Yfirferð laga 2010 V

Danmörk – In a Moment Like This í flutningi Chanée & N’evergreen

Hildur segir: Danir hafa oft átt hugguleg og skemmtileg Eurovisionlög sem oft hafa verið í uppáhaldi hjá mörgum Íslendingum. Í ár bjóða Danir upp á dúet í ofurvel útsettum júróvísjon-poppballöðustíl. Þrátt fyrir nokkuð grípandi viðlag finnst mér lagið vera svolítið flatt og ekki bjóða upp á margt. Þegar ég heyrði það í fyrsta skipti fannst mér það alveg hrikalega leiðinlegt. Ég vona Dana vegna að það séu ekki fleiri sem upplifa það því þá er hætta á að þeim muni ekki ganga sem skyldi í keppninni. Þó svo að bæði Chanée og N’evergreen syngi lagið vel þá eru þau eins og tvær styttur sem haldast í hendur því það eru engin tengsl á milli þeirra á sviðinu í þessu lagi sem fjallar svo sterkt um ástina! Finnski Eurovision-sérfræðingurinn Thomas Lundin orðaði það að þetta liti út eins og þau væru frændsykstin fremur en ástfangið par. Þó svo að ég sé ekki yfir mig hrifin af laginu, og hafi áhyggjur af því að þau fái lungnabólgu noti þau vindvélina af eins miklum krafti í Osló og þau gerðu í undankeppninni í Danmörku, þá tel ég þau nokkuð örugg áfram.

Eyrún segir: Danska lagið í ár situr sem fastast á lista aðdáenda yfir sigurstranglegustu lögin og hefur þar talsvert forskot á næstu lög (ísraelska og þýska).  Í ár eru það því ekki bara Íslendingar sem eiga eftir að gefa Dönum fullt hús, ef að líkum lætur. Lagið er samið af sænskum lagahöfundi og er þar með í hópi fjögurra „sænskra“ laga í ár. Hin eru sænska lagið, írska lagið og azerbaídjanska lagið. Ég tek hins vegar alveg út fyrir þetta lag. Það er ofsalega einhæft en viðlagið er heilalímandi og nokkuð grípandi. Og það er það sem venjulegur sjónvarpsáhorfandi á eftir að grípa! Ekki sakar að dúóið Chenée og N’evergreen eru gífurlega vinsæl í Austur-Evrópu. Við höfum heyrt því fleygt að Jóhanna Guðrún hafi verið beðin um að syngja kvenröddina í laginu en hafnað því boði. Ég tel nokkuð ljóst að vegna grípandi laglínu eigi þetta lag eftir að komast áfram!


Sviss – Il pleut de l’or í flutningi Michael von der Heide

Hildur segir: Michael von der Heide flytur framlag Sviss í ár. Hann er hressileg týpa í myndabandinu og syngur mjög dæmigert popplag sem mér finnst hvorki vera fugl né fiskur. Það vex aðeins við hlustun en ekki nægilega mikið til að ég haldi að von der Heide muni gera góða hluti í keppninni. Er viss um að þetta er lag þar sem allir fari að poppa við og von der Heide sitji því heima þann 29. maí.

Eyrún segir: Sviss er staðsett mitt á milli tveggja stórra og vinsælla atriða og það er ekki alveg nógu gott. Þeim hefur ekkert gengið neitt svakalega vel undanfarin ár, eða bara síðan Vanilla Ninja komu með Cool Vibes árið 2005. Hann Michael vinur okkar (sem lítur dálítið út eins og Mad-strákurinn) syngur um gullna rigningu (!) í hvert skipti sem hann ræðir við ástvininn um kærleikann… Þetta er alveg týpísk danslag og viðbúið að e-ð mikið show verði á sviðinu. Ætli hann steli gylltu sturtunni hennar Silvíu Nætur 2006? Hann tók þátt í þýsku undankeppninni árið 1999 en hafði ekki erindi sem erfiði. Ég held að hann geri engar gylltar gloríur í ár og komist ekki áfram.

Svíþjóð – This is My Life í flutningi Önnu Bergendahl

Hildur segir: Þetta er algjörlega mitt uppáhaldslag í keppninni í ár. Þegar ég sá og heyrði Önnu flytja lagið í Melodifestivalen í Svíþjóð hitti það mig beint í hjartastað. Það er eitthvað svo hugljúft, einlægt og hreinskilið við lagið og flutning Önnu í strigaskónum sínum með gítarinn. Anna er traustur flytjandi og lét það ekki á sig fá að syngja fyrir þúsundir manna á úrslitum Melodifestivalen. Ég er þess fullviss að Anna fari áfram og nái jafnvel langt í aðalkeppninni.

Eyrún segir: Þetta er annað af tveimur uppáhalds lögunum mínum! Ofsalega hugljúft lag sem grípur mann nánast við fyrstu hlustun. Hún er látlaus í strigaskóm við kjól og gítar sem hún virðist nú lítið spila á. Eins og Öggi lagahöfundur íslenska lagsins sagði er þetta líka svo flott nafn á lagi! 🙂 Svíþjóð er sigursælasta Norðurlandaþjóðin og sýnir það eiginlega og sannar í ár, auk þess sem þrjú önnur „sænsk“ lög eru í keppninni eins og áður sagði. Anna Bergendahl er 18 ára sigurvegari úr Idolinu fyrir tveimur árum og stendur sig vonandi glimrandi vel á sviðinu í Osló.

AzerbaídjanDrip Drop í flutningi Safuru

Hildur segir: Þetta er eitt af þeim lögum sem ég hef algjörlega skipt um skoðun á. Í fyrstu skiptin þegar ég heyrði lagið fannst mér það alveg hrikalega leiðinlegt en núna er það eitt af mínum uppáhalds í keppninni. Það er eitthvað voðalega grípandi við lagið finnst mér sem er kröftug ballaða. Safura syngur lagið alveg ágætlega þó hún mætti gefa aðeins meira af sér en bara röddina, enda er þetta nú sjónvarpskeppni! Ég er sérlega hrifin af dönsurunum hennar Safuru sem  voru með henni á sviðinu heima fyrir sem og dönsurunum í myndbandinu hennar. Í báðum tilfellum eru á ferðinni alvöru dansarar sem dansa langt frá því hefbundinn eurovision-dans sem mér finnst oft á tíðum of hallærislegur.  Ég er svo hrifinn af dönsurunum að ég  vildi helst sjá Safuru bara til hliðar á sviðinu og láta dansarana vera í aðalhlutverki. En hvort sem af því verður er ég þess fullviss að Safura fljúgi áfram í úrslitin.

Eyrún segir: Safura vinnur a.m.k. kynningarverðlaunin í keppninni í ár! Á síðunni Eurovisiontalents.com hefur kynningarherdeild hennar komið upp gífurlega öflugri síðu á öllum þjóðtungum Evrópu, þar á meðal íslensku. Sagt var frá því á Vísi.is að hún hefði sent fréttatilkynningu og óskað Íslendingum sérstaklega gleðilegs sumars! Mikið er lagt í myndbandið (það er meira að segja líka tekið í sundlaug!) og hún hefur farið í kynningarferðir um alla Evrópu núna í undirbúningi fyrir Eurovision. Hér er sannkölluð díva á ferð og merkilega lík dökkhærðri Christinu Aguilera í útliti! Hún er ágætis söngkona og lagið gæti gert góða hluti. Azerbaídjan hefur gengið vel þessi tvö ár sem það hefur keppt og lent inni á topp 10 í bæði skipti. Í ár verður það ekkert öðruvísi og Safura flýgur í gegn!

ÚkraínaSweet People í flutningi Aloyshu

Hildur segir: Úff segi ég nú bara. Úkraína, sem oftast er hægt að treysta á að komi með vel flutt stuðlag með óaðfinnanlegri sviðsframkomu, býður í ár upp á eitt af sínu verstu framlögum allra tíma í sögu þeirra í keppninni. Lagið er rokkballaða sem hún Aloysha syngur ágætlega en lagið er bara svo hræðilega leiðinlegt að maður nennir alls ekki að hlusta á það. Aloysha þarf þó ekki að óttast þó illa gangi í Eurovision því hún gerði nýlega stóran plötusamning í Bandaríkjunum. Ég held að Úkraína sitji heima í ár.

Eyrún segir: Við höfum hér á síðunni áður fjallað um vesenið sem Úkraína hefur lent í ár með sitt framlag. Að lokum var það Aloysha sem er send fyrir hönd heimalandsins með frumsamið lag sitt um fallega fólkið og allt þetta ljóta í heiminum. Lagið er nú ekkert svakalega sterkt og er ekki spáð góðu gengi af aðdáendum eða veðbönkum.

Auglýsingar

2 athugasemdir við “Yfirferð laga 2010 V

  1. Doddi Jonsson skrifar:

    Í þessari yfirferð myndi ég spá öllum upp úr forkeppninni nema Sviss 🙂 Ég held nefnilega að úkraínska lagið geti komið á óvart. Í umræðunum á esctoday.com hef ég séð ansi margar jákvæðar umsagnir um lagið en hvort það skili sér í keppnina kemur í ljós. Ljóst er að seinni riðillinn verður mun meira spennandi en sá fyrri og því spái ég þó nokkrum lögum verra gengi en veðbankar/aðdáendur geri ráð fyrir.

    Ég þoli ekki titringinn í sænska laginu, þ.e. í röddinni og finnst hún virka stressuð þótt hún sé það eflaust ekki. Held að Svíþjóð geti verið eins og Danmörk: on or off … og mögulega náð langt og mögulega setið eftir.

  2. jurovision skrifar:

    Já það er sennilega rétt hjá þér, Doddi – við skulum ekki vanmeta Úkraínu!:) Við erum heppin að vera í fyrri riðlinum!
    Takk fyrir lesturinn!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s