir: Mér finnst alltaf svo gaman þegar koma svona skemmtilegar og frægar hljómsveitir sem eru bara alls ekkert júróvísjonlegar og taka þátt í keppninni. Þetta hefur nokkrum sinnum gerst undanfarin ár og mörg lögin hafa gert góða hluti. Lagið sem hljómsveitin maNga býður upp á er iðnaðarrokk af góðri gerð sem verður án efa skemmtilega flutt á sviðinu, enginn mjög skipulagður dans eða bakraddahreyfingar heldur alvöru rokkband á stóru sviði! Ég held að með þessu og almennri velgengi Tyrkja í Júróvísjon þá muni Tyrkir fljúga í úrslitin.

Eyrún segir: Tyrkir lentu í 4.sæti í fyrra með Dum Tek Tek með Hadise en senda rokkaðra lag í ár. Hljómsveitin maNga var stofnuð 2001 og spilar rokk og rapp í bland, svolítið í anda System of a Down. Hún er margverðlaunuð og hlaut m.a. verðlaun sem besta evrópska bandið á evrópsku MTV-verðlaunahátíðinni 2009. Lagið We Could Be the Same er iðnaðarrokk undir tyrkneskum áhrifum og gæti gert góða hluti. Svona lög eru þó ekki minn tebolli í keppninni en ef sviðsframkoman er flott flýgur þetta áfram!

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s