Yfirferð framlaga 2010 I

Nú þegar rúmur mánuður er þar til Júróvísjon hefst er komið að því að líta yfir framlögin í keppninni í ár og setja fram okkar álit á þeim. Í ár verður hægt að kjósa eftir hvert og eitt lag og það gæti haft nokkur áhrif en við gerum okkar besta 🙂

Þetta mun ganga þannig fyrir sig að fjallað verður um fimm framlög í einu. Við hvert  framlag verða gefin tvö álit, annað frá Hildi og hitt frá Eyrúnu. Fjallað verður um framlögin í þeirr röð sem þau stíga svið.

Í þessari fyrstu yfirferð verður því fjallað um framlög Moldavíu, Rússlands, Eistlands, Slóvakíu og Finnlands.

MoldavíaRun away í flutningi Sunstroke Project & Olia Tira

Hildur segir:
Moldavia teflir fram hressu og skemmtilegu Europopplagi af góðri tegund. Lagið er á einhvern hátt bæði nýtískulegt og gamaldags. Ég held það helgist af dæmigerðum europopp-stíl í bland við saxafónleik sem minnir mig óneitanlega mikið á 9. áratuginn. Myndbandið er líka í þessum anda, 9. áratugurinn mætir 21. öldinni. Lagið er eitt af mínum uppáhalds í keppninni og tel það algjörlega öruggt áfram.

Eyrún segir:
Moldóvar stíga allra fyrstir á svið með hresst unglingapopp. Það skemmtilega við það er 90‘s-saxófónninn og neon-fiðlan. Flutningur lagsins gæti orðið nokkuð brokkgengur á sviðinu, af frammistöðu söngkonunnar Oliu Tiru að dæma á youtube. Nokkuð góðar líkur á því að þessu lagi gangi vel og fari áfram.

Rússland – Lost and forgotten í flutningi Peter Nalitch & Friends

Hildur segir:
Rússar tefla fram þjóðlagaskotinni ballöðu eins og algengar eru í Eurovision. Hún minir mig meira að segja smávegis á balkanballöðu en er þó engan veginn nægilega sterk til að falla í þann hóp. Lagið byrjar ágætlega en versnar eiginlega þegar líður á það. Rödd Peters er örlítið undarleg. Það er eins og hann sér að reyna að vera óperusöngvari en hafi aldrei lært neitt. Millikaflinn með spurningunum er alveg til að deyja fyrir, það er svo hallærislegt! Þetta er ekki í uppáhaldi hjá mér nema kannski til að hlæja að. Ég er ansi hrædd um að rússar séu búnir að ná toppnum í bili í Eurovision og það líði nokkur tími þar til við fáum framlag frá þeim sem mun hoppa inn í aðalkeppnina.

Eyrún segir:
Í fyrra lentu Rússar sem voru gestgjafar í 11. sæti með ballöðuna Mamo. Í ár senda þeir nýstirnið Peter Nalitch og hljómsveit. Hann hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn í hinum rússneskumælandi heimi eftir að hann var stjarna á Youtube með lagið Gitar. Hann er ekki síst vinsæll vegna þess að hann gerir alla sína tónlist aðgengilega á netinu. Hann verður þó að teljast vægast sagt „indie“-tónlistarmaður og lagið Lost and Forgotten er akkúrat þannig og minnir nokkuð á ballöður áttunda áratugarins í Eurovision. Einhverjar getgátur eru um að þetta sé grín en það skilar sér þá afskaplega takmarkað! Í myndbandinu kemur hann fram í einhvers konar náttbuxum og syngur á nánast óskiljanlegri ensku. Þetta er eitt þeirra laga sem við á Allt um Júróvisjón kjósum að kalla SS-lag; Skelfing eða Snilld!! Telja verður nokkuð líklegt að Rússar komist áfram upp úr undankeppninni vegna menningaráhrifa þó að lagið eigi það sannarlega ekki skilið!

Eistland – Siren í flutningi Malcolm Lincoln

Hildur segir:
Eistar bjóða upp á svolítið framúrstefnulegt lag í ár. Það er á engan hátt Eurovisionlegt og líkist ekki neinu sérstöku. Lagið er þó klárlega popplag enda harður trommutaktur undir þessu undarlega lagi. Myndbandið er enn undarlegra, maður með stóran og brotinn haus…. maður segir ekki meira! Mér finnst lagið það leiðinlegt að ég nenni varla að hlusta á það til enda og fer alveg örugglega að poppa þegar það kemur. Ég spái því að Eistar komist ekki í úrslitin í ár.

Eyrún segir:
Urban Symphony komu Eistlandi sannarlega á kortið í fyrra og ballaðan Rändajad skilaði þeim 6. sæti. Í ár fara þeir óhefðbundnari leiðir með laginu Siren með Malcolm Lilncoln. Lagið er indie-rokk lag og minnir á Coldplay árið 1985 🙂 Þetta er atriði sem byggir algjörlega á flutningi á kvöldinu sjálfu, gæti alveg floppað eða gengið upp og er því nokkuð óræð stærð og erfitt að spá því áfram.

Slóvakía – Horehronie í flutningi Kristina Pelakova

Hildur segir:
Slóvakar eru með á nótunum í ár! Þeir senda frá sér lag með hægri laglínu en europopp-undirspili en þó með örlitlum þjóðlegum brag. Sungið er á móðurmálinu og nýtur tungumálið sín einstaklega vel í laginu. Það er eitthvað heilt við lagið sem gefur því brag sem fær mann til að muna eftir því. Ég get þó ekki sagt að ég fái það á heilann. Það sem stingur mig helst eru hræðilegir búningar á sviðinu bæði á Kristinu og dönsurunum hennar, sem eru annars mjög skemmtilegir. Undir lok lagsins bregða dansaranir á leik með gömlu banda-trixi sem Armenar og Tyrkir hafa meðal annars notað áður með ágætum árangri. Undir lok myndbandsins er skipt yfir á mynd þar sem ber að líta flytjendur í öllu einfaldari búningum. Það finnst mér eiga mun betur við. Ég tel að árangurinn yrðir bestur ef einblínt er á dansinn og söngkonuna í einföldum klæðum fremur en bönd og undarlega búninga. Ég spái Slóvökum áfram í úrslitin.

Eyrún segir:
Slóvakía hefur ekki verið til stórræðanna í Eurovision og tóku sér hlé frá keppninni 1999–2009 en komust ekki áfram úr undankeppninni í fyrra. Í ár leita Slóvakar ekki langt yfir skammt og leita til taktfastrar poppballöðu í anda Ruslönu hinnar úkraínsku. Lagið heitir Horohronie og er óður til samnefnds landsvæðis í Slóvakíu sem afmarkast af Hron-ánni og Tatra-fjallgarðinum. Í myndbandinu er þetta undirstrikað með skógarmyndum, grænni lýsingu og Ruslönu-búningum. Lagið er þó mjög grípandi og fallegt tungumálið fær að njóta sín. Slóvakía ætti því tvímælalaust að komast áfram!

Finnland – Työlki Ellää í flutningi Kuunkuiskaajat

Hildur segir:
Ég er hálf orðlaus yfir þessu atriði Finnanna. Þó að þetta sé háalvarlegir og virtir þjóðlagatónlistarmenn í Finnlandi þá finnst mér þetta líta út eins og grín. Satt best að segja finnst mér þetta ofur hallærislegt og engan veginn til þess fallið að gera góða hluti. Ég held að Finnar sitji eftir og komist ekki í úrslitin.

Eyrún segir:
Finnar sendu í fyrra danssmellinn Lose Control, komust áfram á dómaraatkvæði og lentu í 25. sæti. Í ár senda þeir mun „finnskara“ atriði, harmónikkupolka sunginn á finnsku af tveimur ljóshærðu þjóðlagasöngkonum.  Ekki finnst mér mikið varið í lagið og ef eitthvað er að marka myndbandið þarf mikið til að atriðið á sviðinu hjálpi til. Þetta er svona ræ-ræ-ræ-lag kvöldsins, tími til kominn að poppa!

2 athugasemdir við “Yfirferð framlaga 2010 I

  1. Margrét Snæfríður skrifar:

    Moldavía: Eitt af mínum uppáhalds, saxófónninn og jólaljósafiðlan eru frábær.
    Rússland: Haha! Skelfing eða snilld, þar er ég sammála ykkur. En þó að þetta sé kannski ekki grín þá er þetta samt bráðfyndið. Þetta er þó næstneðst á mínum lista.
    Eistland: Þetta lag er best! Mitt uppáhald í augnablikinu, en er voða hrædd um að það séu ekki nógu margir sammála mér til að það nái góðu sæti.
    Slóvakía: Fallegt og ævintýralegt lag. En ég vil helst að búningarnir séu sem dramatískastir og íburðarmestir. Yrði glöðust ef hún klæddi sig upp sem tré.
    Finnland: Æ, ég elska Eurovision! Finnarnir eru með þetta í ár. Segi ekki meira.

    Frábær síða hjá ykkur, stelpur!

  2. Stefán Þór Sigfinnsson skrifar:

    Ég verð að viðurkenna að eftir því sem ég hlusta oftar á finska framlagið því æðislegra finnst mér það 🙂 Rosalega happy feelingur í því svona eins og var t.d. í framlagi þeirra 1988 með Boulevard sem mér finnst klárlega mjög vanmetið lag. Reyndar er svo með Finna eins og Portúgali og Hollendinga að þessi lönd virðast ekki eiga nóg af vinum. Sonja Lumme var klárlega með langbesta lagið 1985 en það náði ekki í gegn. Ætli tungumálin hafi ekki mjög mikið að segja. Tökum sem dæmi að frönskumælandi lögum Belga hefur vegnað mun betur en flæmskumælandi.

    Með Moldavíu verð ég hreinlega að segja að ég er kominn með upp í kok af þessu týspíska júró bíti með mis lélegum söngvurum og þar að auki voru svona allt að því öll önnur lög í undankeppninni hjá þeim betri. Þar fer ekki fyrir frumlegheitunum en betri söngvarar hefðu bætt lagið mjög mikið.

    Rússland er bara drasl

    Ég varð fyrir svakalega miklum vonbrigðum með að Palli og félagar skyldu spá 3 lélegasta laginu í ár og lang lélegasta framlagi Eista frá upphafi áfram.

    En mér til huggunar var ég búinn að segja fyrirfram að það skipti mig engu máli hvað þau segðu því vissi þetta mun betur 😉

    Af þessum lista tel ég einungis að Slóvakía komist á top 10 (geðveikt flottir búningar Hildur og hafðu það) og geti líklega unnið keppnina.

Skildu eftir svar við Margrét Snæfríður Hætta við svar