Annar listamaðurinn sem fjallað verður um hér í þættinum Sumir koma aftur er enginn annar en Dima Bilan frá Rússlandi. Dima hefur tvisvar sinnum tekið þátt í Eurovision. Fyrra skiptið var árið 2006 og flutti hann þá lagið Never let you go og varð í öðru sæti. Seinna skiptið sem Dima keppti var árið 2008 og kom hann þá, sá og sigraði með laginu Believe en þar var öllu tjaldað til.
Dima Bilan heitir raunar Viktor Nikolaevich Belan en notast við nafnið Dima Bilan þegar hann kemur fram. Dima er jólabarn ef miðað er við okkar íslensku jól því hann er fæddur 24. desember árið 1981. Dima ólst upp í Suðvestur-Rússlandi en flutti til Moskvu til að nema klassískan söng við Gnesins Musical College. Það var árið 2002 að Dima steig sín fyrstu spor í poppinu en þá tók hann þátt í einhverskonar söngkeppni sem ýmist er sögð vera rússnensk latínsk eða þekkt keppni í Austur-Evrópur sem kallast Jurmala. Í kjölfarið af þessari byrjaði ferill hans að rúlla og hann gaf út sína fyrstu plötu árið 2003.
Dima vildi snemma taka þátt í Eurovision og reyndi fyrir sér í undankeppninni í Rússlandi árið 2005 en lenti þá í öðru sæti. Árið 2006 tók hann aftur þátt í undankeppninni heima fyrir og náði 2. sætinu í Eurovision í Grikklandi með laginu Never let you go. Framistaða hans þar þótti góð en atriðið var umdeilt, þó sérstaklega dauða ballerínan í píanóinu. Rússar höfðu á þessum tíma nokkrum sinnum lent í öðru sæti í Eurovision og voru nú staðráðnir í að vinna. Árið 2008 sendu þeir því Dima aftur í Eurovision. Nú var ekkert til sparað. Timberland var fenginn til að útsetja lagið og heimsfrægur skautadansari fenginn til að skauta á sviðinu meðan Dima söng af krafti í fráhnepptri skyrtu. Allt þetta small og Dima sigraði eftirminnilega árið 2008.
Dima er alveg gríðarlega vinsæll í heimalandi sínu og í öllum fyrrverandi Sovétríkjunum og í kjölfar Eurovision hefur frægð hans náð víðar í Evrópu. Það má þó ekki gleyma því að þrátt fyrir að Dima hafi verið nánast óþekktur í Vestur-Evrópu er menningarheimurinn í Rússlandi jafn stór ef ekki stærri en Vestur-Evrópu- og Ameríkumarkaður.
Hér má sjá framistöðu Dima bæði árin 2006 og 2008. Dæmi nú hver fyrir sig hvort er betra lag og betri frammistaða!
Never let you go – 2006
Believe – 2008